28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3290 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Eftir að hafa heyrt hv. þm. Albert Guðmundsson lýsa yfir því skýrt og skorinort úr þessum ræðustóli að forsendan fyrir því að hann greiddi atkv. með þýsku samningunum í nóv. í haust hefði beinlínis verið sú að hann hafi trúað staðhæfingum af hálfu ríkisstj., staðhæfingum utanrrh. um að hefði bókun 6 ekki tekið gildi við apríllok, þá mundi þessi samningur falla úr gildi eða honum yrði frestað — (Gripið fram í.) já, já, að hann hefði trúað því að forsendan hefði verið sú, að hann trúði þeirri staðhæfingu þeirra, að samningnum yrði frestað, — eftir að hafa hlýtt á þessa yfirlýsingu hv. þm., minnugur þess að heyra fleiri og það miklu fleiri af þm. stjórnarliðsins sem létu hafa sig til þess að samþykkja þennan samning, minnugur yfirlýsingar þeirra á sömu lund er atkvgr. fór fram og þá dagana, þá staðhæfi ég það að frestun og fráfall frá þessari ákvörðun, sem hæstv. utanrrh. margítrekaði í ræðu sinni, fráhvarf frá þeirri ákvörðun hlýtur að teljast ekki aðeins móðgun við hv. Alþ., heldur beinlínis svik og ógilding á samþykktinni frá því í nóv. í vetur. Ég ætla ekki að trúa því að þessum umr. utan dagskrár ljúki svo hér í Ed. að einhver af fulltrúum Alþfl., sem stóðu einarðlega gegn þýsku samningunum í vetur, láti ekki til sín heyra, og enn síður þó að þessum umr. ljúki svo að hæstv. utanrrh., sem margítrekaði fyrrnefndar yfirlýsingar við afgreiðslu málsins í nóv., hann þegi enn þunnu hljóði og noti ekki það tækifæri sem hér er til þess að gera grein fyrir því hvað breyst hafi á þá lund að hann telji nú að samningurinn við vestur-þjóðverja eigi að gilda þótt bókun 6 taki ekki gildi. Mér finnst að hv. alþm. eigi 'beinlínis heimtingu á því að hæstv. utanrrh. geri grein fyrir þessari breytingu, ekki síst vegna þess að honum, að ýmsum öðrum ráðh. algerlega ólöstuðum, er í raun og veru mjög eiginlegt að vilja segja satt.