26.04.1976
Neðri deild: 90. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

112. mál, Lánasjóður dagvistunarheimila

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur rætt þetta frv., en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. n. á þskj. 524. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson skilar séráliti þar sem fram kemur að hann vill samþykkja frv., en fjarverandi afgreiðslu málsins var Gylfi Þ. Gíslason.

Ástæður fyrir því, að meiri hl. n. vill ekki samþykkja frv., eru nokkrar og ég skal telja þessar helstar:

Í fyrsta lagi þykir okkur óskynsamlegt að stofna enn einn sjóðinn sem hefur það hlutverk að lána til ákveðinna framkvæmda eða til ákveðins verkefnis. Þessu tengist að Lánasjóður sveitarfélaga hefur þetta verkefni raunverulega með höndum, enda er hér um að ræða verkefni sem sveitarfélög eiga eðli málsins samkvæmt að hafa með höndum og hafa um það alla forustu.

Þá nefni ég það að almennur launaskattur á atvinnureksturinn í landinu verður að teljast vafasöm leið til þess að fjármagna framkvæmdir sem þessar, þ.e. byggja dagvistunarheimili. Og það verða varla talin rök þótt einstaka fyrirtæki hafi lagt fé af mörkum til þess að koma upp dagheimili fyrir börn síns starfsfólks. Það hafa þau gert vegna þess að þeim fyrirtækjum hefur þótt það vera sínir hagsmunir að leggja fé til þeirra framkvæmda.

Þá segir í 4. gr. frv. að yfirstjórn sjóðsins skuli vera í höndum menntmrn. Það tel ég ekki rétt ef slíkur sjóður yrði stofnaður, en ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það sérstaklega hérna, enda held ég að það atriði sé kannske ekki mjög fast í huga hv. flm., að sú skipan yrði höfð á.

Það, sem ég hef hérna nefnt sem ástæður fyrir þeirri skoðun meiri hl. n. að ekki beri að samþykkja frv., má e.t.v. segja að ætti að leiða til þeirrar ályktunar að það bæri að fella frv. Það er þó ekki till. meiri hl. n., heldur leggjum við til að frv. verði vísað til ríkisstj.till. okkar á sér þær forsendur að aukin fjárþörf hinna ýmsu sveitarfélaga, sem ekki hafa fullnægt þörfum fyrir dagvistunarheimili, er alveg ljós. Á sama hátt er ljóst að Lánasjóður sveitarfélaga getur ekki orðið við öllum lánsbeiðnum vegna byggingar dagvistunarheimila, fremur en hann getur fullnægt umsóknum um lán til annarra framkvæmda á vegum sveitarfélaga. Efling Lánasjóðsins er mikið nauðsynjamál. Með því að vísa þessu frv. til ríkisstj. er því enn bent á þá nauðsyn svo að Lánasjóðurinn geti sinnt þessu hlutverki sínu ekki síður en öðrum. Þá vil ég einnig benda á það að í umsögnum, sem bárust til n. frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og frá menntmrn., er á það bent að þetta verkefni eigi fremur heima hjá Lánasjóði sveitarfélaga en nýjum sjóði, sérstaklega stofnuðum til að sinna þessu verkefni.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en meiri hl. n. leggur sem sagt til að frv. verði vísað til ríkisstj.