29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3346 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh.(Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 2. þm. Norðurl. e. vil ég taka eftirfarandi fram:

Gjaldeyrisyfirvöld samþykktu heimild fyrir Samband Ísl. samvinnufélaga til þess að kaupa 1% hlutafé í Nord- Chocolate, eða í súkkulaðiverksmiðju samvinnusambandanna á Norðurlöndum. Þessi samþykkt var gerð á grunvelli bréfs Sambandsins dags. 3. mars 1976. Engin gjaldeyrisyfirfærsla átti sér stað í sambandi við þessi viðskipti. Því heimilað var að andvirði bréfanna mætti greiðast af innstæðu Sambandsins hjá Nordisk Andelexport og Nordisk Andelsforbund. Í bréfi Sambandsins frá 3. mars til gjaldeyrisdeilda bankanna er gerð eftirfarandi grein fyrir þessum viðskiptum, og vil ég leyfa mér að lesa það upp með leyfi hæstv. forseta, en bréfið er dags. 3. mars 1976 og er svo hljóðandi:

Síðan 1948 hefur Sambandið tekið þátt í samstarfi innan NAF — Samvinnusambands Norðurlanda — og síðar í NAE — Útflutningssamvinnusambandi Norðurlanda — eftir að það var stofnað árið 1954. Innan þessara félagssamtaka eru samvinnusamböndin á öllum Norðurlöndum. Á síðari árum hefur innan NAF — Nordisk Andels Forbund — verið mikið rætt um samnorrænan iðnað á vegum samvinnufélaganna. Nokkur samnorræn iðnfyrirtæki eru nú starfandi á Norðurlöndum. Samband ísl. samvinnufélaga er aðili að tveimur slíkum fyrirtækjum: Nordspray, sem hefur bækistöðvar í Finnlandi og framleiðir úðavörur, og Nordkronen, sem hefur bækistöðvar í Noregi, en fyrirtæki þetta framleiðir sápuvörur.

Af hálfu Sambands Ísl. samvinnufélaga hefur verið lögð áhersla á að það gæti verið með í þessu samstarfi, og er þá haft í huga að einhvern tíma komi röðin að Íslandi að hér verði settur á stofn samnorrænn iðnaður á vegum samvinnusambandanna. Sambandinu stóð til boða á s.l. sumri að eignast 1 % hlutafé Nord-Chocolate, sem er eign samvinnusambandanna á hinum Norðurlöndunum. Stjórn Sambandsins samþ. að taka þessu tilboði. Er um að ræða kaup á 27 hlutabréfum fyrir fjárhæð að upphæð sænskar kr. 40 500 eða að viðbættu stimpilgjaldi sænskar kr. samt. 40 560.75.

Vér viljum hér með fara þess á leit við gjaldeyrisdeild bankanna, að oss verði veitt leyfi til kaupa á þessum hlutabréfum og að andvirði bréfanna megi greiðast af innistæðu vorri hjá Nordisk Andelsexport, sænskar kr. 24 685, og mismunurinn, sænskar kr. 15 875.75, af innistæðu vorri hjá Nordisk Andels Forbund.“

Þetta leyfi var, eins og ég sagði áðan, veitt af gjaldeyrisyfirvöldum.

Spurt var hvort hér væri um stefnubreytingu að ræða hjá ríkisstj. Þeirri spurningu verður að svara neitandi, þ.e.a.s. um stefnubreytingu varðandi fjárfestingu íslenskra aðila erlendis. Eins og kunnugt er hafa verið mjög lítil brögð að slíkum fjárfestingum, enda ekki sérstaklega eftir þeim sóst nema í örfáum tilfellum. Helstu dæmin, sem kunnugt er um við fljótlega athugun, eru fyrirtæki SH og SÍS í Bandaríkjunum, sameignarfyrirtæki SH og japansks fyrirtækis um loðnusölu til Japans. Enn fremur hefur Prjónastofa Borgarness fengið leyfi til að kaupa hlut í fyrirtæki í Skotlandi og Stáliðjan ásamt Gamla kompaníinu til að kaupa hlut í samsetningarfyrirtækinu Nord-Steel Furniture í Skotlandi.

Þar sem svo stóð á sem fram kemur í bréfi Sambandsins svo og í því, sem ég hef hér sagt, þótti eðlilegt að verða við þessari beiðni. Ég fyrir mitt leyti tel æskilegt að hér gæti í framtíðinni, eins og segir í bréfi Sambandsins. komið röðin að Íslandi, þannig að hér á landi gæti orðið sett á fót iðnfyrirtæki á vegum norrænu samvinnusambandanna. Það er að því augljóst hagræði að svo sterkur aðili standi þar á bak við, auk þess sem með því að samvinnusamböndin á Norðurlöndum standi þannig sameiginlega að fyrirtæki getur verið tryggður markaður betur en ella væri unnt að gera. Það er að sjálfsögðu svo. að það er ekki neitt sérstaklega við það bundið að það verði þessi súkkulaðiverksmiðja sem hér verður sett á fót. Hygg ég svo alls ekki vera, heldur er það hugsað til þess að áframhald gæti orðið á þessari samvinnu og Sambandið tekið þátt í þeirri iðnvæðingu eða iðnaðaruppbyggingu sem á sér stað með slíkum fyrirtækjum sem stofnuð eru á vegum samvinnusambandanna á Norðurlöndum.

En ég vil endurtaka, að það er ekki hægt að segja að þetta beri vott um neina stefnubreytingu, auk þess sem á það hefur ekki reynt, vegna þess að mér er ekki kunnugt um að það hafi verið yfirleitt uppi sérstakar óskir frá íslenskum aðilum um að fjárfesta í erlendum fyrirtækjum, a.m.k. ekki þann tíma sem ég þekki sérstaklega til.