28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3292 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég er feginn því að hæstv. forseti neitaði mér ekki um orðið, það hefðu orðið öðrum hv. þm. svo mikil vonbrigði að ég efast um að þeir hefðu sætt sig við það. En ástæðan fyrir því að ég hef ekki séð þörf á því að taka hér til máls, þótt mikið hafi verið til mín vitnað, er í fyrsta lagi sú, að allt, sem eftir mér hefur verið haft hér, er rétt. Ég hef sagt og það er skjalfest allt sem hér hefur verið vitnað til. Ég var svo viss um að hv. 5. þm. Norðurl. v. mundi koma því til skila sem ég sagði hér í nóv. að ég hafði ekki einu sinni fyrir því að finna þingtíðindin, enda hefur það komið á daginn.

En það, sem veldur því að ég samþykki nú að einhver frestur verði á því að ákvæði, sem til hefur verið vitnað í þýska samningnum, verði notað, er sú, að nú stendur yfir af hálfu þjóðverja atlaga að Efnahagsbandalaginn um að reyna að koma bókun 6 til framkvæmda, og ég hef viljað fallast á að þessi tilraun fengi að ganga sér til húðar á annan hvorn veginn. Ég geri ekki ráð fyrir því að það þurfi að taka mjög langan tíma. Ég hef beðið sendiherra okkar í Bonn að tilkynna utanrrn. þar að í dag sé 28. apríl, 5 mánaða afmælisdagur samningsins, og það sé óóhugsandi að við getum lengi haldið honum í gildi ef þeir standi ekki við sinn hluta. Þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að ég hef fallist á það með mínu atkv. í ríkisstj. að bíða átekta enn um skeið. Og af því að ég veit að þm. trúa því sem ég segi nú, þá mun ég ekki hafa um það fleiri orð.

Það er rétt, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði, að við áttum rétt á því og kröfu til þess að fylgjast með þeim tilraunum sem þjóðverjar höfðu uppi til þess að fá þessa bókun til framkvæmda. Þetta höfum við gert nokkuð reglulega, ekki kannske daglega, en alltaf af og til, fyrst og fremst með milligöngu sendiherra okkar hjá Efnahagsbandalaginu sem jafnframt er sendiherra okkar í Belgíu, eins og menn vita. Og ég get fullyrt það, að af hálfu þjóðverja hefur verið mjög þrýst á um að reyna að fá þessa breytingu, en það hefur jafnan strandað á neitunarvaldi breta. Eins og við allir þekkjum, þá var samningurinn, sem gerður var á sínum tíma, í júlí 1973, með þeim ákvæðum að bókun 6 tæki ekki gildi nema það sem kallað var þar viðhlítandi lausn á yfirstandandi fiskveiðideilu breta og vestur-þjóðverja, næðist. Og meðan bretar eða önnur hvor þessara þjóða telur ekki að viðhlítandi lausn hafi náðst, þá getur sú þjóð komið í veg fyrir að við njótum þess hagræðis sem af bókun 6 mundi leiða, og það hafa þeir hingað til gert.

Ég vil svo ekki almennilega fella mig við að það sé sí og æ talað um að þm. stjórnarflokkanna hafi látið hafa sig til að gera eitt eða annað. Mér finnst það fremur óvirðulegt orðalag. Ég vil ekki ætla til að mynda þm. Alþb. það að þeir hafi látið hafa sig til að fylgja breska samningnum þegar hann var samþykktur hér 1973, (BtJ: Það gerðu þeir, þeir létu hafa sig til þess.) Nú, gegn eindreginni yfirlýsingu eins slíks þm. get ég auðvitað ekki annað en tekið það til greina. En ég hafði haldið að þm. Alþb. væru ekki slíkir menn að þeir létu hafa sig til hlutanna, og mér kemur það þá nokkuð á óvart fyrst svo er.

Hv. 1. landsk. þm., Bragi Sigurjónsson, talaði um, að það hlytu að fara fram áþreifingar við breta, og dró þá ályktun af hegðun þeirra hér á miðunum. Ég verð nú að segja það að mér finnst hegðun breta á Íslandsmiðum nú að undanförnu ekki þannig að hún gefi sérstakt tilefni til að ætla að samningar við breta séu í nánd. Ég get ekki verið sammála honum um það, enda höfum við ekki átt í neinum viðræðum við breta, þannig að þjóðin hefur ekki verið leynd því.

Ég sé ekki ástæðu til þess að halda hér lengri ræðu að sinni utan dagskrár, en ég vonast til þess að mál þetta skýrist fljótlega þannig að hægt verði þá að haga sér eftir því sem kringumstæður kunna að breytast, og ég leyfi mér enn að vona að það takist að fá bókun 6 til framkvæmda.