28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3314 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

205. mál, hámarkslaun

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Þetta eru nú orðnar æðimerkilegar umr. og kannske ekki ástæða til að lengja þær. En þó get ég ekki stillt mig um að leggja hér aðeins orð í belg.

Mönnum hefur orðið mjög tíðrætt um það hvort till. Stefáns Jónssonar, hv. 5. þm. Norðurl. e., sé merkileg till. eða ómerkileg till. Mér finnst þessi till. vera merkileg. Hún er sérstaklega merkileg vegna þess að þar kemur fram ákveðin hugmynd um að það sé nauðsynlegast að Alþ. setji reglur um það hvernig menn skipta með sér afrakstri erfiðis síns í þessu landi. Ég er ekki endilega viss um að þó að þetta yrði gert, þá yrði farið nákvæmlega eftir þeim reglum sem hér er bent á, að hæstu laun megi ekki vera meira en helmingi hærri en þau lægstu. Það er kannske ekki heldur aðalatriðið. Ég held að það væri geysistórt spor stigið í það sem ég vildi kalla rétta átt ef við gætum komið okkur yfirleitt saman um skynsamlega skiptingu á arðinum af vinnu okkar, skynsamlega skiptingu milli þjóðfélagsþegnanna. Ef við einu sinni getum komið okkur saman um slíka skiptingu, þá ætti að vera tiltölulega mjög auðvelt að breyta þeim kjörum í samræmi við breyttar þjóðartekjur, hvort sem þær eru á hverjum tíma hækkandi eða lækkandi. Í þessu felst í raun og veru viðurkenning á því, að það sé ekki eðlilegt að miða kaup og kaupkröfur á hverjum tíma við framfærslukostnað, heldur miklu fremur við þjóðartekjur. og það er það sem við ættum að gera. Ég álít t.d. að það vísitölukerfi, sem við bjuggum lengi við og notum nú raunar leifar af enn, hafi að ýmsu leyti verið óheppilegt. Ég er ekki að segja að það sé ekki skynsamlegt að hafa vísitölukerfi, en vísitalan þyrfti að breytast eftir breyttum þjóðartekjum, en ekki eftir breyttum framfærslukostnaði.

Sú verðbólga, sem við búum við og flestir segja að sé af hinu illa, þó að verðbólgan sé einn af þeim löstum sem færri vilja e.t.v. losna við heldur en hallmæla, þá held ég að verðbólgan stafi að verulegu leyti af því að við höfum sífellt verið að reyna að skipta meiru en við höfum aflað. Það er höfuðorsök verðbólgunnar að á bak við þær krónur, sem við semjum um að skipta á milli okkar, eru sífellt minni verðmæti eftir því sem krónurnar eru fleiri sem talað er um. Ég held að ef væri hægt að koma sér saman um skiptingu í þá átt sem gert er ráð fyrir í till. hv. þm. Stefáns Jónssonar, þá gætum við með tiltölulega auðveldum hætti annið bug á verðbólgunni.

Þetta minnir líka á það, að okkur er orðin feikimikil nauðsyn á því að finna betri leiðir til samningagerðar heldur en tíðkast hafa að undanförnu. Í þessari till. er raunar á það minnst að verkamenn, —- að vísu er hugtakið verkamaður dálítið óljóst, — að verkamenn búa við ærið misjöfn kjör í þessu landi, geysilega misjöfn kjör, og það kom fram í framsöguræðu hv. þm. Og það er kannske einn erfiðasti þátturinn í okkar kjarabaráttu í dag að kjör þeirra, sem þó eru kallaðir verkamenn, eru afar misjöfn. Ég get ekki stillt mig um að nefna dæmi hér sem mér var sagt fyrir þremur dögum, — dæmi þess að maður, sem vann á s.l. sumri á vélknúnu tæki og er að mínum dómi verkamaður í þess orðs réttu og góðu merkingu, hafi haft á sjötta hundrað þús. kr. í kaup mánuð eftir mánuð. Þetta sýnir aðeins hversu þeir. sem eru verkamenn, búa við geysilega misjöfn kjör. Því miður get ég ekki sannað þessa sögu. Það er sennilega hægt. Sannast að segja finnst manni hún ótrúleg, en það var fullyrt að þetta gæti gerst innan þess ramma sem kaup er greitt eftir í þessu landi nú á tímum.

Ég ætla ekki að orðlengja mikið um þetta þó að það væri vissulega hægt og löng ræða hv. flm. gæfi e.t.v. tilefni til þess, ekki síst önnur ræða hans. En ég get ekki neitað því að málflutningur hans fannst mér bera nokkurn keim af því að hann sæi fyrir sér, ef þessi till. kæmi til framkvæmda, nokkurs konar þúsund ára ríki, þar sem ljónið léki sér með lambinu. Og er það ekki einmitt það sem okkur er sífellt að dreyma um, að við getum byggt upp þjóðfélag þar sem allir njóta nægilegrar og réttlátrar umbunar fyrir verk sín?

Það mætti margt fleira um þetta segja. Eitt af því, sem mér finnst ákaflega oft vera metið á vafasaman hátt þegar rætt er um kjaramál og tekjur, það er hver hefur unnið til háu launanna, hver hefur unnið til mikilla launa. Mat okkar á hæfileikum er áreiðanlega oft dálítið einkennilegt. Ég held að það sé kominn fullkomlega tími til þess einmitt fyrir okkur að gera okkur fullkomlega grein fyrir því að okkur vantar ekkert eins mikið í þessu landi eins og fólk sem af fullri alvöru vill snúa sér að undirstöðuframleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar. Ég held að okkur vanti enga menn fremur til starfa en duglega og vel menntaða verkamenn, sjómenn og bændur. Og ég gæti vel trúað því, að áður en langir tímar liðu neyddumst við til þess, hvort sem okkur líkaði betur eða verr, að hækka sérstaklega laun þessara starfsstétta. Og vel væri það hugsanlegt að eftir nokkur ár yrði flutt till. á Alþingi íslendinga þar sem væri sagt eitthvað á þá leið, að undirbúin yrði löggjöf um hámarkslaun þar sem ákveðið væri að ekki mætti greiða hærri laun hér á landi en sem svaraði tvöföldum vinnulaunum forstjóra og forstöðumanna stofnana, og væri þá verið að koma í veg fyrir að verkamaðurinn, bóndinn og sjómaðurinn, sem afla undirstöðuverðmætanna, beittu um of aðstöðu sinni til þess að sitja að kjötkötlunum.