28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3293 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

210. mál, orlof

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. það sem hér er til umr. Þetta frv. er samið af n. sem falið var árið 1974 að gera till. um endurskoðun á lögum um orlof og reglugerðum um orlof. Félmn. fékk á fund sinn þrjá þeirra manna, sem störfuðu í þessari n., til viðræðu um frv. N. komst að þeirri niðurstöðu að mæla með samþykkt frv. með breytingum sem n. gerir till. um á þskj. 543. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Axel Jónsson og Steingrímur Hermannsson.

Eins og ég sagði, þá fór fram ítarleg athugun og endurskoðun á orlofslögunum og svo virðist sem nm. hafi haft í huga að gera allvíðtækar breytingar á þessari löggjöf, en að athuguðu máli ákváðu um. að halda sig við núverandi orlofskerfi að meginstofni með breytingum sem þeir gerðu og fram koma í þessu frv.

Þessar breytingar eru þær helstar, að í 1. gr. frv. er að finna ný ákvæði um orlofsnefnd ríkisins. Sú n. á að vera félmrn. til aðstoðar í þessum efnum. Orlofsnefndina eiga að skipa 7 menn skipaðir af ráðh. til fjögurra ára í senn, 3 eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands, 2 eftir tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, einn eftir tilnefningu Vinnumálasambands samvinnufélaga og einn án tilnefningar. Það er tekið fram í 1. gr. frv., hvert starfssvið orlofsnefndar skuli vera, og tekið fram að n. skuli afgreiða kvartanir frá launþegum og vinnuveitendum sem telja sig misrétti beitta samkv. lögum þessum. Nefnd. þessi á að hafa umsjón með framkvæmd orlofslaganna og þar með er átt við að hafa eftirlit með útborgun og ávöxtun orlofsfjárins, að gera till. um vaxtafót og fleira þess háttar. Hér er um að ræða eina meginbreytinguna frá núgildandi lögum.

Þá er næsta breytingin í frv. Hana er að finna í 4. gr. frv. Þar er aðalbreytingin sú, að gerð er breyting á sjálfu orlofsárinu. Það er tekið fram nú að það skuli vera frá 1. apríl til 30. mars. Hér er breyting frá því sem áður var, því að áður eða í núgildandi lögum er orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl. Í samræmi við þetta er svo í 5. gr. frv. gerð breyting á orlofstímabilinu. Orlofstímabilið á nú samkv. frv. að vera frá 16. maí til 30. sept., en í gildandi lögum er svo kveðið á að það skuli vera frá 2. maí til 15. sept. Það er tekið fram í aths. við 4, og 5. gr. um ástæðurnar fyrir þessum breytingum. Þar segir að þetta sé gert í þeim tilgangi að veita framkvæmdaaðila orlofskerfisins tíma til að vinna nauðsynlega skýrsluvélavinnu við uppgjör orlofsársins og útsendingu orlofsávísana. Þetta á við um það að orlofsárið er fært aftur um einn mánuð. Orlofstímabilið er svo fært fram um hálfan mánuð í í sama tilgangi eins og orlofsárið er fært aftur um einn mánuð.

Þá eru minni háttar breytingar. Og þegar ég segi minni háttar, þá felst ekki í því að þær séu ekki þýðingarmiklar á sinn hátt. Í 1. mgr. 4. gr. eru ákvæði um það að orlof skuli vera í tvo daga fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári og reiknast hálfur mánuður eða meira sem heill mánuður, en skemmri tími telst ekki með, eins og segir í frvgr. Það telst vinnutími samkv. þessari grein þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa, meðan hann fær kaup greitt, eða hann er í orlofi, en ekki sá tími sem hann er frá vinnu án lögmætra forfalla. Þetta síðasta, að það teljist ekki til vinnutímans samkv. þessari grein sá tími sem launþegi er frá vinnu án lögmætra forfalla, mun hafa verið framkvæmt á þennan veg, en hefur verið sett hér til að taka af öll tvímæli í þessu efni.

Þá er það 2. mgr. 4. gr. Þar er einnig um nýtt ákvæði að ræða. Þar segir: „Þrátt fyrir framangreind ákvæði eiga allir rétt á að fá 24 daga orlof á ári. Hafi launþegi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fyrir tímabilið, sbr. framansagt, tekur hann það orlof, sem á vantar, án kaups.“

Það er sama um þetta að segja eins og um hið fyrra ákvæði. Þetta mun hafa verið framkvæmt á þann veg sem hér er kveðið á, en þótti rétt að taka af öll tvímæli um það. En efnislega er þetta það, að launþegi á rétt á því að taka orlof hvað sem líður rétti hans til orlofsfjár.

Þá er í 5. gr. atriði sem eru ný. Í 2. mgr. segir: „Í vinnu við landbúnað, síldveiðar, hvalveiðar og hvalvinnslu má veita allt að helmingi orlofsins utan orlofstímabilsins.“ Þetta er eins orðað nú eins og í gildandi lögum, nema orðin „hvalveiðar“ og „hvalvinnsla“ koma til viðbótar, þ.e.a.s. þessar atvinnugreinar eru lagðar að jöfnu í þessu tilliti við landbúnað og síldveiðar.

Þá er rétt að víkja að 4. mgr. 5. gr., en þar segir: „Aðilar geta með samkomulagi vikið frá reglum þessarar greinar um skiptingu orlofs.“ Þetta er eins og í núgildandi lögum. En það, sem næst kemur á eftir, er nýtt, og það er svo hljóðandi: „Samkomulag um skemmri tíma en 21 orlofsdag á orlofstímabilinu skapar launþega rétt til orlofsuppbótar í formi viðbótarorlofsdaga eða orlofsgreiðslu.“ Þetta er nýtt. En svo stendur eins og í gildandi lögum í framhaldi af þessu: „Orlofi skal þó alltaf lokið fyrir upphaf næsta orlofstímabils.“ Þessi síðasta ný]ung, sem ég vek hér athygli á, þýðir að hér er gert ráð fyrir að samkomulag vinnuveitenda og launþega um vetrarorlof komi launþega til góða með einhverri uppbót. Þetta mun hafa nokkuð tíðkast áður í sumum greinum, eins og t.d. hjá þeim sem starfa að ferðamálum.

Í 6., 7., 8. og 9. gr. er engar breytingar að finna frá núgildandi löggjöf.

En nýtt ákvæði er að finna í 10. gr. frv. 10. gr. frv. er á þessa leið: „Nú liggur atvinnurekstur niðri meðan á orlofi stendur, vegna þess að starfsfólkinu er veitt orlof samtímis, og skal þá tilkynningarfrestur samkv. 6. gr. um byrjun orlofs vera 3 mánuðir. Þeir launþegar, sem ekki eiga rétt á fullu orlofi, geta þá ekki krafist launa eða orlofsfjár fyrir þá daga, sem á vantar.“ Þetta þýðir það að gert er ráð fyrir að þeir vinnuveitendur, sem loka fyrirtækjum sínum vegna orlofs starfsfólks, geti tilkynnt slíkt með lengri fyrirvara en ella. Breytingin varðar þetta atriði.

Það er engin breyting í 11. gr. frv.

Í 12. gr. er ein veigamesta breyting frv., því að þar er kveðið svo á að orlofsfé skuli greitt á þann hátt að tryggt sé að launþeginn fái það í hendur „ásamt vöxtum“ þegar hann tekur orlof. Það eru þessi tvö orð: „ásamt vöxtum“, sem eru ný og marka nýja stefnu í þessu efni. Samkv. þessu er gert ráð fyrir að orlofsfé sé vaxtareiknað á þann hátt að vaxtatekjur orlofskerfisins umfram kostnað séu greiddar launþegum í formi vaxta. Og eins og segir í gr.: „að höfðu samráði við orlofsnefnd ríkisins.“ Hér er orlofsnefnd ríkisins falið þetta verkefni í samræmi við það sem ég hef áður greint frá, en í gildandi lögum skyldi þetta vera gert í samráði við Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaga.

Það er enga breytingu að finna í 13. gr., en í 14. gr. er að finna breytingu frá gildandi lögum. Í 1. mgr. segir: „Framsal orlofsfjár er óheimilt.“ Það er eins og er í gildandi lögum. En í gildandi lögum var einnig að flutningur orlofsfjár milli orlofsára væri óheimill og það ákvæði er fellt niður. Í 2. mgr. 14. gr. er ákvæði um að orlofsfé, sem orlofsþegi hefur ekki tekið út innan tveggja ára frá lokum orlofsársins, skuli renna í sérstakan orlofssjóð sem nota skal til hagsbóta fyrir orlofsþega. Varsla og ráðstöfun sjóðsins er í höndum orlofsnefndar ríkisins og stendur sjóðurinn sjálfur undir kostnaði við rekstur sinn. Nýmælið er það hér, að gert er ráð fyrir að eftirlegufé í orlofskerfinu renni í sérstakan orlofssjóð, en ekki lífeyrissjóð viðkomandi orlofsþega eins og nú er samkv. gildandi lögum.

Ég held að ég sé búinn hér að gera grein fyrir öllum helstu breytingum sem felast í þessu frv. frá gildandi lögum um orlof. Skal ég þá snúa mér að því að gera grein fyrir brtt. félmn. á þskj. 543.

Í 1. brtt. er gert ráð fyrir að í 7. gr. frv. komi ný mgr., sem verði 3. mgr., og hún fjallar um hvernig fer ef launþegi veikist hér innanlands í orlofi það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins. Eins og segir í brtt., þá skal hann á fyrsta degi, t.d. með símskeyti tilkynna vinnuveitanda um veikindin og hjá hvaða lækni hann hyggst fá læknisvottorð. Eins eru nokkur nánari ákvæði um hvernig fara skuli í þessu tilviki, sem ég sé ekki ástæðu til að lesa hér upp. Ég geri ráð fyrir að hv. dm. hafi kynnt sér brtt. ítarlega. En þessi brtt. er orðrétt upp úr samkomulagi sem gert var á milli launþega og vinnuveitenda við gerð síðustu almennu kjarasamninga þessara aðila nú á síðasta vetri. Ýmis atriði í framkvæmd orlofslaganna voru þýðingarmikil atriði í samkomulagi því sem gert var, og í rann og veru er hér einungis verið að staðfesta það samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins hafa þegar gert, ef þessi brtt. verður samþ.

2. brtt. er við 18. gr. frv. eða síðustu gr. frv. um að greinin orðist eins og segir í brtt.: „Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru felld úr gildi lög nr. 16 26. febr. 1943 og lög nr. 87 24. des. 1971 með síðari breytingum.“ Breytingin, sem er á 18. gr. í þessu formi, frá því, sem hún er í frv., er sú, að gert er ráð fyrir í brtt. að felld séu úr gildi lög nr. 16 frá 26. febr. 1943, en það eru þau orlofslög sem voru í gildi þegar lög nr. 87 frá 1971 voru samþykkt. Þá hefði átt að fella eldri lög úr gildi, en það mun hafa láðst að gera slíka, svo að þessi lög frá 1943, þótt ekki hafi verið framkvæmd, hafa formlega verið í gildi. Nú þykir n. rétt að binda endi á þessi úreltu lög og fella þau formlega úr gildi.

Þá er 3. brtt. Þar er um að ræða ákvæði til bráðabirgða um að þessi lög komi til með að gilda út orlofsárið 1976–1977, eins og segir í brtt. Þetta er til komið vegna þess að orlofsárið hefst samkv. frv. 1. apríl og nú er komið fram yfir 1. apríl. Það þótti ekki fara vel á því að setja ákvæði beint um það að lögin tækju gildi aftur fyrir sig frá 1. apríl. En til þess að svo yrði í raun og veru væri eðlilegt að setja ákvæði til bráðabirgða til að taka allan vafa af um það að hin nýju lög komi til með að gilda um allt orlofsárið 1976–1977, og því er þetta ákvæði til bráðabirgða í brtt. nefndarinnar.

Ég hef nú gert grein fyrir, í hverju eru fólgnar breytingar á þessu frv. frá gildandi lögum og skýrt brtt. hv. félmn., og vil þá ljúka máli mínu með því að óska þess að frv. verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.