29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. það sem hér er til umr., og mælir n. með samþykkt frv. með brtt. sem hún ber fram á þskj. 552. N. hefur einnig haft til athugunar brtt. frá Oddi Ólafssyni á þskj. 479 og mælir með samþykkt þeirrar brtt. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Steingrímur Hermannsson og Eggert G. Þorsteinsson.

Frv. það, sem hér er til umr., felur í sér tvenns konar breytingar. Er um að ræða breytingu sem fram kemur í 1. gr. frv. Allt frá því að lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins voru endurskoðuð með lögum nr. 30 frá 1970 hefur verið heimiluð lánveiting húsnæðismálastjórnar til kaupa á eldri íbúðum, en það hefur verið bundið í lögum hversu hárri heildarfjárhæð væri heimilt að verja í þessu skyni á ári. Fyrst var hér um að ræða 50 millj. kr., síðan var það hækkað upp í 80 millj. kr. Nú er gerð till. um að breyta þessu fyrirkomulagi, ekki að binda þessa heimild við ákveðna upphæð, heldur að veita húsnæðismálastjórn, eins og segir í 1. gr. frv., heimild til þess að veita lán til kaupa á eldri íbúðum og til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja. Er gert ráð fyrir að húsnæðismálastjórn geri árlega till. til ráðh. um þá heildarfjárhæð sem heimilt er að veita á ári hverju í þessu skyni. Í þessu felst breytingin sem á verður samkvæmt frv. um þetta atriði.

Í 2. gr. frv. er svo um að ræða breytingu sem varðar byggingu leiguíbúða sveitarfélaga. Frá því að lögin voru sett um þessar byggingarframkvæmdir hafa þeim verið settar takmarkanir á tvennan hátt: annars vegar að þessar framkvæmdir skyldu vera á vegum sveitarfélaga einna og hins vegar að íbúðirnar skyldu vera leiguíbúðir. Nú er gert ráð fyrir því að á verði breyting hvað hið síðara atriði snertir, að hér verði ekki einungis um leiguíbúðir, heldur einnig um söluíbúðir að ræða. Þetta er í samræmi við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga sem hefur samþ. að fara þess á leit við félmrh. að hann hlutaðist til um að þessi breyting yrði gerð á þessari löggjöf. Og þessi málaleitan er til komin að beiðni fjölmargra sveitarfélaga í þéttbýli þar sem verið er að byggja slíkar íbúðir sem hér um ræðir. Hlutaðeigandi sveitastjórnir telja, að ef ekki verði af þessum breytingum, þá verði stefnt í hreinar ógöngur, það sé eðlilegt að taka upp hliðstætt fyrirkomulag og var með byggingu Breiðholtsíbúðanna, þar sem var um söluíbúðir að ræða, þó þannig að í þessu tilfelli geti hvort tveggja verið og sveitarstjórnirnar hafi frjálst val í þessu efni milli leiguíbúða og söluíbúða.

Það eru þessar breytingar sem hv. félmn. mælir með að verði samþ. En auk þessa gerir félmn. brtt, á þskj. 552 um að það komi ný grein sem fjalli um breytingarvá 2. málsgr. B-liðar 8. gr. laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins frá 1970. Það stendur nú í gildandi lögum að á næstu 5 árum sé heimilt að veita sveitarfélögum lán út á allt að 1000 leiguíbúðir. Í stað þessara orða er lagt til að komi: „Á næstu 5 árum skal veita slík lán út á eigi færri en 150 íbúðir hvert ár eða samtals 750 íbúðir, enda sé eftirspurn eftir lánum þessum af hálfu sveitarfélaga.“

Þessar byggingarframkvæmdir eiga sér nokkra forsögu. Það var 1973 sem Alþ. samþ. heimild til þess að veita lán til leiguíbúða sveitarfélaga, lán með sérstökum kjörum, betri kjörum en hin almennu lán húsnæðismálakerfisins, bæði til lengri tíma og hærri upphæð, allt að 80% af byggingarkostnaði, Jafnframt þessu var svo ákvæði um að það væri heimilt á næstu 5 árum að byggja 1000 íbúðir með þess konar lánum sem hér um ræðir. Þegar þetta ákvæði var sett inn í lögin upphaflega reiknuðu menn með því að það mundu verða byggðar 1000 íbúðir á næstu 5 árum. En á þessu hefur orðið breyting. Það hefur ekki farið eftir því sem gert var ráð fyrir, þannig að þó að lög þessi hafi verið sett 1973 og þessum byggingarframkvæmdum hefði þá átt að vera lokið 1978 eða 1979, þá er augljóst að með sama áframhaldi og var fyrstu árin tekur þetta miklu lengri tíma en 5 ár að ljúka þessum framkvæmdum. En það verður að játast, að nú í ár og síðasta ár hefur komið heldur meiri skriður á þessi efni og nú standa málin þannig að það eru um 280 íbúðir sem hefur verið hafist handa við. Þetta þýðir, að það eru 700–800 íbúðir sem eftir eru.

Nú hefur félmn. þótt eðlilegt að það yrði ákveðið að það yrði lokið þessu upphaflega 5 ára verkefni sem var sett 1973, þ.e. að því verði lokið á næstu 5 árum. Til þess að svo geti orðið þarf að byggja um 150 íbúðir á hverju ári. Félmn. telur að það þurfi að tryggja að það fáist lán til þessara íbúða svo að þessar framkvæmdir geti haldið áfram með þessum hraða og að þeim verði lokið innan 5 ára eða á næstu 5 árum. Ég geri ráð fyrir að þessu marki sé stillt mjög í hóf, og mér virðist að á þeim umsvifum, sem hafa verið undanfarna mánuði í þessum efnum, að þá sé um að ræða álíka hraða og mætti ætla að yrði á framkvæmdum þessum, eins og nú horfir. Þó teljum við að það sé réttara að fastbinda þetta og allur er varinn góður í þessu efni.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir áliti félmn. og brtt. þeirri sem n. leggur fram.