28.04.1976
Neðri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3342 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

232. mál, rannsókn sakamála

Ólafur B. Óskarsson:

Herra forseti. Það kann nú að virðast í nokkuð mikið ráðist af mér, sem ekki telst til löglærðra manna, að fara að ræða hér um þáltill. sem hnígur að dómsmálum, enda mun ég ekki hætta mér út í umr. sem lýtur beinlínis að lagalegri eða tæknilegri hlið þessara mála, heldur hlýt ég sem almennur borgari að lýsa stuðningi við hverja viðleitni til þess að bæta úr því ófremdarástandi sem ríkir í þessum málum.

Hæstv. dómsmrh. sagði áðan að það hefði verið réttara að þessi till. hefði komið fram áður en fjárlög fyrir síðasta ár voru gerð. En góðra gjalda verða álít ég hana nú samt, og hún ætti þá að koma til athugunar við gerð næstu fjárlaga. Frá sjónarhóli hins almenna borgara hlýtur það að vera hreint vandræðamál hversu rannsóknir, sérstaklega ýmissa fjársvikamála, dragast á langinn, og það velta því margir fyrir sér hvort sé ekki hreinlega gróðafyrirtæki fyrir þá menn, sem leiðast út í þetta, að tefja og draga rannsókn mála á langinn sem allra lengst, árum og jafnvel áratugum saman. Mér er að vísu ekki alveg kunnugt hvernig beitt er sektarákvæðum og greiðslum á þeim þegar dómur gengur að lokum og ef um sakfellingu er að ræða. En ég hef dálítinn grun um, og það verður þá leiðrétt ef það er ekki rétt, að það sé þá miðað við þær upphæðir sem voru á sínum tíma dregnar undan skatti t.d. Ef menn eru sakfelldir eftir kannske 10 ár eða meira, þá verður það í reynd ekki nema lítill hluti af raunverulegu verðmæti sem til baka er greitt. Og til viðbótar hygg ég að svo sé um sektarákvæði, að þau hafi ætíð tilhneigingu til að vera nokkuð á eftir raunverulegu verðlagi og verðgildi. Þannig er ég hræddur um að menn geti raunverulega, ef þeir komast vel upp á lag með það, stundað þetta sem atvinnuveg heldur áhættulítið. Og síðan, þegar þeir komast upp á að spila á kerfið, þá liggur við, að þarna sé um lögverndaða atvinnugrein að ræða, kannske þá einu sem engin hætta er á að verði gert verkfall í.

Sama er að segja um ýmsa hina svokölluðu síbrotamenn. Þetta eru sömu mennirnir æ ofan í æ. Þegar við lesum frásagnir blaða af innbrotum og ofbeldisverkum, þá er þess gjarnan getið að þarna sé um gamla kunningja lögreglunnar að ræða, eins og það er gjarnan orðað. Þetta er einfaldlega fyrir það að þessir menn eru ekki teknir úr umferð. Þeir stela verðmætum og eyðileggja fyrir enn þá meira, og fólk er í raun og veru algerlega varnarlaust fyrir þessu, því að ekkert er af þessum mönnum að hafa til að bæta það tjón sem þeir valda. Og þó að þeir séu eitthvað dæmdir, þá er framkvæmd dóma nokkuð ábótavant. Þeir eru dæmdir fyrst skilorðsbundið, svo er þeim sleppt út eftir hluta af refsingu og annað eftir því og byrja jafnharðan aftur. Með þessu móti liggur við að manni finnist að lögreglan sé í hlutverki einhvers konar kjararannsóknarnefndar, en ekki til að framfylgja réttvísi.

Hæstv. dómsmrh. nefndi það hér áðan, að áfengisneysla og fíkniefnaneysla ætti þátt í mörgum og kannske meiri hluta afbrota, og ég efast ekki um að þetta sé rétt. Hins vegar er það í sjálfu sér engin afsökun, þó að það sé nú kannske í hugum fólks, að það sé svolítið umburðarlyndara ef sannast að hann hafi verið fullur, greyið, sem þetta og þetta gerði. En þá hljóta menn samt sem áður að standa ábyrgir gerða sinna, hvort sem þeir eru undir áhrifum áfengis, lyfja eða hvers annars.

Þetta eru atriði sem vægast sagt líta ekki vel út frá sjónarhóli hins almenna borgara. Og menn spyrja, þegar hópur manna getur stundað þetta tiltölulega áhættulítið ár eftir ár: ja, til hvers eru þá lögin? — Ég álít, að ef þetta gengur svo til, þá sé verulega vegið að okkar lýðræðisskipulagi. Það er réttilega tekið fram í lögum að enginn megi taka lögin í sínar hendur, t.d. gagnvart afbrotamönnum, og það er sjálfsagt og eðlilegt. En fólk á að sjálfsögðu kröfu á því að þjóðfélagið verndi hinn almenna borgara fyrir þessum mönnum, Það verður hreinlega að sjá um það að fólki sé bætt eða þoli ekki bótalaust það tjón sem það verður fyrir: fjárhagstjón, líkamsmeiðsl og örkuml jafnvel auk annars verra, og þegar þessar takmarkanir eru settar sem sjálfsagðar eru, þá verður þjóðfélagið að veita borgurum alla eðlilega vernd.

Ég geri mér það fyllilega ljóst að það er vandasamt verk að ráða bót á þessum málum. Þar er engin auðveld lausn til. En þar verður að leita samt sem áður allra tiltækra ráða og ekki spara til þess fé né fyrirhöfn.

Ég vil beina því til hv. alþm., sem hafa það hlutverk að setja lög í okkar þjóðfélagi, að það er gagnslaust að setja lög ef þeim er ekki framfylgt. Það skyldu menn hafa í huga, að það er tiltölulega auðvelt að semja og samþykkja lög, en það getur stundum verið verra að framfylgja þeim, og ef þeim er ekki framfylgt, þá eru þau gagnslaus og jafnvel verra en gagnslaus.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt um þetta, en ég skora á hv. alþm. að taka þessi mál föstum tökum og leita allra þeirra úrbóta sem hugsanlegar eru.