28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3319 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

185. mál, lögsagnarumdæmi í Austur-Skaftafellssýslu

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. allshn. hefur fjallað um frv. til l. um sérstakt lögsagnarumdæmi fyrir Austur-Skaftafellssýslu. N. leitaði umsagna dóms- og kirkjumrn. og sýslumannsins í Skaftafellssýslu og þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir umsögnum þeim sem bárust.

Í bréfi dóms- og kirkjumálarn. segir m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, ég les ekki bréfið allt:

„Breyting sú, sem felst í frv., hefur ekki í för með sér fjölgun embætta, þar sem gert er ráð fyrir að lögreglustjórinn á Höfn verði sýslumaður Austur-Skaftafellssýslu, og ætti breyting þessi því í sjálfu sér ekki að hafa aukakostnað í för með sér. Í grg. með frv. kemur fram að frv. er flutt að ósk íbúa sýslunnar, enda sýrist það hafa í för með sér aukið hagræði fyrir þá. Með tilvísun til þessa getur rn. fallist á efni frv.“

Sýslumaður Skaftafellssýslu segir svo m.a. í bréfi til n., með leyfi hæstv. forseta:

„Í rás aldanna hafa ýmist verið einn eða tveir sýslumenn í Skaftafellssýslu. Þeir hafa setið á a.m.k. fimm stöðum í Austur-Skaftafellssýslu og þrem stöðum í Vestur-Skaftafellssýslu. Fyrir 1880 var sýslunni skipt í tvö lögsagnarumdæmi sem sami sýslumaður gegndi. Síðan var því breytt í eitt lögsagnarumdæmi. Með l. nr. 15 13. apríl 1973 var embætti lögreglustjóra í Hafnarhreppi stofnað. Hann fer með allt dómsvald og umboðsstörf í Hafnarhreppi. Samkv. ósk minni og Friðjóns Guðröðarsonar lögreglustjóra var hann skipaður fulltrúi sýslumannsins í Skaftafellssýslu til þess að framkvæma hvers konar dómsathafnir í opinberum málum í Austur-Skaftafellssýslu sem sýslumannsembætti í Skaftafellssýslu tilheyra. Góð samvinna hefur verið milli embættanna. Greiðslur til sýslumannsembættis Skaftafellssýslu, sem greiddar voru lögreglustjóranum í Hafnarhreppi, námu kr. 1 950626 á s.l. ári eða 14% af heildarinnheimtunni í Austur-Skaftafellssýslu. Sýslumannsembættin eru leifar gamals skipulags, sem alls staðar annars staðar hefur verið breytt. Mikið hefur verið rætt um breytingar á því skipulagi á s.l. árum svo og meiri aðgreiningu framkvæmdavalds og dómsvalds. Vonandi er framtíðarskipun þeirra mála ekki langt undan.“

Niðurstaða í þessu bréfi er samt sú, að sýslumaðurinn segir: „Má því með réttu segja að áður hafi verið meiri þörf fyrir skiptingu Skaftafellssýslu í tvö lögsagnarumdæmi en nú er.“ Miðar hann þar ekki síst við það að bættar samgöngur eru innan héraðsins.

Það kemur fram í báðum þessum umsögnum mjög ótvírætt, að talið er, að þjónusta við íbúa Austur-Skaftafellssýslu muni batna við þá skipun mála sem hér er gert ráð fyrir, og í Austur-Skaftafellssýslu hefur komið fram mjög eindreginn vilji fyrir því að sú skipan verði upp tekin sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Eftir að allshn. hafði rætt þessar umsagnir og frv. sjálft samþykkti hún að mæla með frv., og rituðu allir nm. undir þá samþykkt.