09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3234 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

191. mál, hafnarsjóðir

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þarf nú líka að hleypa af dampi, þó að það verði ekki annar eins og í sambandi við Kröflu. Ég hef leyft mér hér ásamt 4 öðrum þm. að bera fram till. til þál. á þskj. 401. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um nú þegar, að gerð verði ítarleg athugun á stöðu hafnarsjóða á landinu. Skal sú athugun beinast sérstaklega að:

1. Hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði hafnarmannvirkja.

2. Mismunandi aðstöðu hafna vegna náttúruskilyrða.

3. Arðsemi hafna með tilliti til framleiðslu og verðmætasköpunar.

4. Sérstökum ráðstöfunum til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem verst eru settir, sbr. bráðabirgðaákvæði gildandi laga um Hafnabótasjóð.

Athugun þessi skal enn fremur fela í sér endurskoðun á lögum um landshafnir.

Niðurstöður og till. skulu liggja fyrir við upphaf næsta þings.“

Ég hygg að öllum þeim, og þá ekki hvað síst hv. alþm., sem þekkja nokkuð til vandamála íslenskra hafna í dag, sé það vaxandi áhyggjuefni hve bág fjárhagsleg afkoma hafnarsjóðanna er orðin íþyngjandi viðkomandi sveitarfélögum. Mörg þeirra, þótt fámenn séu, skila þó þjóðarbúinu drjúgum tekjum í útfluttum sjávarafurðum, vissulega margfalt meiri tekjum hlutfallslega heldur en íbúatala þeirra segir til um. Það er staðreynd að við hina hraðstigu aukningu á fiskiskipaflota okkar á undanförnum árum, stærri og rúmfrekari skip, þá hefur hafnaraðstaðan ekki verið bætt að sama skapi. Kemur þar vafalaust hvort tveggja til: skammsýni og fyrirhyggjuleysi annars vegar og hins vegar skortur á fjármagni. Má benda á að meðan opinber fjárhagsfyrirgreiðsla til kaupa á fiskiskipum hefur numið allt að 95% af kaupverði skipanna hefur ríkisframlag til hafnarmannvirkja til skamms tíma numið 40%, eða fram til 1. jan. 1974, að sú hlutdeild ríkisins var aukin í 75%. Á meðan varið var 20 milljörðum kr. til skipakaupa, 40 skipa, var andvirði tveggja skipa, tveggja skuttogara, varið til hafnargerða. Nýjar framkvæmdir vegna fleiri og stærri skipa hafa dregið til sín stærstan hluta fáanlegs fjármagns, en viðhald eldri hafnarmannvirkja hefur verið vanrækt, svo að víða horfir nú til hreinna vandræða.

Engan veginn vil ég gera lítið úr þeirri miklu atvinnubót, sem hinn fríði floti nýrra skuttogara hefur verið okkur síðan hann kom til. Þessi skip hafa orðið byggðarlögum um allt land sannkölluð lyftistöng. Hitt er þó augljóst mál, og það sjáum við betur nú eftir á, að hyggilegra hefði verið og nauðsynlegt að huga betur jafnframt að bættum hafnarskilyrðum, þó svo að við hefðum keypt togaranum færra.

Nú þegar þrengst hefur í búi og horfur eru á að takmarka þurfi a.m.k. í bili sókn íslenskra fiskiskipa á miðin við strendur landsins, sem eru þar að auki í hers höndum í bókstaflegum skilningi, þá verður vandi fiskihafna okkar við stór ólokin verkefni meiri en nokkru sinni fyrr. Það er því knýjandi nauðsyn að leitað verði nýrra úrræða til að hlutaðeigandi sveitarfélögum verði léttar þær óviðráðanlegu byrðar sem sýnt er að mörg þeirra fái ekki öllu lengur risið undir, eigi þau ekki á annað borð að gefa upp á bátinn önnur verkefni sem þau þurfa að sinna, og þau eru hreint ekki svo fá. Ég þarf ekki að útlista það nánar, svo augljóst sem það er.

Í grg. með till. er vísað sérstaklega til tveggja skýrslna sem unnar voru af Gylfa Ísakssyni verkfræðingi á vegum Hafnasambands sveitarfélaga. Mikinn fróðleik og upplýsingar er þar að finna um afkomu hafnarsjóða undanfarin tvö ár. Er jafnframt bent á í grg. að þannig liggi fyrir nú þegar miklar og trúverðugar upplýsingar sem flýtt gætu athugun þeirri, er till. fer fram á, og um leið ákvörðunum af hálfu ríkisvaldsins um ákveðnar aðgerðir í þessum málum. Kemur m.a. fram í þessum skýrslum og þá einkum í hinni seinni þeirra, sem var unnin í lok síðasta árs, að hækkun á hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði hafna úr 40% í 75%, ásamt gjaldskrárhækkun, er tók gildi á fyrra helmingi ársins 1975, hefur engan veginn reynst fullnægjandi til að rétta við fjárhag hafnarsjóðanna sem hefur greinilega farið versnandi frá árinu 1973 er afkomu þeirra flestra var viðunandi. Hún er þó allmismunandi eftir höfnum, yfirleitt betri hjá hinum stærri kaupstöðum, svokölluðum blönduðum höfnum sem hafa verulegar tekjur af vörugjöldum ásamt aflagjöldum fiskiskipa. Þó hafa vörugjöldin yfirleitt farið minnkandi, þar sem vörumagn, sem fór um hafnirnar, minnkaði milli áranna 1974 og 1975. Hjá fiskihöfnunum hins vegar, þar sem lítið er um skipakomur og vöruflutninga, og einnig á hinum smærri stöðum, færri gjaldendur til sveitarfélagsins, þar er afkoman sýnu lakari. Hvað verst staddar eru í dag Bolungarvík, Neskaupstaður, Ólafsfjörður, Patreksfjörður, Sandgerði. Siglufjörður og Vopnafjörður. Hækkun aflagjalda, t.d. úr 1 í 1.5%, mundi vafalaust styrkja hafnarsjóðina, en hætt við að greiðendum aflagjaldanna, þ.e. eigendum fiskiskipanna, yrði slík hækkun um megn. Aflagjaldið mun vera nokkuð mismunandi frá einni höfn til annarrar, en 1% er sú tala, sem gengið er út frá í reglugerð hafna.

Til almennra tekna hafnarsjóða teljast skipagjöld og vörugjöld, þar með talin bryggjugjöld, lestargjöld, fjörugjöld og aflagjöld, eða almennt talað öll þau gjöld sem höfnin leggur á skip og vörur vegna umferðar eða notkunar hafnarinnar. Til almennra rekstrargjalda teljast öll rekstrargjöld önnur en fjármagnsgjöld, þ.e. vextir og afskriftir og þau rekstrargjöld er rakin verða til sérstakrar þjónustu eða sérstaks rekstrar, svo sem hafnsögu, vatnsveitu, voga, krana o.fl. Það hefur komið í ljós að ýmis þjónusta, sem hafnirnar veita, er rekin með miklu tapi, og virðast gjaldskrár fyrir þessa þjónustu alls ekki hafa fylgt almennu verðlagi í landinu undanfarin ár, sem sjá má af því, að gjaldskrár fyrir hafnsöguþjónustu hækkuðu ekkert frá árinu 1971 til 1975. Virðist eðlilegt að gjaldskrár fyrir ýmsa sérþjónustu hafna séu miðaðar við það að tekjur af þeim standi undir útlögðum kostnaði.

En þessi hlið málsins, rekstur hafnanna, skiptir þó engan veginn sköpum um afkomu þeirra. Það er fyrst þegar kemur að framkvæmdahliðinni sem kárna tekur gamanið. Það er í stuttu máli algerlega óraunhæft að ætla hinum smærri fiskihöfnum að standa að 1/4 hluta á móti ríkinu undir fjármögnun framkvæmda upp á tugi og hundruð millj. Lántökur á lántökur ofan þýða að sjálfsögðu sívaxandi skuldabyrði, ekki síst ef lánin eru vísitölu- eða gengistryggð, og verður viðkomandi sveitarfélögum fullkomlega ofviða að ráða við. Þegar vaxtagjöld ein nema orðið 32% af heildartekjum hafnarinnar og afborganir af föstum lánum 27% má glögglega sjá í hvert óefni er komið. En þessar tölur eiga við um þær 15 hafnir, sem tilteknar eru á fskj. með till. Þar kemur einnig fram að greiðsluhalli viðkomandi hafnarsjóða nemur allt að þriðjungi álagðra útsvara sveitarsjóðs í einstaka tilfellum.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að í tölum í fskj. yfir greiðsluafkomu hinna 15 hafna á árunum 1973 og 1975 er ekki reiknaður þar með hluti hafnanna í framkvæmdakostnaði, heldur aðeins rekstrargjöld, vextir og afborganir. Hér er okkur greinilega mikill og vaxandi vandi á höndum sem nauðsynlegt er að bregðast við svo skjótt sem auðið er af fullkomnu raunsæi. Það er ekkert einkamál hinna aðþrengdu sveitarfélaga sem í dag eru að sligast undir skuldabyrði hafnanna sem óumdeilanlega eru farvegur okkar meginþjóðarverðmæta er öll þjóðin nýtur góðs af. Með þá staðreynd í huga er ekki óeðlileg sú hugmynd, sem fram hefur komið, að ríkið stæði að fullu undir stofnkostnaði fiskihafna, en sveitarfélögin sæju um reksturinn.

Hafnabótasjóður sem fjárhagslegur bakhjarl hafnarsjóðanna veldur engan veginn lengur því hlutverki sínu. Það er því í rauninni næsta gagnslítið að vitna í bráðabirgðaákvæði gildandi laga um sjóðinn sem gerir ráð fyrir sérstökum ráðstöfunum til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem verst eru settir, Til þess er fjárhagsgeta hans of takmörkuð með tilliti til hinna stórauknu verkefna hans. Samkv. lögum sjóðsins, 20. gr., eru tekjur hans í fyrsta lagi árlegt framlag ríkissjóðs sem nemur 12% af framlagi til hafnarmannvirkja og lendingarbóta á fjárl. hvers árs, en þó aldrei lægra en 30 millj. kr. Í öðru lagi eru tekjur af starfsemi sjóðsins. Og þá er sjóðnum samkv. 21. gr. laganna heimilt að taka lán til starfsemi sinnar, innanlands eða utan, allt að 350 millj. kr. árlega,, og er ríkissjóði heimilt að ábyrgjast þau lán. Á fjárl. yfirstandandi árs er framlag ríkisins til sjóðsins 82 millj. 152 þús. kr. Og í dag, er aðalframkvæmdatíminn við hafnarframkvæmdir fer í hönd, mun innistaða í sjóðnum nema 150 millj. kr. samkv. upplýsingum frá hafnamálastjóra nú á dögunum. Augljós nauðsyn er á að sjóðnum verði eftir einhverjum leiðum, væntanlega þá með breytingu á lögum hans, tryggðar auknar árvissar tekjur til þess að hann geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki sómasamlega. Af erlendum lántökum og skuldasöfnun við útlönd höfum við meira en nóg í bili.

Í niðurlagi till. er farið fram á endurskoðun á lögum um landshafnir, en þær eru nú þrjár á landinu: Þorlákshöfn, Keflavík-Njarðvík og Rifshöfn á Snæfellsnesi. Sérstök lög hafa verið sett um hverja þessara hafna fyrir sig. En öllum er þeim það sameiginlegt að ríkissjóður stendur að öllu leyti undir stofnkostnaði hafnanna og rekstrinum einnig, svo lengi sem lögin eru í gildi. Ekki skal það dregið í efa, segir í grg., að brýna nauðsyn hafi á sínum tíma borið til að ríkissjóður hlypi svo myndarlega undir bagga með þeim byggðarlögum sem þarna eiga í hlut. Þannig mun t.d. eldgosið á Heimaey hafa aukið verulega á þrýsting um hafnarbætur í Þorlákshöfn. Vandséð er engu að síður hvernig réttlæta megi að þessar þrjár hafnir einar allra íslenskra hafna búi um aldur og ævi við slík forréttindi og þá um leið óhjákvæmilega á kostnað allra hinna sem berjast í bökkum og eru sumar hverjar, eins og ég hef þegar bent á, bókstaflega að sliga hlutaðeigandi sveitarfélög. Ég fæ ekki séð að það séu haldbær rök að benda á að framkvæmdir við landshafnir séu fjármagnaðar af sérstöku erlendu lánsfé utan fjárl. Að sjálfsögðu koma þessi erlendu lán inn sem hluti af því heildarfjármagni sem við höfum úr að spila til hinna ýmsu framkvæmda, og hætt er við að við þurfum að standa skil á þessum lánum fyrr eða síðar með innlendu aflafé sem hinir nauðstöddu hafnarsjóðir hefðu fulla þörf fyrir.

Elstu landshafnalögin um Rif á Snæfellsnesi eru nú orðin rúmlega aldarfjórðungsgömul, lögin um Keflavík-Njarðvík 20 ára og um Þorlákshöfn 10 ára. Á fjárlögum þessa árs nemur framlag ríkissjóðs til almennra hafna yfir allt landið 675 millj. kr. að viðbættum 10 millj. til ferjubryggna. Framlag til landshafnanna þriggja ásamt afborgunum af lánum til þeirra nemur hins vegar 600 millj., þar af 375 millj. til Þorlákshafnar einnar, en þar var unnið á s.l. ári fyrir 700 millj. kr., — þ.e.a.s. í einni höfn var unnið fyrir 700 millj. kr., en framkvæmdafé á s.l. sumri til allra almennra fiskihafna á landinu nam 950 millj. kr.

Ég vona og ég mælist til þess að mér verði ekki lagt það út á verri veg sem öfund eða afbrýði í garð landshafnanna og fólksins, sem þar býr, þótt ég bendi á hið augljósa misræmi og mismunun sem hér á sér stað og ekki er stætt á að viðhalda öllu lengur. Sérstakar tímabundnar ráðstafanir í þágu þessara hafna hafa getað verið fullkomlega réttlætanlegar engu að síður, eins og ég hef þegar bent á. En það er nauðsynlegt að hér komi til endurskoðun á gildandi lögum um landshafnir með aukið jafnvægi fyrir augum.

Ég vænti þess, að þessi till. fái góðar undirtektir og jákvæða og skjóta afgreiðslu hér á hv. Alþ. og verði afgreidd frá þinginu sem ályktun þess áður en þingi lýkur.

Ég veit að margir hv. þm. auk okkar flm. till. hafa þungar áhyggjur af erfiðleikum hafnanna, og mér er einnig kunnugt um að hæstv. samgrh., sem þessi mál heyra undir og er því miður ekki staddur hér nú, hefur fullan skilning og góðan vilja til að bæta þar úr, og aðgerðir í þeim efnum mega ekki dragast.

„Engum blandast hugur um það“, segir í niðurlagi grg. með till., „að góðar og traustar hafnir eru ein helsta undirstaðan undir atvinnulífi okkar íslendinga sem fiskveiðiþjóðar. Það varðar því miklu að svo vel sé að þeim búið sem við framast höfum efni á hverju sinni.“

Í till. er ekki farið fram á skipun sérstakrar n. til að framkvæma þá athugun sem um er talað. Eðlilegt er að ríkisstj. og viðkomandi rn. hafi frjálsar hendur um hvaða vinnubrögð verði viðhöfð og skipi þá til starfa sérstaka n. ef þurfa þykir. Alla vega tel ég eðlilegt og sjálfsagt að haft verði samráð og samvinna við Hafnasamband sveitarfélaga sem, eins og ég sagði hér áðan, hefur haft frumkvæði um ítarlega skýrslugerð um fjárhagsstöðu hafnarsjóðanna og ýmsar ábendingar til úrbóta, þannig, eins og ég hef áður bent á, að það ætti ekki að þurfa ýkjalangan tíma til viðbótarathugana áður en taka megi ákvörðun um með hvaða hætti verði leyst úr hinum geigvænlegu erfiðleikum hafnarsjóða og um leið verði að sjálfsögðu horft til framtíðarskipunar þessara mála.

Ég vil svo, herra forseti, mælast til þess að umr. um till. þessa verði frestað og að umr. lokinni verði henni vísað til góðfúslegrar og röggsamlegrar afgreiðslu fjvn.