09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3218 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú orðnar ótrúlega langar og víst sannarlega ástæða til þess að fara ekki að lengja þær um of. Það eru vissulega fjöldamörg atriði sem vert væri að víkja hér að, en ég mun nú samt aðeins víkja að tiltölulega mjög fáum þeirra.

Það er ekki oft kvartað yfir því á Alþ. að framkvæmdir á vegum ríkisins gangi of greitt fyrir sig. Hitt er öllu algengara, að kvartað sé yfir sleifarlagi í opinberum framkvæmdum og að áætlanir, sem gerðar hafa verið, standist ekki, að framkvæmdirnar séu þar af leiðandi mörgum árum á eftir tímanum og verði miklu dýrari fyrir vikið, vegna aukins vaxtakostnaðar og annars kostnaðar á byggingartíma. En nú ber svo við að haldið er hér uppi mjög löngum umr. á Alþ. þar sem aðalkjarni umr. er að ásaka Kröflunefnd og aðra aðila þessa máls fyrir að hafa gert það sem í þeirra valdi stóð til þess að hraða þessari virkjun.

Hvað snertir Kröfluvirkjun vil ég strax taka það fram, að það var frá fyrstu tíð sannfæring okkar að okkur bæri skylda til að reyna að hraða þessu verki eins og við gætum, enda var það einmitt eitt það atriði sem mest áhersla var lögð á í erindisbréfi til n. að virkjunarframkvæmdum yrði hraðað. En nú er sem sagt komið og sagt: Þið hafið hraðað ykkur um of. Þið hafið ekki hirt um ráðleggingar sérfræðinga. — Og eins og Sighvatur Björgvinsson sagði áðan, hv. þm. Vestf.: Mætustu sérfræðingar þjóðarinnar leggja á það áherslu að Kröfluvirkjun verði slegið á frest. — Nú veit að sjálfsögðu hv. þm. alveg nákvæmlega jafnvel og við aðrir þm. að það eru aðeins fáir sérfræðingar sem lagt hafa þetta til. Hinir eru miklu fleiri, sem borið geta þetta nafn, sem lagt hafa til, að haldið verði áfram framkvæmdum, og það með skýrum rökum. En hv. þm. er nú ekkert að hika við að skipta þessum blessuðu sérfræðingum í tvo hópa. Það eru annars vegar hinir mætustu sérfræðingar sem leggja þetta til, og svo er það væntanlega hinn listinn, sem verður líklega æðilangur, það eru þessir ómætu sérfræðingar sem eru á annarri skoðun.

En svo að ég haldi áfram tali mínu um sérfræðileg efni, sem ég verð að vísu að segja að eru nú kannske ekki mín sterka hlíð, þá kom mér nokkuð á óvart, miðað við þær umr. sem hér hafa farið fram, þegar hv. þm. Vilborg Harðardóttir nefndi það sem eitt atriði gagnrýni sinnar, að þakið á stöðvarbyggingunni þyldi ekki það öskufall sem hugsanlega gæti orðið á þessu svæði, og nefndi í því sambandi reynsluna frá Vestmannaeyjum. Ég hélt að það hefði komið nægilega oft fram í þessum umr. að þessi stöðvarbygging er hönnuð með hliðsjón af allra sterkustu jarðskjálftum sem orðið hafa hér á landi, og það er gert ráð fyrir því að slíkir jarðskjálftar, svo sterkir, eigi sér ekki stað á Kröflusvæðinu vegna sérstakra aðstæðna þar, og vísa ég þar til skrifa um það efni. En hið sama gildir að sjálfsögðu um þakið. Þakið er sérstaklega hannað með tilliti til hugsanlega mjög mikils öskufalls. Ég hef því miður ekki við höndina handbærar upplýsingar um það hvað þakið þolir mikinn og þykkan öskuskafl, en ef ég man rétt, það fer að vísu dálítið eftir því hver eðlisþyngd öskunnar er talin vera o.s.frv., — en eftir því sem ég man helst af umr. um þetta mál var talið að þakið þyldi örugglega öskuskafl sem væri af þykktinni milli 11/2 og 2 m., og það segir sig sjálft að það er mjög fráleitt að vísa þessu sambandi til slæmrar reynslu úr Vestmannaeyjum, vegna þess að málið er auðvitað nákvæmlega á hinn veginn, að reynslan úr Vestmannaeyjum var hagnýtt til þess að hanna þessa stöðvarbyggingu þannig að hún þyldi mjög mikið öskufall.

Í umr. um þetta mál hefur mikið verið rætt um hugsanlegan rekstrarkostnað þessarar virkjunar, og eitt af því, sem hv. þm. Vilborg Harðardóttir nefndi í þessu sambandi, var að það væri sá grundvallarmunur á jarðvarmavirkjunum og vatnsaflsvirkjunum, að þegar um væri að ræða vatnsaflsvirkjanir, þá yrðu menn að velja allt eða ekkert, þá kæmu engir áfangar til greina. Ég er ansi hræddur um að þarna sé æðimikill misskilningur á ferð, og það er greinilegt að hv. þm. hefur ekki gert sér grein fyrir því að þegar Sigölduvirkjun var í undirbúningi var einmitt gert ráð fyrir því upphaflega að hún yrði byggð í þremur áföngum. Það er að vísu alveg rétt, að að það er auðveldara og hagkvæmara að byggja jarðvarmavirkjanir í áföngum, og það er einn af stóru kostunum við þær virkjanir. Það er hins vegar ekki rétt að slíkt geti ekki líka átt sér stað hvað snertir vatnsaflsvirkjanir. Það hefur oft gerst og mun áreiðanlega oft gerast. Og það er eitt af því, sem menn spyrja um í sambandi við allar þessar miklu umr. um Kröfluvirkjun, þegar fyrir liggur að afgangsorkan frá Sigöldu virðist verða miklu, miklu meiri en nokkurn tíma afgangsorkan frá Kröflu, hvers vegna talar þá enginn hér um það hvers vegna Sigölduvirkjun var ekki reist í fleiri en einum áfanga? Hvers vegna voru allar vélarnar keyptar til Sigölduvirkjunar í einu lagi, enda þótt fyrir liggi að það verður aðeins notuð ein vél í byrjun? Á því eru ákveðnar skýringar. Ég er alls ekki að halda því fram hér að stjórn Landsvirkjunar hafi gert rangt í því. Ég býst við að hún hafi reiknað það rétt, að þetta breytti ekki ýkjamiklu fyrir rekstur virkjunarinnar eða það væri sem sagt hagkvæmast að geta keypt allar vélarnar í einu. En ég vek bara á því athygli að hér halda menn uppí löngum umr. um þetta atriði hvað snertir Kröfluvirkjun, en dettur ekki í hug að ræða það, að hið nákvæmlega sama gildir um Sigölduvirkjun og reyndar um flestar aðrar virkjanir.

Hér er því haldið blákalt fram í þessum umr. aftur og aftur að í sambandi við byggingu Kröfluvirkjunar hafi engum dottið í hug að velta fyrir sér hver rekstrarkostnaðurinn væri, engar rekstraráætlanir gerðar. Það er nú bersýnilegt að þeir, sem halda fram slíkum fullyrðingum, vita ekki ýkjamikið um þetta mál. Þeir eiga eftir að kynna sér býsna margt áður en þeir vaða hér upp og slöngva fram svo innantómum fullyrðingum. Hér hefur t.d. verið upplýst að áætlað verð miðað við kwst. á orku frá þessari virkjun verði kr. 1.80. (SighB: Því neitaði orkuráðh., þetta er rangt. Hann sagði framleiðslukostnaður, ekki verð.) Já, að sjálfsögðu, ég biðst afsökunar, það mætti orða þetta með nákvæmari hætti, það mætti orða þetta þannig að áætlaður framleiðslukostnaður verði 1.80 kr. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa ábendingu, því að þetta orð er miklu eðlilegra og hagkvæmara og auðveldar mér einmitt framhaldið, því að hvernig ætti að vera hugsanlegt að áætla framleiðsluverð öðruvísi heldur en einhver áætlun hefði verið gerð um rekstrarkostnaðinn? Hvernig í ósköpunum ætti slík tala að hafa orðið til ef menn hefðu ekki gert sér neina grein fyrir því hver kostnaðurinn yrði við rekstur virkjunarinnar? Segir það sig ekki einmitt sjálft að þetta, að um er að ræða framleiðslukostnaðarverð, það felur í sér að einhverjar áætlanir hafa verið gerðar um það hvað framleiðslan kostaði? Ég held að það liggi nokkuð í hlutarins eðli. Auðvitað hafa verið gerðar áætlanir um rekstur þessarar virkjunar eins og allra annarra virkjana, og það er út frá þeirri áætlun sem þetta orkuverð er reiknað. En hitt er allt annað mál, að þetta verð er að sjálfsögðu miðað við það þegar virkjunin selur alla sína orku, þegar virkjunin er fullnýtt. Að öðrum kosti væri ekki hægt að reikna þetta verð. Og það verður ekki fyrstu árin.

Ég get ekki svarað til um það hvort greiðsluáætlanir hafa verið gerðar í sambandi við virkjunina, því að um það hefur Kröfluvirkjunarstjórn ekki fjallað. En ég býst við að mönnum þyki að hæstv. orkumrh. hafi gefið allgóða skýringu á því atriði þegar hann ræddi um þann augljósa kjarna varðandi það atriði að gera mætti ráð fyrir því að framlengja yrði þau lán, sem tekin hafa verið, og að greiðsluáætlanir yrðu því síðar gerðar. Það hefur enginn látið sér til hugar koma að svo stór og mikil virkjun sem þessi yrði borguð niður á fáeinum árum. Það segir sig sjálft að við hljótum að dreifa greiðslubyrðinni á mjög langan tíma, og það er sjálfsagt eftir að gera margar greiðsluáætlanir í sambandi við þessa virkjun eins og aðrar virkjanir.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér varðandi Sigölduvirkjun áðan, vegna þess að bæði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og hv. þm. Vilborg Harðardóttir kvörtuðu svo mjög yfir því að hafa ekki séð neinar áætlanir um rekstur þessarar virkjunar: Hafa þessir þm. séð áætlanir um rekstur Sigölduvirkjunar reiknaðan stakan út af fyrir sig? Ég er ansi hræddur um að hv. þm. geti ekki bent á neinar slíkar áætlanir. Það eru til rekstraráætlanir fyrir Landsvirkjun í heild, þar sem Sigölduvirkjun er einn þátturinn í orkuöflun Landsvirkjunar og þar sem reiknað er út hvernig rekstur Landsvirkjunar komi út í heildina tekið. En það liggja ekki fyrir neinar áætlanir um rekstur Sigölduvirkjunar skoðaðrar sem sérstaks fyrirtækis, og ég er ansi hræddur um það, að ef menn tækju sig til og reiknuðu út hvert tapið væri á Sigölduvirkjun á fyrstu 2–3 árunum, ef við ætlum bara að taka þau ár og engin önnur ár, þá yrðu það býsna háar tölur og allmiklu hærri tölur en nokkurn tíma varðandi Kröfluvirkjun, því að sú virkjun er, eins og ég hef nú þegar tekið fram, miklu verr nýtt fyrst í stað heldur en Kröfluvirkjun verður. Hins vegar liggur það í augum uppi að slíkir útreikningar eru einskis virði. Það verður að líta á það hvernig slíkar virkjanir koma út á löngum tíma í fyrsta lagi og í öðru lagi í tengslum við raforkukerfið í heild sinni. Það er fráleitt að skoða Kröfluvirkjun rekstrarlega séð fyrir það afmarkaða svæði sem er nú samtengt á Norðurlandi.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að þeirri furðulegu einsýni sem mér virðist lýsa sér í tali nokkurra þm. um það að einhver hrikaleg misbeiting valds hafi átt sér stað vegna þess að valdar voru 60 mw. vélar, en ekki 55 mw. vélar. Hér hefur verið gerð grein fyrir því að þessar vélar hafa ástimplað afl 60 mw., og enda þótt hámarksafköst þeirra séu 70 mw., þá felst ekki í því neitt lagabrot vegna þess að svo er yfirleitt um allar orkuvinnsluvélar að þær hafa ákveðið ástimplað afl, sem er það afl sem gengið er út frá að sé í meðalkeyrslu. En þær hafa hins vegar ákveðin hámarksafköst. Og ég er viss um það að í mjög mörgum tilvikum hér á landi hafa hámarksafköstin legið fyrir ofan þær tölur sem lagaheimildir voru strangt tekið miðaðar við.

Nei, það var ekki verið að spara orðin í sambandi við þetta óskaplega lagabrot. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði hér um — ég skrifaði það eftir honum, — að grundvallarleikreglum lýðræðis og þingræðis hefði verið misboðið og þetta væri gróf misbeiting valds. Ja, það er merkilegt að þingræðið skuli enn haldast eftir svo ógurleg mistök. En um þessi mistök hafa menn vitað um alllangt skeið án þess að nokkur maður hafi heyrst nefna þessa ósvinnu. Ég veit ekki betur en það hafi verið tilkynnt um það fyrir meira en einu ári að vélarnar, sem keyptar hefðu verið, væru 60 mw. og með hámarksafköst 70 mw. Ég veit ekki til áð nokkur aðili, hvorki pólitískur aðili né sérfræðilegur aðili, hafi borið fram mótmæli vegna þessa, og hafa þó ekki verið fá tækifæri til þess hér á landi og hér í Alþ. að taka þetta mál til umr. Ég veit ekki betur en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi tekið þátt í afgreiðslu fjárlaga tvívegis, við afgreiðslu fjárl. 1975 og 1976 og í bæði skiptin hefur hann fallist á eða a.m.k. látið óátalið og ekki staðið hér upp til að mótmæla því að aflað væri fjármuna til þess að kaupa vélar sem hefðu hámarksafköst 70 mw. Um þetta hafa sem sagt allir vitað allan tímann án þess að nokkrum manni hafi dottið í hug að fara að tína þetta til fyrr en kemur að þessum úlfaþyt sem nú er á ferðinni. Ég tel að ef einhverjum hefði dottið í hug að þetta skipti einhverju máli, þá hefði auðvitað tafarlaust verið gengið í það að fá að breyta þessari lagaheimild og hækka þetta úr 55 mw. í 60 mw., og ég er ekki frá því að á þetta hafi einhvern tíma verið minnst í Kröflunefnd. En einhvern veginn varð aldrei af þessu vegna þess að menn óraði ekki fyrir því að nokkur gæti verið svo smásmugulegur að láta sig þetta nokkru varða.

Ef hér væru einhverjir hagsmunir á ferðinni sem skiptu máli, ef hér væru einhverjir sem ættu hagsmuna að gæta að koma í veg fyrir það að þessi tala hækkaði ekki um 5 mw. þá væri eðlilegt að fram kæmu mótmæli. Það er harla ólíkt í þessu tilviki og aftur varðandi Laxárvirkjun, þar sem menn höfðu hagsmuna að gæta varðandi það að ekki væri verið að byggja miklu stærri virkjun en lög leyfðu. Þar höfðu menn hagsmuna að gæta og þar mótmæltu menn og mótmæltu í tíma, mótmæltu allan tímann. Í þessu tilviki hefur ekki nokkur maður sagt neitt, vegna þess að menn voru ekki á þeim buxunum að vera svo smásmugulegir að láta þetta sig nokkru varða.

Í þessum umr. hefur mikið verið rætt um orkunýtinguna, og ég hjó eftir því að hv. þm. Vilborg Harðardóttir var hér með útreikninga sem snertu nýtingu orkunnar frá Kröflu, þar sem hún miðaði við orkumarkaðinn á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. Nú er það svo að það er ákaflega erfitt að henda reiður á tölur af þessu tagi og ég ætla því ekki að fella neinn dóm um þær, enda kom ekkert fram um það hvaðan þær væru fengnar. (VilbH: Þær eru fengnar úr orkuspá Orkustofnunar.) Úr orkuspá Orkustofnunar, já. En mér þótti dálítið einkennilegt að hún skyldi spyrja að því oftar en einu sinni hvað ætti að gera við orku sem þarna yrði hugsanlega afgangs, án þess að nefna þá nokkurn annan landshluta heldur en Austurland, Vesturland og Norðurland. Er alveg óhugsandi að orka yrði flutt frá Norðurlandi og suður á bóginn? Er það nokkuð annað en sjálfsagt, að ef um verður að ræða offramboð á orku á Norðurlandi og þörf verður fyrir orku hér syðra, þá verði hún að sjálfsögðu flutt suður eftir þessari ágætu byggðalínu. Ég vona satt að segja að þm. Reykv. hafi ekki gripið þetta gamla nafn svo fast í sig: „hundurinn að sunnan“, að þeir geti ekki hugsað sér að fá orku að norðan hingað í því skyni að fresta byggingu orkuvers hér syðra. Ég veit ekki betur en það hafi komið fram núna einmitt seinustu dagana, seinast frá einum hv. þm. Reykv., Einari Ágústssyni utanrrh., að brýna nauðsyn bæri til að taka tafarlaust ákvarðanir um byggingu Hrauneyjafossvirkjunar. Segir það sig ekki sjálft að Hrauneyjafossvirkjun á ekki rétt á sér hér syðra fyrr en búið er að nýta til fulls alla þá orku sem verður á sameiginlegum orkumarkaði á Norður- og Suðurlandi?

Það fer ekki milli mála að málflutningur andstæðinga Kröfluvirkjunar hefur miðað að því að stöðva framkvæmdir við þessa virkjun. Það er þeirra aðalkrafa. Og ég vil enn minna á að þessi krafa virðist ekki gegna ýkja rökstuddum eða skynsamlegum tilgangi. Eða til hvers er hún fram sett? Ég benti á það áðan og endurtek hér, að það er ekki hægt að sýna fram á að með þeim hætti verði fjármunir sparaðir. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson sagði áðan að sjálfsagt væri að fresta Kröfluvirkjun og nota tímann til að kanna frekar markaðinn. (BrS: Ég sagði ekki fresta, hægja á.) Eða hægja á, en hverju mun það breyta? Hefur hv. þm. hugsað sér að við munum þá selja vélarnar og kaupa aðrar í staðinn, eða hvað er það sem hann ætlast til að gert verði í millitíðinni? Liggur ekki alveg ljóst fyrir hv. þm., jafnvel og mér og öðrum, að það er búið fyrir einu ári að taka allar þær ákvarðanir um hönnun og gerð þessarar virkjunar sem máli skipta, og úr því sem komið er er það löngu liðin tíð að hagkvæmt sé að breyta þar nokkru sem máli skiptir? Hvað er það þá sem við vinnum á því að fresta eða hægja á framkvæmdum í sambandi við virkjunina?

Ég tek undir það, að þetta er einmitt það verk sem vinna þarf og hefði þurft að vinna fyrir löngu, að kanna betur markaðinn og gera ráðstafanir til að nýta orkuna. En ég sé ekki að við græðum eitt eða neitt á því að hægja á virkjuninni fyrir því. (BrS: Verður gufan til?) Ja, ef gufan verður ekki til, þá nær það ekki lengra. Ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess að láta vélarnar standa í pakkhúsi á Húsavík bara vegna þess að gufan sé ekki tilbúin. Það hefur verið upplýst margsinnis í þessum umr. að það er hægt að nota aðra vélina til orkuframleiðslu, jafnvel þótt gufan sé ekki fyrir hendi. Á því eru að vísu kannske einhverjir annmarkar, en það er enginn vafi á því að með því að nota aðra vélina til takmarkaðrar gufuframleiðslu, þegar sérstök neyðartilvik skapast og sérstök þörf verður á því, þá er hægt að bjarga miklu, og ég fæ alls ekki skilið hvers vegna hv. þm., sem nú er jafnframt hér á þingi fyrir norðlendinga, vill endilega knýja það fram að hægt verði á þessum virkjunarframkvæmdum, þannig að hann geti verið nokkurn veginn víss um að mikil vandræði verði á næsta vetri. Getur hann ekki orðið okkur sammála um það, að hitt er miklu réttara, að halda áfram eins og nú hefur verið ráðgert og sjá svo til hvort gufa verður komin. Það standa vonir í dag til þess að önnur vélin geti farið í gang, og það hljótum við allir að vona. Ef ekki verður hægt að reka þá vél með fullri orku, þá er kannske hægt að reka hana með hluta af því afli sem hún á siðar að skila. Ég fæ ekki séð að þetta séu nein rök fyrir því að hægja á virkjunarframkvæmdunum, því að það er ekki hægt að sýna fram á að með því sparist eitt eða neitt.

Hér er líka nefnt í þessum umr. að við eigum að slá þessum virkjunarframkvæmdum á frest vegna þess að eldgos sé í aðsigi. Hér er svo sannarlega komið inn á svið sem ég er ekki sérfræðingur á, síður en svo. En staðreyndin er hins vegar sú, að þeir sérfræðingar, sem Kröflunefnd hefur ráðgast um við hvað þetta atriði varðar og iðnrn. hefur að sjálfsögðu sérstaklega rætt við um þessi atriði, þeir telja ekki að ástæða sé til þess að slá virkjuninni beinlínis á frest vegna hættu á eldgosi. Ég veit vel að þegar hv. þm. veifar hér ákveðinni grein og telur að þar með sé mál hans endanlega sannað, þá veit hann hvert svarið er við slíkri röksemd. Skoðanir eru skiptar meðal sérfræðinga, og þó hv. þm. hafi mikið álit á þeim ágætu sérfræðingum sem hafa látið þetta álit sitt í ljós, þá er það síður en svo að það sé einróma álit sérfræðinga. Þeir eru skiptir í þessu máli, og mér er nær að halda að mikilli meiri hluti þeirra, sem hafa tjáð sig um þetta atriði, sé annarrar skoðunar. Ég held að menn geri sér grein fyrir því að það getur enginn sagt neitt fyrir um það, hvort muni gjósa á þessu svæði á næsta ári eða næstu 100 árum eða kannske ekki fyrr en eftir 200 eða 300 ár. Það hafa oft liðið, að því er talið er, milli 500 og 1000 ár á milli eldgosa á þessu svæði, og ég býst við að enginn treysti sér til að vera slíkur spámaður að hann geti neitt sagt um, hvort það sé rétt að bíða með framkvæmdir við Kröfluvirkjun eftir því að gos komi í ljós. Það má vera að við þyrftum þá að bíða í 100 ár þess vegna. Við getum því miður aldrei verið vissir í þessum efnum.

Þegar það er fullkomlega ljóst að ekkert virðist vinnast við það að fresta byggingu þessarar virkjunar, hver er þá eiginlega tilgangurinn með öllu þessu mikla upphlaupi? Jú, tilgangurinn er bersýnilega sá, að verið er að reyna að koma höggi á einstaka menn vegna þess sem heyrir liðinni tíð til. Ég tel að þeirri gagnrýni, sem beint hefur verið gegn framkvæmdum við Kröflu, hafi verið svarað með fullum rökum og að það sé ekki til góðs að halda þessu þrasi áfram um það sem heyrir liðinni tíð til. Ég held að nær væri að snúa sér að því að leysa þau vandamál sem við blasa. Við getum öll verið sammála um að orkan verður ekki nægilega vel nýtt á næstu árum. Ég hef gert grein fyrir hverjar eru skoðanir mínar á því, hver sé ástæðan fyrir því að illa hefur tekist til um orkunýtinguna, og ég tel að nú eigi menn að sameinast um það að sjá til þess að þeir hinir miklu orkugjafar við Sigöldu og við Kröflu, sem Alþ. á sínum tíma samþykkti að virkja, verði nýttir sem fyrst í þágu bæði innlends iðnaðar og til innlendrar húsahitunar, því að eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, þá hefur því miður ekki tekist nægilega vel til um nýtingu þessarar orku.

Það er margt fleira sem hér mætti nefna í þessu sambandi. En vegna þess að ég veit að hæstv. forseti vill gjarnan að þessum umr. fari senn að ljúka, þá læt ég þessi orð nægja.