06.11.1975
Neðri deild: 14. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

12. mál, orkulög

Það eru 60 ár síðan eða þar um bil, að hér urðu á Alþingi mikil átök um íslensk fallvötn og íslenska fossa. Ætli þau hafi ekki hafist á fyrri stríðsárunum og staðið nokkuð fram yfir 1920, ef ég man rétt? Ég býst við að það sé þá ekki fjarri því að það megi segja að það séu 60 ár síðan þessar umr. voru. Þá stendur í sjálfu sér nokkuð svipað á í sambandi við fallvötnin okkar eins og stendur á núna í sambandi við háhitann eða hitann sem er djúpt í iðrum jarðar. Þá voru menn að vakna til meðvitundar um að þarna væri um verðmæti að ræða, þarna væru ein af þeim verðmætum sem íslenska þjóðin ætti. Þá kom upp spurningin, hverjir hefðu eignarrétt á þessum hlutum, hverjir skyldu eiga árnar og fossana og þá sérstaklega þá orku sem í þessum fallvötnum var falin og hægt var að beisla. Þegar þessar umr. hefjast er svo komið í sambandi við þessi mál, orkumál fallvatnanna, að það er verið að selja óðfluga úr landi ýmsar helstu ár og helstu fallvötn. Þjórsá er seld og það eru ýmsir fossar seldir. Það eru erlendir aðilar sem hafa þá sérstakan áhuga á því að komast yfir þessar orkulindir og hagnýta þær e. t. v., og það var nóg af íslenskum agentum þá til þess að sjá um að koma þessum auðlindum okkar í eigu útlendinga. En þá er það sem Alþ. fer að fjalla af alvöru um þetta mál og sér, að við svo búið má ekki standa. Alþ. kemst að þeirri niðurstöðu að það sé óeðlilegt að einstaklingar geti braskað með þessa orku. Til glöggvunar fyrir hv. 5. þm. Reykn. skal ég nefna að það voru engir kommúnistar eða sósíaldemókratar eða aðrir þjóðnýtingarmenn sem voru á ferðinni og sáu að þarna var mikil hætta á ferðum. Það voru menn eins og Jón Þorláksson, — ég veit ekki hvort hann var þá orðinn, en var þó a. m. k. síðar formaður Íhaldsflokksins og einn helsti stofnandi Sjálfstfl. (Gripið fram í:

Góður maður, Jón.) Það hygg ég að hann hafi verið, og kemur það m. a. fram í afstöðu hans í fossamálinu. Það var einstaklingshyggjumaðurinn Bjarni frá Vogi og það var einstaklingshyggjumaðurinn Guðmundur Björnsson landlæknir. Það voru þessir menn sem mynduðu meiri hl. í fossamálinu og kváðu í kútinn þau afturhaldssjónarmið sem þá gætti mjög og voru ákaflega áþekk þeim sjónarmiðum sem hv. 5. þm. Reykn. var að viðra hér áðan.

Það, sem hér er um að ræða, er að sjálfsögðu það, hvort þessi auðlind djúpt í iðrum jarðar, kannske hundruð metra niðri í jörðinni, á að vera handa þeim einstaklingum, sem af einhverri tilviljun eiga landið yfir þessum jarðhita, — hvort hún á að vera þessum aðilum gróðalind, hvort þeir eigi að fá að braska með hana eða ekki. Þetta er náttúrlega stóra spurningin og við þeirri spurningu þarf að fást svar og það heldur fyrr en síðar. Eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Benedikt Gröndal sagði réttilega, er hitaveitumál Suðurnesja ekki nema lítill angi af þessu stóra máli, þ. e. a. s. hver eigi að hafa yfirráð yfir háhitaorkunni, orkunni sem verður að bora til langt niður í jörðina. En af því að hv. 5. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson, gerði nokkuð að umtalsefni það sem ég sagði um það mál, þá get ég ekki látið hjá líða að svara honum um það nokkrum orðum.

Hv. þm. var að spyrja hvort við teldum eðlilegt að menn yrðu sviptir eignum sínum bótalaust. Þrátt fyrir það sem ég sagði í sambandi við það sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að eðlilegar bætur fyrir það land, sem tekið yrði þarna til hagnýtingar, kæmu að sjálfsögðu til. þá talar hann um að það elgi að svipta menn eignum sínum bótalaust. Það er þá hitinn djúpt niðri í jörðinni sem hann er þarna að tala um. Hann orðaði það meira að segja eitthvað í þessa átt — ég held að ég hafi náð því orðrétt, að hann sagði, að þennan hita í iðrum jarðar mundu einstaklingarnir hagnýta sér ef þeir fengju að vera í friði fyrir ríkinu með sín réttindi, — ég held að þetta sé nokkurn veginn orðrétt eftir honum haft, — þá væri enginn vandi fyrir einstaklingana að hagnýta sér þessi miklu auðæfi sem þeir ættu í vissum tilvikum þarna fólgin niðri fjarðdjúpunum.

Ég get ekki haft önnur orð um þetta og fleiri ummæli og viðhorf hv. þm. heldur en það að hann — mér nokkuð að óvörum — talaði hér eins og fulltrúi brasksins, fulltrúi einkahagsmunanna gegn almannahag, og það var ekki öðru líkara en hann væri að tala eins og talsmaður jarðhitafurstanna í Svartsengi fremur en stjórnarmaður í stjórn Hitaveitu Suðurnesja, en það hygg ég að hann hafi verið frá upphafi og sé í dag.

Mér finnst furðulegt hjá honum að bera það á borð að enn þá hafi engar tafir orðið í sambandi við fyrirhugaðar framkvæmdir vegna þeirrar deilu sem upp hefur komið í sambandi við landið. Það er að vísu lengi hægt að halda áfram að dútla við undirbúning og menn hafa trúlega hægt á þeim undirbúningi sem þarna var á ferðinni þegar það lá ekki fyrir hvort hægt yrði að ráðast í teljandi framkvæmdir vegna þessa óleysta vandamáls, þá hefur verið hægt á ferðinni. En ég vil aðeins spyrja: Var það algerlega út í bláinn, sem undirbúningsnefndin setti inn í grg. með frv. sem við vorum að samþykkja hér um 20. des. í fyrra, þar sem segir að það væri gert ráð fyrir því að hægt yrði að framkvæma fyrsta áfanga, mjög verulegan áfanga, þ. e. a, s. veituna til Grindavíkur, að verulegu leyti á þessu ári? Var það fleipur eitt? Hvað veldur því, ef það er ekki þetta mál, að ekki hefur verið sýndur lítur á því að framkvæma þessa hluti enn í dag? Þær framkvæmdir sem hv. þm. talaði um, ég held að það varla sé hægt að nefna þær miðað við það sem ógert er. Og ég vil spyrja hann: Getur hann neitað því að hver mánuður sem líður án þess að hægt sé að standa sómasamlega að framkvæmdum þarna suður frá, hver mánuður sem líður er kjósendum hans og kjósendum okkar allra þarna suður frá býsna dýr miðað við það olíuverð, sem nú er, og miðað við þær verðhækkanir, sem óhjákvæmilega verða á þessari framkvæmd? Ég held að þessi hv. þm. hefði átt að hugsa sig svolítið betur um áður en hann tók upp í sig sum stóru orðin í sambandi við það sem hann sagði um þetta frv., áður en hann fór að gerast slíkur talsmaður afturhaldsins og braskhugsunarháttarins sem hann gerði í ræðu sinni áðan.

Hv. þm. sagði að það væri fleipur hjá mér, að landeigendur hefðu krafist um 800 millj. kr. fyrir þessi svokölluðu réttindi sín þarna niðri í jarðdjúpinu. Ég sagði það, held ég, alveg skýrt að ég hefði þessa tölu úr blaðinu Suðurnesjatíðindum og ég hefði ekki orðið þess var að því hefði verið sérstaklega mótmælt, en ég tæki hinsvegar enga ábyrgð á því að þessi tala væri rétt. Hv. þm. taldi, að hér munaði miklu, og nefndi í sambandi við kröfur landeigenda töluna 240 millj., sem hann telur að hafi falist í þeirra tilboði. Þetta skakkar að vísu mjög miklu, ég skal játa það. Hins vegar hygg ég að það kunni að vera dálítið til í því að erfitt hafi verið og stjórn Hitaveitunnar hafi reynst dálítið erfitt að reikna út nákvæmlega í millj. kr. hvað fælist í þessu tilboði landeigenda, það hafi verið þess eðlis, og m. a. hafi ekki verið um það að ræða að selja þessi ímynduðu eða svokölluðu réttindi í eitt skipti fyrir öll, heldur hafi verið um það að ræða að selja til þessarar hitaveitu, eins og hún er hugsuð í dag, en öll viðbót við hana og öll frekari nýting á þessari orku þarna niðri í jarðdjúpunum ætti síðan að koma til sölu síðar, þegar einhver vildi hagnýta þá orku. Mér þætti gott, ef hv. þm. talaði aftur, að hann vildi upplýsa hvort þetta er ekki rétt og hvort það sé ekki dálítið erfitt að segja til um það hvort það eru nákvæmlega 240 millj. eða eitthvað meira, sem falist hefur í þessu tilboði landeigenda. En 240 millj. eru náttúrlega peningur út af fyrir sig. Mér sýnist í fljótu bragði að það séu þá milli 20 og 25 þús. á hvern íbúa sem þarna er um að ræða.

Hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, lýsti viðhorfum sínum til þessa frv. með mjög svipuðum hætti og hann gerði í allítarlegri ræðu hér í fyrra. Mér þykir mjög miður hversu hann er gagnrýninn á þetta frv. og meginstefnu þess. Hann talaði hins vegar mjög hófsamlega um málið og lýsti fullum skilningi sínum á því að það þyrfti með einum eða öðrum hætti að koma í veg fyrir að óeðlilega væri braskað með slík auðæfi eins og þessi sem um er að ræða á háhitasvæðunum. Vænti ég þess að hann sýni það í verki með því þá að vinna að því að þetta frv., ef ekki í óbreyttri mynd, þá í einhverri breyttri mynd nái fram að ganga og nái þeim megintilgangi sem vitanlega felst í því að það er flutt, þ. e. a. s. að koma í veg fyrir óeðlilegt einkabrask með auðæfi sem ég held að öllum nokkurn veginn sannsýnum mönnum sýnist að eigi að vera þjóðinni í heild eða sem flestum einstaklingum hennar til nytja, en ekki einhverjum fáeinum mönnum.

Það hefur áður verið að því vikið, bæði fyrr í umr. um þetta mál og einnig nú að nokkru af hv. þm. Benedikt Gröndal, að þetta er í sjálfu sér eldra mál, breytingar á orkulögum í þessa átt. Það er miklu eldra mál en þetta þriggja ára gamla frv. sem er nú flutt hér einu sinni enn. Ég skal ekki fara langt út í það, en vil aðeins minna hv. 1. þm. Norðurl. e. á það að ekki ómerkari menn en Hermann Jónasson, fyrrv. forsrh. og um mjög langt skeið þm. Framsfl., og Ólafur Jóhannesson, hæstv. dómsmrh. og núv. formaður Framsfl., stóðu á sínum tíma að eða beittu sér í rauninni fyrir flutningi frv. um þessi efni, þ. e. a. s. Hermann Jónasson beitti sér fyrir því að slíkt frv. væri samið og hann fékk Ólaf Jóhannesson sem sérstaklega lærðan lögfræðing í þessum efnum til þess að undirbúa málið. Ólafur Jóhannesson, hæstv. núv. dómsmrh., samdi þá mjög greinargott rit um þessi mál sem ég vil nú beina til hv. 1. þm. Norðurl. e. að kynna sér, en þar tekur hæstv. viðskrh. það fram, í þessu riti eða þessari ítarlegu ritgerð sem fylgdi frv. sem ég áður nefndi, að hann teldi að sú takmörkun á eignarrétti, sem fælist á því frv., bryti ekki í bága við ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar. Niðurstaða hans var sem sagt sú, að það væri heimilt að setja eignarrétti landeigenda að jarðhita slík almenn takmörk án þess að það bryti í bága við eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar. Hygg ég að við samanburð megi með fullum rétti segja að þetta frv., sem undirbúið var af Hermanni Jónassyni og lagt var fyrir þing árið 1956, hafi gengið lengra en frv. sem hér er til umr., það hafi ekki verið með þó þeim takmörkunum sem eru í þessu frv. landeigendunum eða eigendum til að mynda lághitasvæðanna í vil.

Ég trúi því ekki fyrr en ég má til að hv. framsóknarmenn hafi skipt um skoðun í þessu máli síðan þetta frv., nákvæmlega þetta frv. selta hér er til umr., var lagt fram sem stjfrv. fyrir þremur árum. Ég tel að það sé ekkert, sem fram hefur komið síðan það var flutt þá. sem styðji það að þeir skipti um skoðun í málinu, en eitt og annað hafi komið fram sem hefði átt að opna augu manna fyrir því að ákvæði í lögum af því tagi, sem frv. gerir ráð fyrir, eru ekki aðeins eðlileg, heldur eru þau orðin blátt áfram nauðsynleg.

Ég skal svo ekki, hæstv. forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð nema alveg sérstakt tilefni gefist til, en vil aðeins að síðustu beina þeim orðum til samþm. míns, hv. 5. þm. Reykn., að næsta ræða hans í þessu máli verði eitthvað nær nútímanum en þessi ræða sem var frá því eitthvað fyrir 1914.