28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3310 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

205. mál, hámarkslaun

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það var aðeins vegna þess að flokksbróðir minn, hv. 12. þm. Reykv., var að undrast undirtektir mínar undir þessa þáltill. Ég tek það skýrt fram, að það var ósköp eðlilegt að hann gæti ekki fundið það út úr mínu máli hvað till. væri vitlaus, vegna þess að mér finnst hún alls ekki vera vitlaus, síður en svo. Og ýmislegt það kom fram í máli hv. þm. Alberts Guðmundssonar sem sýndi það ljóslega að hann er alveg á sama máli og ég. Það er margt nýtilegt í þessari till. að hans áliti, enn þá fleira að mínu áliti. Og ég vil sérstaklega taka það fram, að það er mín skoðun að andstaða gegn till. sem þessari mundi ekki fyrst og fremst koma frá Sjálfstfl., — alls ekki. Sjálfstfl. hefur verið flokka duglegastur í því að jafna kjörin með því að taka ofan af, taka í sköttum allt sem er fram yfir u.þ.b. tvöföld verkamannalaun. Ég vil líka halda því fram að þetta, að kjarabaráttan mundi verða einfaldari, sé einmitt í fullu samræmi við yfirlýstar óskir vinnuveitenda nú í dag og hafi einmitt komið fram nýlega að þeir eru alveg að gefast upp undir þessu oki, þegar hver hópur potar sér, og hafa farið fram á meira miðstjórnarvald til alþýðusambandsins til þess að einfalda kjarasamninga. Það er í raun og veru þetta sem mundi ske, að þetta yrði miklu einfaldari kjarabarátta. Ég er hins vegar á því að það yrði erfitt að framkvæma þessa tillögu nema þar sem sterk stjórn væri við völd.

Ýmislegt kom fram í máli síðasta ræðumanns sem gaman væri að minnast á. En ég vil alveg sérstaklega taka undir það að þetta er merkisþjóðfélag sem við lífum í, og einmitt hreppafyrirkomulagið með þeim tryggingum og því öryggi, sem það skapaði á sínum tíma, er mjög merkilegt, þó að það sé nú kannske ekki rétt að það sé til orðið við þróun hér hjá okkur. Ég hef heyrt þá skýringu og ég held að hún sé nú kannske nokkuð rétt, að víkingarnir hafi verið neyddir til, þegar þeir skildu konur mannanna, sem þeir tóku með sér í víking, skildu þær eftir heima, þá hafi þeir verið neyddir til að tryggja þeim það öryggi að þeir sæju fyrir þeim ef eiginmennirnir kæmu ekki heim aftur. Og ég hef trú á að það sé nokkuð til í þessu, enda skiljanlegt. Eitt er víst, að fram eftir öllum öldum höfðum við hér gott þjóðfélag og furðugóðar tryggingar sem voru þá nokkurt einsdæmi. En hins vegar á það kannske ekki mikið skylt við það sem við erum hér að ræða um.

Ég lít svo á að það sé ekkert í stefnu Sjálfstfl. nú sem mæli gegn því að við reyndum að framkvæma till. eins og þessa, — alls ekki. Og ég hef ekki trú á því að flokkurinn sé í raun og veru að ganga frá sinni stefnu þegar hann nú þessar víkurnar berst gegn því að afnema beina skatta, því að skattarnir eru stórfelld tekjujöfnun og færa geysilegt fjármagn yfir til ríkisins. Og nú loks þegar Alþýðusambandið hefur mælt með því að beinir skattar yrðu lagðir niður, þá er það einmitt þessi flokkur okkar hv. 12. þm. Reykv. sem berst gegn því og einmitt á þeim grundvelli að það yrði erfitt að ná til hátekjumannanna á annan hátt og ekki líklegt að hægt yrði að færa niður laun þeirra vegna samtakamáttarins.

Ég held því að ég standi við það þrátt fyrir viðvörun starfsbróður míns að þessi till. sé vel þess virði að athuga hana, og hún mundi auðvelda afnám beinna skatta.

Ég álít það ekki neinn sérstakan tilgang að íslendingar séu að vinna 10, 12 til 14 klst. á dag. Okkur liggur ekki það mikið á að við getum ekki látið okkur nægja 40–45 stunda vinnuviku, og ég held að það yrði miklu heilbrigðara líf hjá okkur ef við hægðum aðeins á okkur í vinnunni og hættum þessu óskaplega vinnuálagi, nema þar sem alger nauðsyn er. Þetta gæti jafnvel líka átt við um sjómennina. Það er ekki nokkur ástæða til þess að einn togaraskipstjóri hafi 500 þús. kr. á mánuði í tekjur. Þeir geta alveg eins skipst á tveir og haft sínar 250 þús. kr. hvor. Við eigum nóg af mannskap á skip okkar, og ég held að líf þeirra mundi verða fyllra og heilbrigði þeirra meiri ef þeir gerðu þetta. Þar að auki er nútíminn að breyta öllum viðhorfum til erfiðisvinnumanna, og ég held að það sé nokkuð öruggt mál að í dag sé lítið á það sem heilbrigðara starf að vinna verkamannavinnu heldur en að sitja kannske 8–10 klukkutíma í skrifstofustólnum — eða við skulum segja 6–8 klukkutíma alla virka daga áratugum saman. Það er ýmislegt, sem þekkingin hefur leitt í ljós, m.a. það að einmitt verkamannavinnan gefur nauðsynlega þjálfun og skapar möguleika á meiri heilbrigði.