28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3305 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

205. mál, hámarkslaun

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það, sem kemur mér til að standa upp og tala í þessu máli, eru ummæli flokksbróður míns sem hér talaði á undan mér, 2. þm. Reykn. Hann fagnaði því að þessi till. hefði komið fram, og ég vil þá láta a.m.k. eina rödd úr þeim herbúðum koma fram, að ég fagna því kannske að sumu leyti að hún kemur fram, því till. er svo vitlaus að ég held að það sé alveg útilokað að nokkur sjálfstæðismaður geti tekið undir hana, en ég fagna að hún komi fram til þess að sýna hvernig andstæðingarnir í pólitík á hv. Alþ. eru hugsandi, það er annað mál. En það sjónarmið kom ekki fram hjá mínum ágæta flokksbróður.

Ég held að fátt í þessari till. eigi rétt á sér. þó er góður viður í sumu, en það er ekki margt. Ég ætla að fara yfir hana í flýti, en í till. segir, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. skorar á ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um hámarkslaun, þar sem kveðið verði á um að ekki megi greiða hærri laun hér á landi en sem svarar tvöföldum vinnulaunum verkamanns miðað við 40 stunda vinnuviku.“

Á að taka það út úr íslensku þjóðfélagi öðrum þjóðfélögum fremur að menn geti aflað eftir hæfileikum og dugnaði? Þennan hugsunarhátt skil ég ekki, ef menn hafa bæði líkamlegan þrótt, heilsu, hugvil og allt sem til þess þarf að afla meira en sá sem hefur lægstu launin í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: Tvöfalt meira má hafa.) Tvöfalt meira. Ef menn afla með hugviti sínu og vinnu meira, þá á ekki að láta það renna í fyrirtækin sem þeir vinna hjá. heldur til ríkissjóðs. Það á sem sagt að skera þann langa og reyna að klístra því á þann stutta. Þetta er alveg „brilliant“ og ég fagna því að þessu leytinu til að till. skuli koma fram, því vitlausari getur hún varla verið.

Jafnframt verði loku fyrir það skotið að einstaklingar gegni nema einu fastlaunuðu starfi. Ég skal viðurkenna að það er athyglisverð till. En við erum mannfátt þjóðfélag í stóru landi, og þjóðfélagið hefur þurft á því að halda, að menn vinni hér miklu lengri vinnudaga og vinnustundavikur heldur en víða erlendis. Verkefnin eru, má segja, þau sömu og finnast í stórum þjóðfélögum. Við höfum ýmsar skyldur og flestar þær skyldur sem stór þjóðfélög hafa. Tökum t.d. Reykjavík sem er lítil höfuðborg, hún hefur flestar, ef ekki allar þær höfuðborgarskyldur sem París, London og New York eiga að gegna, og það þarf að hlaða miklu fleiri verkefnum á hvern einstakling í svona fámennu þjóðfélagi með allar þessar skyldur heldur en gert er í mannmörgu þjóðfélagi. Þetta er alveg ljóst. En þetta er athyglisvert, þ.e.a.s. úr þessum efnivið mætti kannske smíða eitthvað gott.

Þá segir í till. að átt geti sér stað duldar launagreiðslur í formi eins konar fríðinda. Þetta er líka athyglisvert. Það getur verið að það þurfi þá að hækka launin til þess að það komi í staðinn fyrir þessi duldu fríðindi, svo sem bensínstyrki eða ýmislegt annað. Þetta getur verið sæmilegur efniviður til úrvinnslu.

Með breytingum á skattalögum skal að því stefnt að einkafyrirtæki hagnist ekki á lögbundinni lækkun hæstu launa, og skal því fé, sem rennur til ríkissjóðs af þessum sökum eða sparast með niðurfærslu á launum: embættismanna í efstu launaþrepum, varið til almennrar kjarajöfnunar og annarra félagslegra umbóta. Þarna á að taka það fé, sem hátekjumennirnir í fyrirtækjunum, einkafyrirtækjum, mundu missa af við þessa launalækkun, og láta það í formi skatta renna til ríkissjóðs til launajöfnunar milli þeirra, sem starfa við störf sem eru kannske ekki annað en til uppfyllingar í fyrirtækjum eða stofnunum, til að jafna laun þeirra við laun forstöðumanna sem bera ábyrgðina á rekstrinum. Hvaða vit er nú í þessu? Er hægt að koma með vitlausari till. hér inn á hv. Alþ.? Ég gat þó um að það er ýmis efniviður þarna sem hægt er að hugsa um, en það má ekki allur góður viður verða að axarsköftum í höndum á þessum blessuðu kommúnistum hér á hv. Alþ., eins og þessi till. ber greinilega vott um.