26.04.1976
Neðri deild: 90. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3248 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

145. mál, afréttamálefni

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 588 var flutt á síðasta þingi og var eitt af þeim málefnum sem n. sú, sem samdi landgræðsluáætlunina, undirbjó. Frv. fylgdi þeim málum sem ég lagði fram á því þingi til ákvörðunar í framhaldi af samþykkt landgræðsluáætlunarinnar. En vegna þess að rétt þótti að þetta frv. fengi umsögn Búnaðarþings, þá var málinu frestað á síðasta þingi, — það var of seint á ferðinni til þess að geta fengið meðferð Búnaðarþings, — og er það því endurflutt núna. Hefur það verið lagt fyrir Búnaðarþing að þessu sinni til umfjöllunar og hefur Búnaðarþing mælt með því.

Meginákvæði frv. eru að: Ákveða að fjallgöngur á hausti skuli heimilt að færa fram og smalað sé af tilteknum hlutum afréttar fyrir göngur. Ákveða má hvenær fyrst megi reka hverja búfjártegund á afrétt. Láta girða sérstök svæði á afréttum eða heimalöndum fyrir hrossabeit. Banna að stóðhross séu rekin á afrétt, enda séu þau þá undanskilin fjallskilum. Eiga frumkvæði að félagslegum aðgerðum til hagabóta í samráði við gróðurverndarnefnd og Landgræðslu ríkisins.

Þetta er sem sagt það sem er lagt til að stjórnir fjallskiladeilda eða sveitarstjórnir eigi að framkvæma og hafa til hliðsjónar við ákvörðunartöku sína í sambandi við notkun á afréttarlöndum.

Þá er og gert ráð fyrir því að ítölu megi gera í afrétti og heimalönd fyrir heilar sýslur, einstök sveitarfélög eða hreppshluta, að fullnægðum skilyrðum laga þessara, enda sé gætt að brjóta ekki í bága við lög um sauðfjárveikivarnir.

Eftirtaldir aðilar geta farið þess á leit við sýslunefnd, að athugun verði gerð á því hvort þörf sé fyrir ítölu, og krafist ítölu ef niðurstöður athugunar eru á þann veg að hennar sé talin þörf: Einstakir bændur, búi þeir á viðkomandi svæði eða nálægu svæði þar sem um verulegan samgang búfjár er að ræða á milli svæða. Sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags og sveitarstjórnir nágrannasveitarfélaga ef verulegur samgangur búfjár er á milli þeirra. Sýslunefndir aðliggjandi sýslna ef verulegur samgangur búfjár er á milli þeirra. Gróðurverndarnefnd viðkomandi sýslu og gróðurverndarnefnd í nágrannasýslu ef verulegur samgangur búfjár er á milli sýslnanna. Og svo Landgræðsla ríkisins.

Þetta eru meginatriði frv. Þegar frv. var lagt fram í hv. Ed. og einnig í fyrra gerði ég grein fyrir frv. og sé því ekki ástæðu til að gera það frekar að þessu sinni, enda skýrir frv. sig að mestu leyti sjálft. Ég vil hins vegar taka það fram, að það er hér flutt í samræmi við það sem Búnaðarþing gekk frá því, en upphaflega samið af þeirri n., gróðurverndarnefnd, sem fjallaði um gróðurvernd í sambandi við gróðurverndaráætlunina.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn., og vænti þess, að hv. n skili áliti það snemma að málið geti fengið afgreiðslu á þessu þingi.