10.11.1975
Efri deild: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

43. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 23. júní 1936. Það var samið af réttarfarsnefnd, en dóms- og kirkjumrn. óskaði þess haustið 1973 að hún tæki til athugunar tillögur er fram höfðu komið frá borgardómaraembættinu í Reykjavik um að lögfest yrði heimild til þess að beita hljóðritun á dómþingum í einkamálum. Slík heimild hefur verið um árabil í lögum um meðferð opinberra mála og reyndar allt frá því að þau lög voru fyrst sett 1951. Sú heimild mun þó fremur lítið hafa verið notuð. Hins vegar er það svo að nokkur síðustu ár mun slíkum hljóðritunum hafa verið beitt við borgardómaraembættið í Reykjavík í tilraunaskyni án þess að bein heimild hafi verið til þess í lagaákvæðum.

Við umr. á síðustu árum um leyfi til þess að flýta meðferð mála fyrir dómstólum og þá ekki hvað síst meðferð einkamála hefur komið fram að ýmsir dómarar í einkamálum hafa talið verulegan flýtisauka að því að beita hljóðritunartækni við meðferð þeirra mála. Það er augljóst að nauðsynlegt er að um það efni séu þá skýrar heimildir og ákvæði um að setja megi hæfilegar reglur um skipulagða framkvæmd hljóðritunar og vörslu á hljóðritunargögnum. Ákvæði þau, sem réttarfarsnefnd leggur til að lögfest verði, fela í sér heimild fyrir dómsmrh. til að ákveða að upp verði tekin slík hljóðritun við héraðsdómaraembætti.

Þess má geta að í lögum um meðferð opinberra mála er almennt ákvæði um að sá kafli laganna um meðferð einkamála í héraði, sem lagt er til í þessu frv. að breytt verði, gildi einnig um meðferð opinberra mála. Geta því reglur, sem settar eru samkvæmt þessu lagafrv., einnig komið að notum við meðferð opinberra mála eftir því sem við á um framkvæmd og vörslu hljóðritana.

Nánari grein er gerð fyrir efni frv. í athugasemdum og leyfi ég mér að vísa til þess.

Þetta frv. er ekki óþekkt í þessari hv. deild. Það var lagt fyrir hana í fyrra og hún afgreidd það þá með jákvæðum hætti, en það mun hafa orðið það seint á ferðinni að ekki náðist afgreiðsla á því frá hv. Alþ. Ég hygg að það hafi ekki verið í þessari hv. deild í fyrra um neinar umtalsverðar breytingar á frv. að tefla frá því sem það var þá lagt fram. Ég hygg að hv. allshn. þessarar deildar hafi þá kynnt sér málið, m. a. með viðræðum við þá aðila, sem hafa reynt þessi atriði hér við borgardómaraembættið, eða fengið umsagnir um það. Ég leyfi mér þess vegna að vænta þess, herra forseti, að þetta litla frv. geti nú siglt hraðbyr gegnum þessa hv. deild og að það þurfi ekki að koma til þess að það dagi aftur uppi á hv. Alþ. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn., en það var sú þn. sem um málið fjallaði á síðasta þingi.