27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka hér til máls um þessa till., ég tel hana svo sjálfsagða og augljóst að hún eigi fullan rétt á sér. En ef það er skoðun fleiri hv. þm. heldur en hv. þm. Stefáns Jónssonar að þeir, sem skoða þessa till. með jákvæðu hugarfari, séu erindrekar verslunarauðvaldsins, þá verð ég líklega að flokkast undir þann hóp, því að ég tel að þessi till. eigi fullan rétt á sér og sé þess eðlis að hún eigi að fá jákvæða afgreiðslu. Hér er um að ræða að Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta gera athugun á áhrifum auglýsinga erlendra fyrirtækja í íslenska sjónvarpinu á samkeppnisaðstöðu innlendra framleiðenda. Ég er a. m. k. það mikill íslendingur að ég vil láta innlenda aðila ganga fyrir og njóta forgangs umfram útlendinga, og það hélt ég að þessi hv. þm. væri litla, a.m.k. á vissum sviðum, en það virðist ekki vera á þessu.

Ég veit ekki hvort á að taka ræðu hv. þm. Stefáns Jónssonar á þann veg að hann væri að setja ofan í við flokksbróður sinn, hv. 2. þm. Austurl., sem talaði rétt á undan honum og ég heyrði ekki annað en væri mjög jákvæður í þessu máli. A.m.k. beindi hann ásjónu sinni í þá átt, sem hv. 2. þm. Austurl. situr, þegar hann taldi að hér væri um að ræða erindreka verslunarauðvaldsins sem vildu standa að slíkri samþykkt. Ég held að afstaða hv. 2. þm. Austurl., eftir því sem ég tók hans ræðu, sé með einhverjum líkum hætti og mín, að við viljum veg landans sem mestan í samkeppni við erlenda aðila. En ég vil sem sagt lýsa stuðningi mínum við þessa till., og ég held að almennt hljóti það sjónarmið að vera ráðandi hér á Alþ. að það beri að skoða þessa hluti í ljósi þess að íslenskir aðilar, íslensk fyrirtæki njóti forgangs umfram erlend.