30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3390 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

Varamaður tekur þingsæti

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Er ég vissi um að þessi fyrirspurn kæmi hér fram sá ég ástæðu til að kveðja mér hljóðs einmitt vegna þeirra samninga, sem gerðir voru 1. mars í vetur af verkalýðshreyfingunni, og þeirra atburða sem síðan hafa gerst í verðlagsmálunum.

Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að sú verðlagsþróun, sem orðið hefur frá því að samningarnir voru gerðir, er með býsna mikið öðrum hætti en gert var ráð fyrir þegar samningarnir voru gerðir eða áður en þeir voru gerðir. Ég ætla ekki að fara að rekja þessi samningamál neitt sérstaklega. Það vissu allir að þeir voru núna gerðir vegna þess að mjög mikil skerðing hafði orðið á kjörum fólks og kaupmáttur var orðinn verulega miklu lægri en í rauninni hafði orðið við samningana frá 1974.

Það má segja að þegar samningum lauk, hafi markmið þeirra verið að halda þeim meðalkaupmætti sem var á árinu 1975. Lengra var nú ekki sótt. Þetta markmið má einnig segja að hafi verið í fullu samræmi við það sem fram kom í stefnuræðu hæstv. forsrh. í þingbyrjun hér í haust. Þetta má telja að hafi verið markmið samninganna og er kannske dálítið nýstárlegt, að aðeins er reynt að halda í horfinu og raunar ekki sótt öll sú kjaraskerðing sem orðið hafði á samningstímabilinu. Einnig má segja að það hafi verið nokkurt sérkenni við þessa samninga að reynt var að gera sér grein fyrir, hver yrði verðlagsþróun á því tímabili sem samningarnir áttu að ná yfir. Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands reyndu að gera sér grein fyrir þessu og fyrir samningsaðilunum lá spá þeirra varðandi verðlagsþróunina.

Það er rétt að taka það fram, að því var spáð að verðlagshækkanir yrðu ekki undir 15–17% á árinu og þá án þess að nein breyting yrði á kaupi. Fyrirsjáanlegt var að ef ekki færi fram kauphækkun með samningunum í haust — og hafa menn nú sagt æðimikið um verkföll og annað slíkt í því sambandi — þá hefði kaupmáttur verkafólks almennt verið kominn niður um a.m.k. 15% í árslokin. Þetta var spá Þjóðhagsstofnunarinnar. Hún var að vísu með 15%, en Hagstofan var heldur hærri í því og taldi að þetta mundu vera um 17%.

Það hefur oft verið kvartað undan því hér á okkar landi að samningstímabil verkalýðshreyfingarinnar eða aðila á vinnumarkaðinum væru allt of stutt, að það væri aldrei hægt að áætla neitt fram í tímann vegna þess hve samningstímar og samningstímabilin væru stutt og óörugg. Áreiðanlega væri það ósk verkalýðshreyfingarinnar að geta gert samninga til lengri tíma en almennt hefur verið. Við reyndum þetta í samningunum 1974. Þeir samningar áttu að gilda til vors 1976, þ.e.a.s. fyrst að vera að falla úr gildi um þetta leyti. En reynslan varð því miður sú að þessar vonir stóðu ekki og samningarnir voru aðeins 7 mánaða gamlir þegar verkalýðshreyfingin sá sig til neydda að segja þeim upp. Allar forsendur samninganna voru þá brostnar og því var þeim þá sagt upp. Forsendur samninganna brustu fyrst og fremst vegna aðgerða stjórnvalda.

Þegar samningarnir nú í vetur voru gerðir, þá sem sagt lágu þessar áætlanir fyrir sem ég áðan gat um varðandi þróun verðlagsmálanna. Nú er alveg ljóst að þessi þróun hefur orðið allt önnur en gert var ráð fyrir. Að vísu skal það tekið fram, eins og fram kom í sjónvarpsviðtali við forseta Alþýðusambandsins fyrir stuttu, að gert var ráð fyrir því að verðlag hækkaði til 1. júní sem næmi tæpum 10%. Ef verðlag hækkaði meira en það, þá átti að koma kauphækkun 1. júlí sem væri meira en þau 6% sem samningsbundið var. Þetta segir ekki að það hafi verið gert ráð fyrir því að verðlagið hækkaði svona mikið á þessum tíma. Það var það ekki. Það, sem gerst hefur, er að verðhækkanir hafa orðið meiri en búist var við og einnig komið miklu fyrr, þannig að það má fullyrða að kaupmátturinn núna um mánaðamótin mars — apríl s.l. hafi verið a.m.k. 3% lægri en áætlað var þegar samningarnir voru gerðir — og vel að merkja, hér er um að ræða eins og fyrri daginn fyrst og fremst aðgerðir stjórnvalda í verðlagsmálunum. Alþýðusambandið fullyrðir að af þeim 7.3%, sem verðlagið hefur hækkað til 1. apríl, sé aðeins 1.3% vegna áhrifa kauphækkana, hitt sé án áhrifa frá kauphækkunum. Þessar tölur hafa hvergi verið vefengdar. Það er því eðlilegt að spurt sé, þegar jafnmikið veður er búið að gera út af þeim samningum, sem gerðir voru í vetur, og verkalýðshreyfingin hefur legið undir stórárásum enn einu sinni vegna þeirra samninga og talið að hún sé fyrst og fremst völd þess hvernig málum er komið, hversu verðbólguþróunin heldur enn áfram. Kaupgjaldssamningarnir í vetur eru enn á ný taldir höfuðástæða þess. Með þessum mikla áróðri er fyrst og fremst stefnt að því að gera kaupgjaldsbaráttu verkafólksins og verkalýðshreyfingarnar tortryggilega, það sé tilgangslaust að vera að hækka kaupið, það hafi aðeins í för með sér hækkun verðlags og því geti ekkert annað af því hlotist en aukning verðbólgunnar. Hér er náttúrlega á ferðinni mjög skæður áróður gegn verkalýðshreyfingunni, og það er ekki annað sjáanlegt en að ríkisvaldið taki mjög þátt í einmitt þessum áróðri með þessum athöfnum með því einmitt að í skjóli og blóra við kaupgjaldsamningana er verðlagið hækkað eins gífurlega og gert hefur verið nú undanfarið og þar ganga opinberar stofnanir alveg sérstaklega fram. Ég ætla ekki að ræða hér núna neitt sérstaklega um búvöruverðið. En það er eðlilegt að verkalýðshreyfingin spyrni við fótum þegar svona er að málum staðið gagnvart henni. Þær auglýsingar, sem Alþýðusambandið ætlaði að koma inn í sjónvarpið, voru nauðvörn verkalýðshreyfingarinnar í þeirri stöðu sem hún hefur einmitt verið, í þeim þunga áróðri gegn baráttu verkalýðsfélaganna sem fram fór í vetur með þeim samningum sem þá voru gerðir. Ég ætla ekki að ræða það mál neitt sérstaklega. En það er ekki gott þegar jafnvel ríkisfjölmiðlarnir taka meiri og minni þátt í þessum efnum og þeim áróðri gegn verkalýðshreyfingunni sem fram hefur farið og ef verkalýðshreyfingin getur svo ekki borið hönd fyrir höfuð sér með þeim hætti sem reynt var að gera í þetta sinn.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en aðeins segja það, að þessi verðlagsþróun gerir að sjálfsögðu það að verkum að almennt dagvinnukaup verkafólks — og það er best að menn muni að það er nú aðeins á bilinu 55–60 þús. — það auðvitað verður enn ófærara um að standa undir brýnustu nauðþurftum fólks heldur en annars hefði verið.

Ég endurtek þá ósk, sem hér var borin fram, að það fáist svör við því hvort ríkisstj. sé þeirrar skoðunar að þær tölulegu staðreyndir, sem Alþýðusambandið hefur látið frá sér fara í þessu efni, séu réttar eða viðurkenndar.