28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

205. mál, hámarkslaun

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta þurfa ekki að vera mörg orð hér hjá mér. Hv. þm. Stefán Jónsson er það rækilega búinn að tala fyrir þessari ágætu till. sinni að við það út af fyrir sig er engu að bæta. Það voru aðeins víss orð í ræðu hv. 12. þm. Reykv. sem komu mér til að standa hér upp og segja örfá orð. Ég veit nefnilega nokkurn veginn að hann er að komast að því marki að skilja megintilgang till. af því að hann hefur verið að lesa hana öðru hvoru hér yfir í kvöld, og ég kem að því síðar á hverju ég þykist sanna þetta.

Frumkjarni þessarar till. hv. þm. Stefáns Jónssonar var einmitt það, sem hv. þm. Ingi Tryggvason vék hér að, að lyfta framleiðslustéttunum framar öðrum stéttum í launakjörum í þjóðfélaginu og — eins og hann tók rækilega fram í sinni framsöguræðu og ekki er ástæða til þess að bæta neinu við — láta þá hina betur stöddu einmitt sjá um það að lyfta þessum stéttum upp og gera það hreinlega með ákveðnum ákvæðum í löggjöf.

Hitt, sem ég veit að er önnur meginástæðan fyrir þessum tillöguflutningi, er hinn mikli kjaramismunur sem hefur farið vaxandi í okkar þjóðfélagi nú, þ.e.a.s. almennt, þó að áður fyrr væri vitanlega miklu meira bil milli þess ríka og þess sem ekkert átti. Og þar er ekki síður um að ræða mismun innan hinnar svokölluðu verkalýðshreyfingar, en auðvitað fyrst og fremst utan hennar, í skjóli ýmissar aðstöðu, í skjóli vissrar sérstöðu í þjóðfélaginu til þess að knýja fram sínar kröfur, — kröfur sem koma ekki alltaf fram í beinu kaupi, heldur einmitt í hinum duldu greiðslum, í hinum ýmsu fríðindum sem þessir aðilar æskja sér frekar en vissrar kauphækkunar, fyrir utan þá sem hirða allt sitt á þurru í þess orðs fyllstu merkingu. Á ég þá ekki við það sem hv. þm. Stefán Jónsson var hér að rökstyðja áðan í sambandi við sjómenn annars vegar og landverkafólk hins vegar, heldur hina, sem hirða allt sitt á þurru þannig að þeir hafa möguleika á því að hirða arðinn af annarra striti. Þeir eru auðvitað alveg í sérflokki hvað þetta snertir.

En orðin, sem komu mér til að standa hér upp fyrst og fremst, voru þau að við samflokksmenn hv. þm. Stefáns Jónssonar hefðum ekki viljað standa að þessum tillöguflutningi með honum af því að við hefðum lesið till. Ég veit að hér mælir hv. þm. gegn betri vitund, enda kom það í ljós í máli hans. Í fyrri ræðu sinni, eftir að hann var búinn að hlaupa rétt yfir till., líta rétt yfir hana, þá sagði hann að ýmsir líðir í henni væru góðir þrátt fyrir allt. (AG: Þrátt fyrir axarsköft.) Já, þrátt fyrir axarsköft. En í seinni ræðu sinni komst hann að því að kjarninn að baki till. væri bara feiknalega góður og þá var hann líka búinu að lesa till. a.m.k. tvisvar og grg. einu sinni í þokkabót. Og þetta var einmitt það sem við gerðum, við samflokksmenn hv. þm. Stefáns Jónssonar. Við lásum till. vel og vandlega, við lásum grg. hans og við fengum líka á þingflokksfundi að heyra töluvert af þeim rökstuðningi sem hann hefur haft uppi utan grg. varðandi þessa till. og okkur þótti í mörgu mjög skynsamlegur. Hann kaus hins vegar að vera einn og hann er öfundsverður fyrir það. Hann kom einn með þessa hugmynd sem menn hafa lýst hér mjög eindregnu fylgi við, þ. e meginkjarnann þar að baki. Hann kom einn með hina gullnu reglu sem ég taldi hann miða við þegar hann tók gömlu hlutaskiptaregluna og hafði hana sem viðmiðun, og hann rökstuddi till. með grg. og framsögu svo sem best varð á kosið. Ég verð aðeins að segja það, að ég tel það því miður að hann skyldi kjósa það fremur að vera einn en að leyfa okkur samflokksmönnum sínum að vera þarna með.