27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (2702)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hljóðs um þetta sérstaka mál, er e.t.v. fyrst og fremst það sem hv. frsm. lét sér um munn fara varðandi verslunarauglýsingar í sjónvarpi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Það má vel vera að ástæðan fyrir því, að þar eru verslunarauglýsingar bannaðar eða öllu heldur ekki leyfðar í sjónvarpi, sé m.a. sú, að hætt sé við því að hinir fjármagnsríku geti með ósvífnum yfirgangi knésett þá sem minna mega sín á vettvangi viðskiptanna. En hitt staðhæfi ég, að fyrst og fremst sé ástæðan sú að þar þykja verslunarauglýsingar í ríkisfjölmiðlum siðlaust athæfi. Okkur er það vel kunnugt, okkur er það vel ljóst, að verslunarauglýsingar sem slíkar í sjónvarpi gegna ekki neinu siðferðilegu hlutverki, nema síður sé. Þarna eiga sér stað prangarabrögð oft og tíðum af verstu tegund. Ég hygg að það sé meira en tímabært að hugleiða það hér á hv. Alþ. hvort ekki beri að banna verslunarauglýsingar yfirleitt í sjónvarpi og útvarpi og dagblöðum.

Formælendur iðnrekenda, sem nú koma hér upp kveinandi hástöfum yfir því að þeir fari nú halloka í samkeppni við erlend iðnfyrirtæki, voru, ef mig minnir rétt, frumkvöðlar þess að við gengum í EFTA, — frumkvöðlar þess vegna þess að þeir vildu — eins og þeir ímynduðu sér að þeir gætu — komast inn á hinn alþjóðlega braskmarkað. Ég veit ekki betur en hv. frsm. sé einn þeirra hv. þm. sem sætta sig fullvel við að erlend iðnfyrirtæki njóti sérréttinda í tollamálum hér á landi, þrátt fyrir það að brotinn sé á okkur samningur um það að við njótum sams konar réttinda erlendis.

Ég ítreka aðeins þetta, að þau siðferðislegu lögmál, sem verslunarauglýsingar byggjast á, eru þess háttar að ég get ekki gert greinarmun á erlendum og innlendum auglýsingum þessarar tegundar. Og ég vil aðeins í lokin segja það, að ég fæ ekki séð með hvaða hætti þeir menn, sem tala um misjafnan siðferðilegan rétt verslunarauglýsinga, gátu farið að því að gera hróp að till. alþfl.- þm. hér á Alþ. í vetur þar sem þeir lögðu til að fjármálum Ríkisútvarpsins yrði séð farborða með því að koma upp sjónvarpsbingói. Ég held að það hafi verið skömminni skárra.