09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3233 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Ég ætla nú ekki að fara að skemmta skrattanum með því að jagast hér við hv. þm. Ragnar Arnalds, við getum gert það annars staðar ef þörf er á. (Gripið fram í: Hvar?) Ja, t.d. á þingflokksfundum hjá okkur. Hins vegar vil ég benda á að hæstv. iðnrh. hefur ekki svarað öllum þeim spurningum sem til hans var beint. Hann hefur t.d. ekki svarað þeirri spurningu nægilega að mínu mati hvernig á að nýta orkuna 1980 þegar báðar túrbínurnar eru komnar í gagníð. Sennilega verða þær það miklu fyrr, vegna þess að þær verða, eins og fram hefur komið, báðar komnar á staðinn í ágúst, og ætli það verði þá miklu meira að tengja þær heldur en bara setja þær upp? Hann hefur ekki svarað þeirri spurningu, hvort fyrirhuguð sé einhver stóriðja á Norðurlands- eða Austurlandssvæðinu, eða kannske viðbótarstóriðja hér á Suðurlandssvæðinu ef farið yrði að nota byggðalínuna til þess að leiða rafmagnið suður, eins og einn hv. þm. benti á að hægt væri. Við þessu langar mig að fá svör hæstv. ráðh. Og ef þetta er hins vegar ekki fyrirhugað, sem ég myndi gleðjast yfir, þó að vísu verði að harma um leið að þarna sé þá verið að eyða orku út í bláinn, þá mundi ég vilja fá svör um það.