29.04.1976
Neðri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3375 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Enda þótt ég eigi sæti í þeirri n. sem kemur til með að fá þetta mál til meðferðar, þá finnst mér þó rétt að fara örfáum orðum um það hér strax við 1. umr,

Það er rétt, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að hér er fyrst og fremst um að ræða skipulagsbreytingar og hagræðingar á Fiskveiðasjóði Íslands sem flestar eða allar horfa til bóta, og þar fyrir tel ég að það ætti að vera unnt, sem hæstv. ráðh. mæltist til, að n., sem þetta mál fær, geti lokið meðferð þessa máls bæði fljótt og vel og skal a.m.k. ekki standa á mér að hjálpa til þess að unnt verði að afgreiða þetta mál á þessu þingi.

Ég vil einnig, eins og hv. síðasti ræðumaður, lýsa sérstakri ánægju minni með það, sem mér virtist raunar á máli hæstv. ráðh. að væri frá honum og hans rn. komið, að í hópi þeirra hagsmunaaðila, sem fá aðild að stjórn Fiskveiðasjóðs, skuli vera fulltrúi frá sjómönnum. Þetta er mjög æskilegt og þarft, ekki síst þar sem sjómenn sjálfir leggja bæði beint og óbeint til í formi útflutningsgjaldsins stóran hluta af tekjum þessa sjóðs. Þess vegna er bæði eðlilegt og sjálfsagt að fulltrúar sjómanna ekki siður en annarra hagsmunaaðila fái aðild að ákvörðunum um hvernig þessu fé er ráðstafað. Vil ég sérstaklega fagna því að þetta skuli vera þarna fram komið, þó að mér finnist að vísu að athuga mætti hvort ekki væri rétt að sjómenn, yfirmenn og undirmenn, ættu í 7 manna stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands fleiri fulltrúa en einn. En einn fulltrúi er vissulega betri en enginn.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, sem fram kemur í 7. gr. þessa frv. og er nýmæli eins og hæstv. ráðh. gat um, en það er að stjórn sjóðsins er falið samkv. ákvæðum 7. gr. að gera áætlun um lántökur og aðra fjáröflun til sjóðsins til eins árs í senn. Það er e.t.v. harla lærdómsríkt og umhugsunarvert fyrir okkur íslendinga að það skuli vera fyrst nú sem jafnmikilvægur sjóður og Fiskveiðasjóður Íslands, sem á að þjóna undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, það skuli vera fyrst nú sem honum er fyrirskipað í lögum að starfa samkv. fyrir fram gerðum áætlunum. En reynslan, sem við höfum að baki, einkum og sér í lagi frá árum síðustu ríkisstj., sýnir það og sannar að slíkrar áætlunargerðar er heldur betur þörf, því að ég veit ekki nokkur dæmi um það úr allri Íslandssögunni að annað eins fyrirhyggjuleysi og annað eins stjórnleysi í sambandi við þessi mál hafi ráðið ríkjum eins og þá. Það er e.t.v. að hafa endaskipti á staðreyndum íslenskrar pólitíkur að það skuli gerast að þannig hafi verið búið af stjórn sem nefndi sig skipulags- og áætlunarhyggjustjórn, en svo skuli það vera hæstv. núv. sjútvrh., maður úr Sjálfstfl., sem ákveður að snúa þessu dæmi við og taka upp skynsamleg og skynræn vinnubrögð í áætlunargerðum í þessu tilviki. Þetta e.t.v. lýsir því hve öfugsnúin íslensk pólitík getur á stundum verið.

Þá vil ég einnig taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði áðan, að það er mjög ánægjulegt, það nýmæli að nú skuli eiga að taka upp lánveitingar úr Fiskveiðasjóði til kaupa á eldri skipum. En það hefur verið vani eða plagsiður í sambandi við lánveitingar opinberra sjóða hér á Íslandi, að þær virðast hafa ýtt undir það að menn nýttu ekki þau verðmæti sem í landinu eru fyrir. Fiskveiðasjóður Íslands er síður en svo eini sjóðurinn sem þarna á hlut að máli. Byggingarsjóður ríkisins kemur þarna líka til, sem til skamms tíma og jafnvel enn lánar fyrst og fremst til nýbygginga og síður til kaupa á eldri íbúðum. Þessi afstaða hvetur menn að sjálfsögðu til þess að ráðast frekar í að byggja nýtt heldur en nýta það sem fyrir er. Það getur verið gott að vissu leyti að ýta undir slíkt, en af öllu má þó ofgera, og ég held að það sé kominn tími til að snúa svolítið við á þessari braut og fara að reyna að nýta það sem nýtanlegt er af verðmætum sem fyrir eru í landinu. Að því leyti til tel ég þessa stefnu, eins og hún kemur fram í þessu frv., vera rétta.

En sem sagt, ég skorast ekki undan þeirri áskorun hæstv. ráðh., að ég fyrir mitt leyti mun ekki standa gegn því að verði hægt að afgreiða þetta frv. á þessu þingi.

Hitt er svo annað mál, að aðalvandi Fiskveiðasjóðs lýtur ekki kannske endilega að skipulagningu og hvernig stjórn þessa sjóðs er fyrir komið eða hver lánakjörin eru, heldur fyrst og fremst er meginvandi sjóðsins mjög alvarlegur fjárskortur, — fjárskortur sem gerir honum ekki kleift að sinna verkefnum sínum til hlítar. Og lausn á þeim vanda, sem er meginvandi sjóðsins að sjálfsögðu, er ekki að finna í þessu frv.