06.11.1975
Neðri deild: 14. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

12. mál, orkulög

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Það stendur nú þannig á um mig að ég á sæti í iðnn. sem fær þetta frv. án efa til meðferðar, og þá geri ég ráð fyrir að við fjöllum um það eins og við höfum raunar gert áður. Þar að auki hef ég áður gert nokkuð rækilega grein fyrir afstöðu minni til þessa. frv. Ég gerði það á síðasta þingi eða í vor þegar þetta mál var þá til umr., og ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr, mjög mikið með því að fara inn á öll þau atriði sem ástæða væri þó til að víkja að, því að vissulega er það sitt hvað sem kemur upp í hugann þegar þetta frv. kemur hér til umr. í fjórða sinn.

En það, sem ég vil alveg sérstaklega benda á, eins og ég hef áður gert, er að það er sýnilegt að þetta frv. er að því leyti gallað að í því felast þjóðnýtingaráform sem kunna að stríða gegn 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég fellst á það með hv. flm. að það er mikil nauðsyn á því að tryggja að jarðhiti verði nýttur í almannaþágu og að ekki verði braskað með jarðhitarétt. Hins vegar vil ég benda á að við þurfum hér á hv. Alþ. að reyna að velja okkur einhverja skárri leið en gert er ráð fyrir í þessu frv. Og við höfum aðrar leiðir í því sambandi.

Ég held að það sé útilokað að skilja þetta frv. öðruvísi en svo að það sé verið að svipta einstaklinga eða einkaaðila eignaryfirráðum án þess að fébætur komi til. Og það þarf enginn að segja mér að það geri a. m. k. ekki að höggva nærri 67. gr. stjórnarskrárinnar, ef það gengur ekki þvert á hana, en 67, gr. stjórnarskrárinnar fjallar um friðhelgi eignarréttarins.

Ég er ekki viss um að hv. þdm. hafi veitt þessu máli sérstaka athygli þó að þetta mál hafi lengi verið á döfinni. Ég er ekki viss um það. Ég held að þetta mál hafi í rauninni aldrei verið rætt eins og vert er og reynt að leita að öðrum lausnum á því vandamáli, sem við er að etja, heldur en með þeim hætti sem hér er gert. Og ef ég á eitthvert erindi upp í ræðustól nú hér á hv. Alþ., þá er það e. t. v. fyrst og fremst að benda hv. þdm. á að kynna sér betur þetta mál, kynna sér betur hvað á bak við það liggur og hvort er sú þörf fyrir þetta sem virðist eftir þeim málflutningi sem fram kemur hjá hv. flm. frv.

En eins og ég segi, þá er ég flm. frv. sammála um að það verður að tryggja að jarðhitinn, sem er einhver mesta orkulind landsins, verði nýttur í þágu almannahagsmuna. Um það geta engar deilur orðið. Það er líka nauðsynlegt að koma í veg fyrir sýnilegt brask með jarðhitarétt. En ég tel hins vegar nauðsynlegt að menn hyggi betur að leiðum í þessu efni, velji ekki þá leið sem síst er fær fyrir okkur hér á Alþingi íslendinga, að taka upp fébótalausa þjóðnýtingu eignarréttar.

Við höfum ýmsar leiðir að mínum dómi og einkum tvær til þess að koma í veg fyrir að slík réttindi sem þessi lendi í braski eða annarri óeðlilegri kaupsýslu. Það er möguleiki á því að beita venjulegum eignarnámsheimildum. Það er viðurkennd aðferð í málum sem þessum. Ég held líka að það sé vel hugsanlegt að Alþ. setji sérstakar reglur, sérstakar matsreglur um verð á jarðhitaréttindum og með því móti sé möguleiki á því að hafa hemil á söluverði jarðhitaréttindanna. Hvað mig snertir finnst mér vera ólíkt æskilegra að leita lausnar á þennan hátt heldur en á þann hátt sem gert er ráð fyrir í 1. gr. þessa frv. sem hér er til umr. En sem sagt ég skal ekki eyða tímanum of lengi í að ræða þetta mál.

Ég held að ég hafi nokkurn veginn komið inn á það sem mér er efst í huga hér við 1. umr. málsins, ég mun síðan taka þátt í afgreiðslu málsins í iðnn., og ég vil einnig enn á ný endurtaka áskorun mína til hv. þdm. að skoða þetta mál betur en ég veit að margir hafa gert til þessa. Ég hygg að þeir muni þá komast að raun um að á þessu frv. eru ýmsir lagalegir og pólitískir agnúar sem nauðsynlegt er að sníða af því.