29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3357 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

210. mál, orlof

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Mér þykir leiti að verða ítrekað að leiðrétta misskilning, svo auðvelt sem það mætti vera að skilja það sem hér er um að ræða. Hv. síðasti ræðumaður, 12. þm. Reykv., var að tala um sérstök viðskipti hans við hv. félmn. varðandi þetta mál og brtt. þær sem hann hefur borið fram. Hann sagði að hann hefði afhent mér blað til þess að gera félmn. betur skiljanlegt hvað hann ætlaði að bera fram, hvaða till. til breyt. við það frv. sem hér er til umr. Það er alveg rétt. En hann bar ekki fram till. Þær hafa ekki komið fyrir þessa deild fyrr en nú áðan, það varð að leita afbrigða til þess að væri hægt að ræða þessar till. í þessum umr., og hv. d. samþ. að veita þessi afbrigði. Svo talar hv. þm. í einhverjum ásökunartón um það, að frsm. félmn. hafi ekki sérstaklega rætt þessar till. við 2. umr., — till. sem ekki hafa legið fyrir þessari d. En það er öllum kunnugt að menn ræða ýmislegt í n., og mér fannst alveg sjálfsagt að ræða þessar till. hv. 12. þm. Reykv. í félmn. fyrst ég vissi um þær og honum var þægð í því, og ég taldi það auk þess ágætt í sjálfu sér að ræða þær, en það bar enga skyldu til þess að ræða þessar till. þar, enda voru þær ekki í skilningi þingskapa orðnar neinar till. Það var ekki búið að leggja bær hér fram. — Það er næsta raunalegt að þurfa að vera að segja svo sjálfsagða hluti sem þetta, en ég sit ekki þegjandi undir neinum ásökunum út af þessu efni.

Þá eru till. sjálfar, sem hér liggja fyrir og hv. 12. þm. Reykv. hefur lagt fram. Um þær vil ég segja það, að ég tel að það sé ekki hægt að samþ. eina einustu þeirra. Nú kann vel að vera — og ég vil taka það skýrt fram — að það megi betrumbæta ýmislegt í orlofslöggjöfinni eins og hún er nú — betrumbæta gildandi lög — það gæti vel verið. Og ég tel ekkert útilokað og meira að segja líklegt og fullvíst að það megi bæta frv. það sem hér liggur fyrir. En þetta mál er sérstaks eðlis. Orlofsmálin eru mál sem aðilar vinnumarkaðarins láta sig mjög miklu varða, Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið. Og ég veit ekki til þess að þessum lögum hafi verið hreyft á undanförnum árum nema það hafi legið fyrir samkomulag milli þessara aðila um breytingar. Nú er það svo að n. sú, sem samdi frv. sem hér liggur fyrir, var skipuð fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins, og það var ekki gert út í loftið. Það var gert til þess að það yrðu viðhöfð sömu vinnubrögð og áður, að freista þess að ná samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins. Það tókst og það samkomulag liggur frammi í þessu frv. En auk þess er þess að geta, að til viðbótar þessu samkomulagi, sem frv. felur í sér, gerðu aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusambandið og Vinnuveitendasamband Íslands, frekara samkomulag. Eitt atriði þessa viðbótarsamkomulags þarf lögfestingar við, og þess vegna bar félmn. fram brtt. við frv., við 7. gr. þessa frv., og sú brtt. var samþ. við 2. umr. Nú er frv. komið í það horf sem samkomulag er um milli aðila vinnumarkaðarins, en frá þessu samkomulagi var að lokum gengið í sambandi við kjarasamningana á s.l. vetri. Þetta var þýðingarmikill þáttur í heildarsamkomulaginu, og sumt, sem varðaði orlofsframkvæmdina, skuldbatt ríkisstj. sig með sérstökum yfirlýsingum að sjá um að framkvæmt yrði.

Með tilliti til þessa tel ég að það sé ekki rétt að hrófla neitt við þessu frv. eins og það liggur nú fyrir, því að breyting á því gæti valdið því að það væri rofið eða brotið það samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um. Ég vil taka það fram, að þegar hugmyndir þm. Alberts Guðmundssonar, 12. þm. Reykv., voru ræddar í félmn., þá voru þar til staðar fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, bæði Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambands Íslands, og það var farið yfir alla liði þessara brtt. og komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt að taka þá til greina ef ætti að virða samkomulagið milli aðila vinnumarkaðarins. Þetta vildi ég að hér kæmi fram, og ég vænti þess að þetta sé nægileg skýring á því að hv. þingdeildarnefnd samþ. ekki brtt. þær sem nú hafa komið fram við 3. umr.