28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3306 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

205. mál, hámarkslaun

FIm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka ræðumönnum vingjarnlegar undirtektir undir þessa till., einnig hv. þm. Albert Guðmundssyni. Ég held að hann hafi skilið hana af öllum mætti, þó árangurinn væri nú kannske ekki eftir erfiðinu. En hvað um það, þar hygg ég að hafi nú komið fram grundvallarmunur í lífsviðhorfum okkar fremur heldur en grundvallarmunur á mati okkar á gildi starfs í samfélaginu. En að þessu vík ég nú hér á eftir.

Ég verð nú að leiðrétta smámisskilning hjá hv. þm. Jóni Helgasyni, 4. þm. Suðurl. Ég fæ ekki séð að lagasetning í þá veru, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill., mundi leiða til þess að verkfallsréttur yrði afnuminn, þó það yrði í lög bundið að starfsmaðurinn með 180 þús. kr. mánaðarlaun mætti ekki hafa hærri laun meðan hinn almenni verkamaður fær ekki meira en 60 þús. kr. á mánuði. Þetta þýddi það að til þess að sá, sem er með 180 þús. kr. launin, gæti fengið þau hækkuð, þá yrði að hækka laun verkamannsins, það yrði árangurinn af launabaráttu hinna lægst launuðu sem gilti í þessu sambandi. Við skulum gá að einu, og nýt ég þess nú alveg fyllilega að vera gjörsamlega óbundinn af skoðunum annarra viðteknum á kjaramálum okkar sem öðrum málum. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að hagsmunir verkamanns með 60 þús kr. mánaðarlaun fari ekki nema að nafninu til, eins og nú er háttað, saman með kjörum eða kjaramálum þess manns sem hefur þreföld verkamannslaunin.

Ég viðurkenni sjónarmiðið sem fram kom hjá hv. þm. Oddi Ólafssyni, að það er fleira, sem inn kemur í þetta dæmi, heldur en nákvæmlega upphæð útborgaðra launa, — miklu fleira. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, hversu flókið þetta mál er. Hér er aðeins um að ræða stefnumörkun og yfirlýsingu um vilja. Ég geri mér það t.d. fyllilega ljóst að aukasporslurnar sem hv. þm. Albert Guðmundsson minntist lítillega á og var mér samdóma um að afnema ætti — (Gripið fram í.) já, ég er honum fyllilega sammála um að það getur orðið erfitt að losna við þær í samfélagi þar sem slíkt sukk og slík spilling hefur verið ræktuð upp m.a., svo ég vitni enn þá í orð Guðmundar heitins Benjamínssonar á Grund sem var hinn vitrasti maður, m.a. vegna þess að það hefur verið látið líðast í þessu samfélagi að falsa skýrslur og segja ósatt um kjaramál.

Eitt vandamálanna, sem hv. þm. Jón Helgason nefndi í þessu sambandi, var akkorðsvinnan og uppmælingarvinnan. Ég er þeirrar skoðunar að þar sem við getum á eðlilegan hátt launað eftir afköstum og gæðum vinnunnar, sem innt er af hendi, þá sé það eðlilegt á þurrlendi eins og á sjó. Aftur á móti fer hitt ekkert á milli mála — það hygg ég að velflestir hv. þm. séu mér sammála um — það fer ekkert á milli mála að í mati vinnueininga til kaups hefur ekki að öllu verið farið að lögum. Það hefur verið ákaflega sterk tilhneiging í þá átt að breikka bilið á milli eðlilegra afkasta í tímavinnu og þess sem greitt er fyrir einingu í vinnu.

Ein af meginástæðunum fyrir því, að ég flutti þessa þáltill., var einmitt sú, að samheldni verkafólks hefur brostið á síðari árum í kjarabaráttunni, í raunhæfri kjarabaráttu, að verkafólkið er ekki lengur á sama báti, og þegar ég nefni verkafólk í þessu sambandi, þá vil ég taka það fram vegna einmitt hv. þm. Jóns Helgasonar, að í þeim hópi tel ég bændur líka, en samheldnina hefur brostið þarna vegna þess að það hefur verið rekinn fleygur — (Gripið fram í.) Hver er verkamaður og hver ekki? Ég vil leyfa mér að kalla þann mann, sem rekur eigið fyrirtæki og tekur arð fyrst og fremst af vinnu starfsmanna sinna, við hljótum að flokka hann einhvern veginn öðruvísi. Með þessu er ég ekki að segja að hann kunni ekki að vinna þjóðnýtt starf. En ég held við köllum hann ekki verkamann og þá menn, sem þess háttar iðju stunda, við köllum þá ekki verkafólk. En hvað um það. á síðustu áratugum hefur verið rekinn fleygur á milli hinna ýmsu hópa launþega í gjörð æ flóknari kjarasamninga, þannig að þessir hópar eru þveröfugt við það, sem á sér stað á bátnum, þar sem skipstjórinn hefur 2 hluti, stýrimaður 11/2, maskínisti 11/4 og kokkurinn hafði lengi 1.20 eða 11/5. Það hefur verið rekinn fleygur þarna á milli. Starfsmennirnir hafa farið að bítast innbyrðis um skiptin á þeim hlut sem til áhafnar kemur.

Í grg. með þáltill. og þó öllu fremur í framsöguræðu minni vakti ég athygli á því að eftir sem áður, þótt slík löggjöf yrði samþ., þá væri ekki til lykta leidd deilan um það hvernig fram ættu að fara skipti á milli starfs og kapítals, starfs, vinnu og höfuðstóls. Það er sem sagt dellan á milli atvinnurekenda og verkafólksins í heild um það hvernig skipt skuli arðinum. Hún yrði eftir sem áður óleyst í meginatriðum og þau átök mundu halda áfram að fara fram í ótöldum vinnudeilum og e.t.v. ótöldum fjölda verkfalla áður en hún yrði til lykta leidd.

Hér er sem sagt að því miðað að finna eitthvað sem gæti kallast kerfi til þess að fara eftir í skiptingu á þeim hlut sem til launafólksins heyrir.

Ég ítreka það vegna ummæla hv. þm. Alberts Guðmundssonar og drengilegrar umhyggju hans og sjálfsagðrar fyrir kjörum forstöðumanna stofnana og annarra sem mikil ábyrgð hvílir á, þá ítreka ég það, hv. þm. Albert Guðmundsson, að ég vildi gjarnan að hv. þm. tilgreindi mér það starf í landi, í opinberri stofnun eða hjá einkafyrirtæki sem meiri ábyrgð hvílir á heldur en á starfi skipstjóra, þar sem áhöfnin á líf sitt og limi undir kunnáttu hans og afkomu sína einmitt undir hugkvæmni hans og þreki til þess að afla.

Tilfellin, sem ég ýja að í grg. með þessari þáltill., þar sem um er að ræða sexföld laun verkamanna, þar hef ég reiknað inn í aukasporslurnar, fríðindin. Ég veit ekki til þess að á landi hér hafi nokkur einn aðili í opinberum launum sexföld verkamannslaun. En hér koma til aukasporslurnar, fríðindin, svo sem eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bil, frír rekstur á bil og síðan greiðslur fyrir aukastörf, föst laun fyrir aukastörf sem hlutaðeigandi vinna í sínum fasta vinnutíma í aðalstarfinu. Hér kemur sem sagt inn þessi slappleiki í íslensku þjóðlífi sem Guðmundur heitinn Benjamínsson talaði um forðum daga.

Ég ætlaði mér aldrei þá dul raunverulega í sambandi við þáltill. þessa og umr. um hana að rækta upp þann kjörvið grænan í barmi hv. þm. Alberts Guðmundssonar, sem mætti bera ávöxt félagslegs skilnings, eða þá viskujurt, sem mætti bera þess háttar angan sem opnaði vit hans fyrir þeim mismun sem er á kjörum lítilmagnans, sem leggur sig allan fram, en er ekki gefinn til þess mátturinn, og síðan hins gæfusama, sem gefið var þrekið til margfaldra afkasta í raun og veru, en ekki rétturinn til þess að nota það þrek til þess að auðgast á vinnu lítilmagnans. Það liggur við að ég óski þess að lifa ekki þá stund, að hv. þm. Albert Guðmundsson skildi þetta, því þá væri hann orðinn allur annar maður og þá er ekki víst ég kynni við hann. Hann væri a.m.k. ekki sá sem ég hef þekkt lengi.

En ég er sem sagt einn flm. að þessari þáltill. Ástæðan er ekki sú, að af fræðilegum, pólitískum ástæðum hafi ég ekki getað fengið meðflm. að þáltill. innan míns þingflokks. E.t.v. er hún fyrst og fremst sú að ég kaus heldur fyrst um sinn að gera einn grein fyrir þeirri heimspekilegu afstöðu, pólitísku, heimspekilegu afstöðu skulum við segja, sem liggur henni að baki. Og þar kemur einmitt þetta til, sem ég er alveg viss að ég get aldrei fengið hv. þm. Albert Guðmundsson til að skilja, að það er engin ástæða til þess fyrir okkur á þessu kalda landi að fara ekki aðrar leiðir í skipan efnahagsmála heldur en tíðkast yfirleitt úti í heimi.

Eins og ég hef rætt í framsöguræðu minni, þá tek ég hér fyrst og fremst mið af fornum hlutaskiptum sem hafa gefist vel á þessu vertíðanna landi. Þó að fordæmi muni hafa fundist í Gulaþingslögum, þá munu þau hafa mótast fyrst og fremst hér á voru kalda Íslandi, við sérkennilega náttúru þessa lands þar sem sækja varð föngin af hörku á vertíðum umfram alla muni, og á því sama landi, þar sem þróaðist sérstakt tryggingakerfi, sem hvergi annars staðar þekktist á heiminum, þar sem tryggingakerfi hreppanna var, fyrir óblíða náttúru þessa undarlega lands, þess lands sem skapaði þjóðfélag á 1100 árum sem varð vegna eðlis þessa lands, vegna náttúru þessa lands, á ýmsan hátt mjög svo frábrugðið þjóðfélögum nágrannalanda okkar og þ. á m. grannþjóða okkar í Skandinavíu. Það væri ekki ófróðlegt í þessu sambandi, þó að ég ætli mér ekki tíma til þess núna, að rekja það í stórum dráttum með hvaða hætti Ísland skapaði sérstæða þjóð úr þessari írsk-norsku blöndu sem hingað fluttist fyrir 1100 árum, með hvaða hætti það skapaði úr þessu fólki sérstaka þjóð, með veðurhörku langt umfram það sem frumbyggjar landsins þekktu, með öðrum nokkuð hrjúfum náttúruöflum, svo sem jarðskjálftum, eldgosum og hafísárum, — með hvaða hætti þetta land þjarmaði svo að afkomendum hinna fornnorrænu konunga sem röktu ætt sína til sjálfra guðanna og „exeleruðu“ í erlendum höfðingsskap, með hvaða hætti þetta land þjarmaði svo að þeim að á 17. og 18. öldinni voru ekki nema 40 þúsund stykki eftir með engum höfðingsbrag, óupplýstir, guðhræddir, hjátrúarfullir, óhreinir, soltnir dónar, sem skorti bæði tækin til þess og þekkinguna að flýja af hólminum, að flýja þetta land, og jafnvel viskuna til þess að deyja. Þá var það sem þetta land hafði sigrað og gert þessa útlendinga sem hingað komu að auðri strönd, gert þá að íslendingum. Og það voru þeir, þessir aumingjar, sem voru forfeður okkar, þeir, þessir aumingjar, kunnu að hafa verið afkomendur norrænna konunga í beinan karllegg, eins og foreldrar þeirra trúðu, og jafnvel komnir af sjálfum guðunum. En það voru þeir, þessir menn, sem landið hristi og skók og svalt yfir í það að afsala sér hinum innflutta persónuleika, það voru þeir sem voru fyrstu íslendingarnir og lærðu að lifa í þessu kalda landi. Þeir eru forfeður okkar sem erum hér í dag, og það voru þeir sem sköpuðu samfélag í sátt loksins við þetta land, samfélag sem á sér heldur ekki neinn líka neins staðar í heiminum. Og svo á að taka fyrirmyndir um stjórn þessa samfélags frá öðrum þjóðum. Ekkert, sem tíðkast ekki með öðrum ljóðum, grannþjóðum okkar, hæfir síðan þessu samfélagi, stjórnarkerfi eða samfélagsmálum. Þetta viðhorf er ágætt til varðveislu þróttmiklu höfði í steinrunninni mynd. En upp úr slíkum hugsunarhætti sprettur ekki nokkur frjóangi.

Ég ítreka það sem ég sagði fyrr, að hugmyndin með þessari þáltill. er sú að stuðla að því að tekin verði upp siðbetri og greindarlegri aðferð við innbyrðis skiptingu á aflahlut milli launamanna, kerfi við skipti sem betur hæfi föngum þessa lands sem breytast frá ári til árs. Ég ítreka það, að með þessum hætti er ekki að því stefnt að komið verði í veg fyrir kjarabaráttu, baráttu um það með hvaða hætti heildarhlut, þeim hlut eða þeim afla sem á skipið kemur af aflaföngunum, með hvaða hætti honum verði skipt. Aðeins er hugmyndin þessi, að mynda reglur um það með hvaða hætti áhafnahlutnum skuli skipt, bæði af réttlætisástæðum og skynsemisástæðum, ef þær skyldu ekki alltaf fara saman.