28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3297 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

205. mál, hámarkslaun

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, er ég ber hér fram, er á þessa lund:

„Alþingi skorar á ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um hámarkslaun, þar sem kveðið verði á um að ekki megi greiða hærri laun hér á landi en sem svarar tvöföldum vinnulaunum verkamanns miðað við 40 stunda vinnuviku. Jafnframt verði loku fyrir það skotið að einstaklingar gegni nema einu fastlaunuðu starfi, og eins fyrir hitt, að átt geti sér stað duldar launagreiðslur í formi einhvers konar fríðinda, umfram hámarkslaun. Með breytingu á skattalögum skal að því stefnt að einkafyrirtæki hagnist ekki á lögbundinni lækkun hæstu launa, og skal því fé, sem rennur til ríkissjóðs af þessum sökum eða sparast með niðurskurði á launum embættismanna í efstu launaþrepum, varið til almennrar kjarajöfnunar og annarra félagslegra umbóta.“

Grg. er svo hljóðandi:

„Með ráðstöfun þeirri, sem hér er reifuð, hyggst flm. koma því til leiðar að kjarabætur handa þeim, sem lægst eru launaðir, verði algjör forsenda hverrar launahækkunar til þeirra sem betur eru settir í þjóðfélaginu. Að hyggju flm. er unnt með því að lögbinda ákveðið hlutfall milli almennra launa verkamanns og hæstu launa að búa svo um hnútana að kjarabætur til handa verkamönnum verði ekki að beinu hagsmunamáli fyrir þá þegna þjóðfélagsins sem eru í sterkastri aðstöðu til þess að hafa áhrif á stefnuna í efnahags- og kjaramálum landsmanna. Svo dæmi sé tekið, þá yrði það óframkvæmanlegt eftir setningu slíkra laga sem hér eru ráðgerð fyrir bankastjóra, sem nú munu hafa að öllu meðtöldu sexföld laun verkamanns, að veita sjálfum sér kauphækkun samtímis því sem þeir úrskurðuðu að ekki væru efnahagslegar forsendur fyrir almennri kauphækkun verkafólks.

Nýlega hafa verið gerðir kjarasamningar þar sem verkamönnum eru ætluð laun sem nema um það bil helmingi framfærslukostnaðar vísitölufjölskyldunnar ef miðað er við 40 stunda vinnuviku. Má því ætla að þeir landsmenn, sem hafa tvöföld verkamannslaun fyrir eðlilegan vinnutíma, hafi til hnífs og skeiðar. Þegar svo er ástatt hlýtur það að teljast með öllu ósæmilegt að greidd séu hærri laun. Óþarft er að dómi flm. að kveða sérstaklega á í grg. um sérstöðu hlutasjómanna í launakerfinu, en vafalaust er að kauptrygging fiskimanna hlýtur að teljast til óhæfilega lágra launa miðað við vinnutíma.

Að frátöldum þeim rösku þrem árum, sem vinstri stjórnin sat hér að völdum, má heita að stefnt hafi verið að því markvisst síðustu 17 árin að auka launamismun hérlendis á kostnað framleiðslustéttanna og ýta með þeim hætti undir neyslukapphlaup í þágu svonefnds hagvaxtar. Er vægilega að orði kveðið þótt staðhæft sé að þróun þessi hafi síður en svo stefnt í þá átt að umbuna starfshópum eftir þjóðfélagslegum verðleikum.“

Herra forseti. Svo hljóðar þáltill. ásamt grg. Ég ber hér sem sagt fram till. um stjórnun á kaupgjaldsmálum og byggi á grundvelli með kynslóðareynslu varðandi mestu umbun fyrir kunnáttu, framtak, reynslu og ábyrgð, en þar er skipstjórahluturinn tvöfaldur hásetahlutur, svo sem hann hefur tíðkast lengst af á landi hér allar götur frá landnámi.

Ef ég leyfi mér þegar í upphafi máls míns að staldra nokkur andartök við þetta atriði eitt, þá er það skoðun mín að einstakir þegnar eigi ekki fremur tímanlega velferð sína undir kunnáttu og hæfileikum neins forustumanns á þurru í samfélaginu en hásetinn undir hæfileikum og dug skipstjóra síns. Reynsla kynslóðanna hefur kennt okkur að hæfileg umbun skipstjóra er tvöfaldur hásetahlutur, hvorki meira né minna.

Fiskigengd, veðrátta og farkostur með búnaði eru frumforsendur fyrir afla, en þar næst dugur áhafnar undir forustu skipstjóra. Hvort fengurinn, sem til skipta kemur er meiri eða minni verður hlutföllunum ekki haggað, skipstjórinn fær tvöfaldan hásetahlut. Þessi skipan hefur gefist afburðavel. Hún hefur stuðlað að undraveðri samheldni áhafna og undraverðum afköstum, raunar afköstum sem eru langt umfram allt annað sem til þekkist við erfiðisvinnu á norðurslóð, og þá sennilega fyrst og fremst vegna þess að þessi skipan samsvarar nokkurn veginn réttlætiskennd fólksins.

Ég ræði hér ekki um breytingar sem hafa orðið á hlutaskiptum þessi 35 ár sem ég hef fylgst með þeim, skiptum milli útgerðarmanns og áhafnar, ekki heldur um þau tilfelli þegar útgerðarmenn bjóða í afla skipstjóra. Þess háttar uppboð hafa gefist misjafnlega, og aflakóng hef ég þekkt, og það fleiri en einn, sem ekki létu bjóða í sig, einn þeirra raunar heimsfrægan aflamann sem svaraði því til þegar útgerðarmaður hans bauðst til þess að umbuna honum af bátshlutnum, að það vildi hann ekki, sagði: „Leggðu þetta heldur í veiðarfærin, ég skal svo reyna að fiska meira. Strákarnir mundu gruna mig um að hafa lofað þér að gera eitthvað ljótt í staðinn,“ sagði hann. Og það var útgerðarmaðurinn sem sagði mér frá svarinu.

Ég líki sem sagt aðeins til skiptanna á áhafnahlutnum. Það er við hæfi þegar við ræðum um stjórnun á kjaramálum á þjóðarskútunni í heild.

Nú geri ég alveg ráð fyrir því að mér verði sagt með spekingssvip að líkingar séu jafnan hættulegar vegna þess að hliðstæðurnar séu of fáar, og mér verði nefnd mörg dæmi um það hversu ólíku sé saman að jafna þar sem sé þjóðfélagið með mismunandi og flókinni verkaskiptingu annars vegar og fiskiskipið með annars konar og miklu einfaldari verkaskiptingu hins vegar. Þetta býst ég við að mér verði sagt með alveg sérstökum spekingssvip, raunar þess háttar spekingssvip sem er við hæfi hvarvetna þar sem hver étur eitthvað upp eftir öðrum. Kynni meira að segja að fara svo að fyrirbærið yrði nefnt nútímaþjóðfélag ef ekki beinlínis háþróað nútímasamfélag. En það er nákvæmlega sama hvaða nöfnum íslenskt þjóðfélag er nefnt. Ég mun eftir sem áður verða þeirrar skoðunar, að tveir hásetahlutir séu alveg nægilegir handa skipstjóra, og mun halda hinu fram, að tvöföld verkamannslaun séu ekki aðeins nægilega há laun fyrir mestu ábyrgð og fullkomnustu kunnáttu í þjóðfélaginu, heldur sé þess háttar binding hinna hæstu launa við hin lægstu með föstu og óumbreytanlegu hlutfalli til þess fallin að auka samheldni, eyða tortryggni og auðvelda almennar kjarabætur. Og síðast, en ekki síst, mundi slíkt skref í áttina til kjarajöfnunar auðvelda landsfeðrunum það verk, sem þeir ráða nú alls ekki við, sem er að hemja neysluna innan þeirra marka sem efnin leyfa.

Í þáltill. er svo ráð fyrir gert að lögbundið verði að hæstu laun hérlendis verði ekki hærri en svo að þau samsvari tvöföldum verkamannslaunum miðað við 40 stunda vinnuviku. Hér er alls ekki gefið í skyn að flm. telji að hinu fullkomna réttlæti verði náð með þessari skipan kjaramála né heldur að þessi háttur skuli viðhafður um aldur og ævi. Hér er að því miðað að stefnt skuli að launajöfnuði, horfið frá vísvitandi og opinberri stefnu sem miðar að launamismun. Hér verði stigið mjög þýðingarmikið skref í átt til þess markmiðs sem hefur verið skilgreint á þá lund að hver þegn fái laun eftir þörfum fyrir framlag eftir getu. Einnig er svo ráð fyrir gert að öll fríðindi, sem starfi fylgja, skuli metin til launa og að enginn þegn megi gegna fleiri launuðum störfum en einu. Til þess er sem sagt ætlast að svo verði gengið frá hnútum við lagasetningu þessa, hin nýju lög um hámarkslaun, að bætt launakjör verkamanna verði algjör forsenda fyrir hækkuðum launum þeirra sem betur eru settir, þau lög verði ekki sniðgengin. Að sjálfsögðu er ekki útilokað með löggjöf af þessu tagi að menn inni af höndum meiri vinnu en 40 stundir í viku og fái greiðslu fyrir. En þá eiga þeir að fá greiðsluna í sömu hlutföllum og áður er greint, enginn fái hærri laun fyrir unna klukkustund í yfirvinnu en sem nemur tvöföldu yfirvinnukaupi verkamanns. Og eins og að líkum lætur yrði þá horfið frá því kerfi fríðinda sem nú er tíðkað, að nokkurrar stéttar maður fái fastar greiðslur fyrir meinta yfirvinnu sem hann vinnur ekki.

Ég hef reynt að rýna dálítið í opinberar skýrslur um launagreiðslur hérlendis síðustu árin og lagt í það talsverða vinnu að bera laun saman við skattgreiðslur. Niðurstaðan að athuguninni með tilliti til upplýsinga, sem fyrir liggja um einkaneyslu, leiddi til þess að ég taldi mér ekki fært að draga af henni áreiðanlegar niðurstöður. Athugunin leiddi eiginlega ekki til neins annars en þess að rifja upp fyrir mér orð Guðmundar heitins Benjamínssonar á Grund í Kolbeinsstaðahreppi, þegar hann sagði: „Það er nú svona með þessa góðu og gáfuðu og göfugu þjóð, henni er svo eiginlegt að ljúga og falsa skýrslur.“

Svo að ég nefni aðeins tvö dæmi um niðurstöður af athugunum, í fyrsta lagi á tekjum, í öðru lagi á opinberum gjöldum og í þriðja lagi á neyslu, má geta þess að ég fletti upp í skattskránni á nafni kunningja míns eins sem ég taldi mig hafa rökstuddan grun um að hefði um það bil tvöfaldar tekjur á við mig, og komst að raun um að hann hlyti að hafa fjórðungi minni laun en ég. Við lauslega athugun á eyðslu hans komst ég aftur á móti að raun um að hvort tveggja væri rangt, hann hlyti að hafa tíföld laun á við mig. Við athugun á sköttum annars kunningja míns í sama launaflokki, sem ég vissi að gegndi allmörgum aukastörfum, komst ég að raun um að hann hlyti að vinna 52 klst. á sólarhring 363 daga á ári, og dreg þá að vísu jóladag og annan í jólum. Neysluvenjur hans benda aftur á móti eindregið til þess að hann hafi minni tekjur en ég, enda hefur konan hans orð á því að hann sé dálítið fastheldinn á heimilispeningana.

Þrátt fyrir það að niðurstöður af þessum athugunum mínum séu ekki til þess að flíka þeim beinlínis sem áreiðanlegum neyðist ég til þess að nefna hér fáeinar dálítið teygjanlegar tölur varðandi launagreiðslur eins og þær eru nú.

Fjöldi launþega árið sem leið mun samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hafa verið nálægt 70 þús. og fjölgunin nemur um 1500 á ári. Launagreiðslur á landinu munu hafa samkvæmt sömu heimildum numið um 40 milljörðum kr. árið 1973, um það bil 59 milljörðum árið 1974 og talið sennilegt að þær hafi numið um 77 milljörðum í fyrra. Fjölgun launþega frá árinu 1973 til ársins 1975 mun nema 4504, en heildarlaunahækkunin nemur 37 milljörðum. Af þessum tölum getum við aðeins ráðið í það hvernig verðbólgunni hefur vegnað á þessu tímabili, en afkoma launafólks hefur breyst að verulegu leyti í öfugu hlutfalli við það.

Hyggjum að launaskiptingunni á landi hér þessi sömu ár og miðum við sömu upplýsingar, þ.e.a.s. tölur Þjóðhagsstofnunar, sem ég ætla að venjulega séu lagðar til grundvallar við kjarasamninga þó að sé með nokkrum fyrirvara gert. Þá ber að geta þess að hér er einungis miðað við föst laun, yfirvinna og aukasporslur eru sem sagt ekki reiknaðar með. Skiptingin verður þá þannig, ef miðað er við árið í fyrra, að um það bil 25 þús. manns fengu föst laun upp að 60 þús. kr. á mánuði. Laun á bilinu 60–90 þús. kr. munu hafa fengið álíka margir eða hér um bil 25 þús. manns. Laun á bilinu 90–120 þús. á mánuði fengu um 15 þús. manns. Og laun yfir 120 þús. á mánuði, þ.e.a.s. tvöföld verkamannslaun og meira, hafa fengið 5–7 þús. manns, samkvæmt þessum útreikningum. Nú er þess að geta að þriðjungur af heildarlaunagreiðslum árið sem leið er fyrir utan og ofan þessa skiptingu, og er ekki með öllu ljóst af opinberum skýrslum hversu mikill hluti þeirra 26 milljarða hefur farið í einhvers konar aukasporslur, yfirvinnugreiðslu eða greiðslur fyrir aukastörf. Og loks er þess að geta að laun sjómanna eða hlutur sjómanna er ekki reiknaður með í þessu dæmi. Hlutaskiptin eru sem sagt fyrir utan þessar 77 milljarða launagreiðslur. Eins og segir í grg., þá gegnir öðru máli um hlutaskipti við fiskveiðar, og mun ég víkja að því hér á eftir með hvaða hætti ég ætlast til þess að hin nýja skipan stuðli að því að launagreiðslur allra landsmanna komist í svipað horf og hlutaskipti sjávarafla, þannig að árlega verði skipt milli landsmanna eftir föstum og sæmilega siðgóðum reglum þeim feng sem aflast hefur. En hér kemur það sem sagt í ljós að þriðjungur heildarlauna landsmanna, að tekjum sjómanna slepptum, hefur farið í einhvers konar óljósa ráðstöfun, óljósa launaráðstöfun. Nú mæli ég að vísu ekki með því að við sniðum okkur stakk eftir erlendri tísku um eftirlit með tekjuskiptingu, síður en svo. En það ætla ég að þætti bera vott um litla ráðdeild að ætla svo mikinn hluta heildarlauna í óvissar greiðslur. Mér er ekki alveg ljóst hvaða klæðilegt heiti hagfræðingar okkar hafa búið til yfir fyrirbærið, en á gamalli og góðri íslensku mætti segja mér að þetta héti sukk.

Í þessari þáltill. er sem sagt lagt til að kveðið verði á um það í lögum hvað hámarksgreiðslur snertir hversu skipta skuli þeim hluta árlegra þjóðartekna sem til launa komi, að komið verði reglu á skipti milli áhafnar innbyrðis þar sem tekið væri svipað tillit til hinnar mestu ábyrgðar og gildir á fiskiskipunum okkar. Hér er ekki um það fjallað hversu skipt skuli arði milli vinnu og fjármagns eða nánar tiltekið milli starfsmanna og atvinnurekenda. Deilan um þau skipti mun halda áfram og ýmsum veita betur, ef að líkum lætur, uns að því kemur að launafólkið kemst að þeirri niðurstöðu að sæmilegast sé að það reki sin eigin atvinnutæki, hvert svo sem það form kann að verða sem komið verður á þann sameignarrekstur. Hér er aðeins um það að ræða að komið verði siðgóðri og fastmótaðri skipan á það í meginatriðum hvernig skipt skuli launum hér á landi, — með því móti má eyða tortryggni og öfund, og vel að merkja, öfundin er ekki ómerkilegt afl í íslenskri pólitík, — og hvernig auka megi samheldni á milli launafólks innbyrðis. Með því móti má eyða togstreitu sem nú á sér stað innbyrðis milli launastéttanna sjálfra um skiptingu áhafnahlutarins. Með því móti má einnig finna leið til þess að koma málum svo fyrir að ekki sé beitt verðbólguklækjum til þess að láta líta svo út sem meiru sé að skipta eftir árið en því sem aflað hefur verið.

Ég hef orðað það svo, að með þeirri skipan að kveða á um að ekki megi greiða hærri laun en sem nemur tvöföldum launum verkamanns verði kjarabætur til hinna lægst launuðu gerðar að algjörri forsendu fyrir launahækkunum þeirra sem betur eru settir. Með þessu móti yrðu launakjör hátekjumanna, ef svo má segja, múrfest við laun verkamanna þannig að einungis með kjarabótum til verkamanna yrði unnt fyrir þá, sem í áhrifastöðum eru, að fá fram launabætur handa sjálfum sér. Mér er það meira en ljóst að ein af meginandbárunum gegn slíkri ráðstöfun verður sú, að hér sé ekki gert ráð fyrir nægjanlegri umbun fyrir menntun og þekkingu, að með því að takmarka vinningsvonina á .þennan hátt verði einnig brott numinn hvati til náms og dáða. En því er þá til að svara, að auðvelt ætti að vera fyrir okkur með þessari skipan að bjóða námsfólkinu okkar námslaun í stað lána og styrkja, gegn því að það gangi til starfa hjá okkur skuldlaust að námi loknu fyrir tiltölulega lægri laun en ella, meðan það getur eins og nú er ástatt borið við miklum námskostnaði. Hinu, að umbun fyrir framtak og dáð verði skert með þessu móti, má svara á þá lund, að reynslan sýnir að tvöfaldur hásetahlutur reynist fullnægjandi hvöt fyrir skipstjóra á fleytunum okkar til þess að leggja sig alla fram. Og ég fæ ekki séð að laun, sem nema tvöföldum launum verkamanna, þurfi að verða neinum of lítil, þótt dugandi maður sé, ef við keppum að því að verkamannslaunin verði nógu há.

Ég ætla aðeins að þakka forseta og ritara fyrir sérstakt hljóð á bak við mig meðan ég flutti ræðuna.