27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3257 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram hefur komið hér um starfsemi Stofnlánadeildarinnar, frá því að ég talaði hér áðan, vil ég taka það fram, að ég held að stofnlánadeildin hafi alltaf reynt að leitast við að leysa úr þörfum manna eins og kostur hefur verið á og hafi tekist það í flestum tilfellum, þó að það gæti náttúrlega orðið erfitt þegar framkvæmdirnar eru mjög miklar. Á síðustu árum hefur farið verulegt fjármagn til vinnslustöðva, sem eru afar dýrar eins og kunnugt er.

Ég vil líka taka það fram að í lögum, sem sett voru 1973, var gert ráð fyrir því að stjórn Stofnlánadeildarinnar gæti sett takmarkanir á lán til einstaklinga og mér er nú tjáð, að á síðasta fundi stjórnar Stofnlánadeildarinnar hafi verið ákveðin hámarkslán vegna framkvæmda til einstakra hópa. Og þetta, sem hv. þm. hafa vikið að, er þegar komið í framkvæmd. Þó að alltaf megi kannske hafa skiptar skoðanir um hvar eigi að draga slík mörk, þá hefur það þegar verið gert.

Í þriðja lagi vil ég svo segja það, að kostnaður við stofnlánadeildina, sem Búnaðarbankinn hefur tekið, hefur farið minnkandi nú ár frá ári og hann var hlutfallslega langstærstur s.l. ár. Ég veit að það geta verið skiptar skoðanir um hvað réttmætt sé að þessi kostnaður sé hár, en ég held að það sé þó ljóst, að honum sé mjög stillt í hóf og hafi verið reynt að draga úr honum eftir því sem umsetning bankans í heild hefur aukist, og lægsta hlutfallið af rekstrarkostnaði bankans í heild á s.l. ári er í rekstri Stofnlánadeildar og veðdeildar.