28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. gat þess hér að hann vildi samninga við vestur-þjóðverja og hann vildi samninga við breta líka. Ég er honum sammála að þessu leyti. Það, sem um er að ræða, er að nýta ákvæði í samkomulaginu við þjóðverja til þess að hafa samning við þá og fá í okkar hlut það sem ætlast var til, gildistöku bókunar 6, enn fremur að vestur-þjóðverjar knýi á, ekki eingöngu um gildistöku bókunar 6, heldur einnig á breta að þeir láti af herskipaíhlutun sinni á Íslandsmiðum og að því gerðu sýni raunsætt mat á þeim mismun á hagsmunum af fiskveiðum hér við land sem íslendingar hafa annars vegar og bretar hins vegar. Það er með tilliti til þess að ná þeim markmiðum, sem hv. þm. gat um áðan að hann vildi ná, að ríkisstj. bíður átekta með að fresta framkvæmd þessa samkomulags við vestur-þjóðverja. Um leið og því er frestað, þá erum við samkomulagslausir, þá erum við án samninga bæði við þjóðverja og breta, gagnstætt því sem hv. þm. vill stefna að. Markmið hv. þm. og ríkisstj. er hið sama. Við beitum þessu tæki til þess að ná því markmiði að fá gildistöku bókunar 6, að hafa sem minnstar veiðar útlendinga í íslenskri fiskveiðilögsögu og koma breskum herskipum burt úr 200 mílna lögsögunni.