27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3270 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli hv. síðasta ræðumanns á því, að það er ekkert í EFTA-sáttmálanum sem bannar það að takmarka sjónvarpsauglýsingar, þannig að með aðild íslands að EFTA er ekki verið að leggja stein í götu íslensks iðnaðar hvað þetta áhrærir. Ég vísa til þess að í Danmörku, sem var áður fyrr aðili að EFTA, en er nú aðili að Efnahagsbandalaginu, eru sjónvarpsauglýsingar bannaðar í danska sjónvarpinu, og hið sama á sér stað í Noregi og Svíþjóð. (St. J.: Allar auglýsingar.) Allar auglýsingar, alveg rétt. Ég og við, sem erum flm. þessarar þáltill., leggjum ekki til að banna auglýsingar í íslenska sjónvarpinu. Við bendum hins vegar á að til greina komi að setja ákveðnar takmarkanir á erlendar auglýsingar, sem geti skaðað samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar. Það er grundvallarmunur á banni og takmörkunum. Ég held að hv. 2. þm. Norðurl. e. hafi ekki alveg skilið efni þessarar till. eða að hann hefur ekki lesíð grg. sem er með þáltill.

Varðandi það, hvort við flokksbræðurnir séum ekki sammála um að það beri að hafa forsjá fyrir einstaklingnum eða ekki, vil ég segja þetta: Ég get verið sammála honum að vissu marki. Ég held að forustumenn og allra síst alþm. geti þó afneitað því að þeir verði að hafa forsjá fyrir einstaklingunum eða ákveðna forsjá fyrir þjóðarheildinni, enda sagði hann siðar, sem er tengdara því efni sem hér er til umr., að auglýsingin geti haft uppeldisleg áhrif. Sem sagt, það má vera á valdi þeirra, sem láta framleiða eða útbúa auglýsingarnar, að geta haft þessa forsjá á hendi í gegnum þau áhrif sem auglýsingin hefur gegnum sjónvarpið. Ég held að hv. þm. verði nú að athuga betur hvað hann segir, þannig að hann sé sjálfum sér samkvæmur. Ég vil heldur, á meðan ég er kjörinn þm., hafa einhverja hönd í bagga um slíka forsjá heldur en sleppa henni algerlega lausri til þeirra, sem framleiða erlendar auglýsingar, hvort sem það er vestur í Ameríku eða suður í Evrópu og ég tala nú ekki um fyrir austan járntjald, því að það bannar auðvitað ekkert Austur-Evrópuríkjunum að auglýsa og nota íslenska sjónvarpið með nákvæmlega sama hætti og fjölþjóðafyrirtækin gera í gegnum sína umboðsmenn á Íslandi. Það fer eftir eðli umboðanna og um hvaða fyrirtæki er að ræða. Ég held því að þessi till. okkar sé mjög gagnleg, og ég held að það sé nauðsynlegt að þm. taki hana til ræktlegrar skoðunar og alla vega hugleiði nánar um efni hennar með tilliti til framtíðarinnar.

Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að víkja nokkrum orðum að ágætum flokksbróður mínum, hv. 2. þm. Norðurl. e., en hann fór hér dálítið gálauslega með þetta efni. Ég get ekki látið hjá líða að átelja það harðlega að þm. og það þm. úr stjórnarliðinu skuli leyfa sér að segja að hann sé svo ágjarn á erlendan gjaldeyri að hann vilji hafa sitt frelsi alveg ótakmarkað á sama tíma sem íslenska þjóðin horfir upp á það að vöruskiptajöfnuðurinn aðeins á einu ári, árið 1975, er neikvæður upp á 27,6 milljarða kr. Ef menn vilja vera alvöruþm., — og ég bið hv. þm. að afsaka orðalagið ef það passar ekki, — en við þekkjum það nú hér á þingi að hann er oft mjög kaldur og talar mjög frjálslega, þá hlýtur hann eins og ég að líta þannig á að ef íslenskur iðnaður gæti eitthvað minnkað þann halla eða stuðlað að því að þessi halli verði ekki svona mikill í framtíðinni, þá hljótum við að fagna því. Það er nefnilega ekkert sem heitir núna fyrir íslendinga að vera ágjarnir á erlendan gjaldeyri. Það, sem við þurfum að gera nr. eitt, er að afla meiri gjaldeyris og nr. tvö að spara gjaldeyri. Með því að takmarka áhrif erlendra sjónvarpsauglýsinga á samkeppnismöguleika íslensks iðnaðar erum við auðvitað að stuðla að því að spara erlendan gjaldeyri.

Ég vildi láta þessi orð koma hér fram. Samkv. þingsköpum mun ég ekki geta tekið aftur til máls. En ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um það, að við eigum að nota allar leiðir til þess að vernda möguleika okkar til gjaldeyrisöflunar og efla þá möguleika sem stuðla að gjaldeyrissparnaði, og það gerum við best, eins og á stendur, í gegnum íslenskan iðnað og einnig með því að fara vel með þann gjaldeyri sem við höfum aflað.