30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

Varamaður tekur þingsæti

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þeim fyrirspurnum, sem hér hafa verið bornar fram, hefur ekki verið beint til mín og ég var ekki látinn af þeim vita fyrir fram. En það er tvenns konar misskilningur sem mér finnst nauðsynlegt að leiðrétta, — misskilningur sem mér virðist hafa komið fram hjá ræðumönnum, a.m.k. sumum, og hjá Alþýðusambandi Íslands, og mér finnst að málflutningur beggja aðila hafi um of verið byggður á þessum misskilningi.

Annar misskilningur er sá, að því hafi verið haldið fram af ríkisstjórnarinnar hálfu og málgögnum hennar að síðustu kjarasamningar launþegasamtakanna hafi verið vitaverðir, þar hafi verið um of miklar kauphækkanir að ræða. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég minnist þess ekki fyrir mitt leyti að hafa látið þau orð mér um munn fara nokkurn tíma. Ég minnist þess satt að segja ekki að slík orð hafi komið frá ríkisstj. hvorki frá einstökum ráðh. né ríkisstj. í heild. Ég dreg í efa að það sé hægt að sýna fram á það í málgögnum ríkisstj., ef þau verða skilgreind, að þar hafi þessir samningar verið sérstaklega gagnrýndir fyrir að kauphækkanir væru of miklar. Ég vil ekki taka það sem góða og gilda vöru nema þeir, sem flytja slíkt fram, bendi á ákveðin dæmi þar um. Þegar þessir samningar voru til meðferðar hef ég áreiðanlega margoft látið í ljós opinberlega að kauphækkanir væru óhjákvæmilegar eins og á stóð. Það var alltaf mitt álit og var vissulega álit ríkisstj. líka. Auðvitað getur verið álitamál hvar rétta markið er, og það er annað sjónarmið sem kemur fram af hálfu atvinnurekenda, sem sé hvað atvinnureksturinn ber. En þessir samningar voru gerðir, því miður, eftir verkfall. Ég held fyrir mitt leyti að það hefði verið hægt að ná þessum samningum án þess að til nokkurs verkfalls hefði komið og hefði átt að koma. En aðalatriðið er, að ég held að það hafi ekki verið gagnrýnt af ríkisstj. hálfu eða málgagna hennar að þarna hafi verið knúðar fram ósanngjarnar kaupkröfur af hálfu launþegasamtakanna. Hitt er rétt, sem hæstv. forsrh. undirstrikaði, að það má ekki endilega tala um lægstu tölu í því sambandi, heldur verður að miða við þá meðaltalshækkun, sem átti sér stað í þessum samningum, og sjálfsagt að halda sig við staðreyndir í umr. um þessi mái að því leyti til. (Gripið fram í.) Það stendur ekki þarna 6%, nei, nei. Ég er ekki að segja það. En það hefur stundum verið sagt í umr, um þessi mál, og það veit ég að hv. 7. þm. Reykv. kannast við, að það hefur verið talað um það eins og kauphækkunin hafi bara numið þessum 6%. En ég vil nú segja að sem betur fer var hún í sumum tilfellum nokkru meiri.

Hinn misskilningurinn, sem mér virðist hafa komið fram bæði hjá þeim, sem hér hafa talað og borið fram þessar fyrirspurnir, og eins af hálfu fyrirsvarsmanna Alþýðusambandsins, er að ríkisstj. eða málgögn hennar hafi viljað rekja allar þær verðlagshækkanir, sem átt hafa sér stað, til kjarasamninganna 1. mars. Ég held að þetta sé alröng staðhæfing. Aldrei hef ég haldið slíku fram. Og ég segi eins og áðan: Ég dreg í efa að það sé hægt að benda á dæmi þess að aðrir einstakir ráðh, hafi haldið slíku fram. Ég leyfi mér líka að efast um að hægt sé að benda á dæmi um það í málgögnum stjórnarinnar að því sé þar haldið fram að allar þær verðhækkanir, sem átt hafa sér stað, eigi rætur að rekja til kjarasamninganna frá 1. mars. Það hefur ekki verið gert, þetta er staðhæfing sem byggð er á fullkomnum misskilningi.

Ég verð að segja það, að þegar litið hefur verið til þessa hvors tveggja, sem ég hef hér nefnt, þessa tvenns konar misskilnings, þá finnst mér vera fallnar að nokkru leyti ástæðurnar bæði undan þeim fyrirspurnum, sem hér hafa verið bornar fram, og þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram af hálfu Alþýðusambandsins. Ég tel að sú gagnrýni sé sem sagt byggð að verulegu leyti á ímynduðum forsendum. Hitt er svo allt annað mál, að verðhækkanir hafa verið miklar, því mótmæli ég ekki. Ég hygg að því mótmæli enginn. Auðvitað getur Alþýðusambandið og hver sem er gagnrýnt það að verðhækkanir hafi verið of miklar, og auðvitað harma það allir að verðlagshækkanir hafa orðið jafnmiklar og raun ber vitni um.

Sá bæklingur eða sú grg., sem Alþýðusambandið hefur látið frá sér fara, sýnir nokkuð glöggt um hvers konar verðlagshækkanir er að tefla. Og ég skal ekki á nokkurn hátt vefengja það út af fyrir sig að þær séu aðeins 1.3%, hækkanirnar sem eigi rætur að rekja til kjarasamninganna 1. mars. Ég bendi þó á að eins og það er sett fram á þessu blaði, þá er þar aðeins um staðhæfingu að ræða, en það vantar útreikninga á hvernig þessi tala er fundin, og ég hygg að það geti orðið nokkuð erfitt dæmi að reikna það alveg nákvæmlega út. Hitt er víst líka, að sé ekki miðað eingöngu við kjarasamningana 1. mars, þá er það gefið að fyrri kauphækkanir koma fram í ýmsum tilfellum í þeim verðlagshækkunum sem átt hafa sér stað.

Ég veit að það mótmælir því enginn að auðvitað hljóta kauphækkanir hvort sem litlar eru eða miklar, í mörgum tilfellum að koma fram í verðlagi. Það er t.d. augljóst mál að hjá því verður ekki komist þegar um ýmiss konar þjónustustarfsemi er að tefla þar sem uppistaðan er vinnulaun. Þá verður ekki komist hjá því að kaupgjaldshækkun komi fram í verðlagningu þeirrar þjónustu. Og það er einmitt það sem hefur átt sé stað — ég vil segja í flestum tilfellum — í þeim almennu verðlagshækkunum sem hafa átt sér stað og ákveðnar hafa verið af verðlagsnefnd og staðfestar af ríkisstj. Ég vil bæta því við, að í verðlagsnefnd eiga sæti fulltrúar frá launþegasamtökunum og hafa þar alla aðstöðu til þess að fylgjast með. Þær verðlagshækkanir, sem hafa átt sér stað á því sviði og samþ. hafa verið af hálfu verðlagsnefndar, eru, held ég áreiðanlega, ekki meiri en mátti gera ráð fyrir við gerð kjarasamninga. Það er líka svo, að í mjög mörgum tilfellum, — ég held að það sé alveg óhætt að segja að í miklum meiri hluta tilfella hafi verðlagsnefnd verið alveg sammála. En hitt er líka til og það í allmörgum tilfellum, að fulltrúar launþega hafa greitt atkv. gegn þeim hækkunum sem þar hafa þó verið samþ. Ég held að ég fari ekki mjög langt frá sannleikanum a.m.k. er ég segi það, ef ég lít á þessa geira sem hér eru upp settir, að t.d. fiskur, dagblöð, kaffi, það hafi verið samþ. af öllum. Um bensínið þori ég ekki alveg að fullyrða. Svo er ýmislegt annað þarna upp á 0.4% Ég held sem sagt að það hafi yfirleitt í mjög mörgum tilfellum verið samþ. af öllum aðilum, enda er það svo að till. verðlagsstjóra, sem hann leggur fyrir verðlagsnefnd, fylgir grg. um það af hverju hækkunin stafar, þannig að þar má í hverju einstöku atriði sjá hvort og að hve miklu leyti hækkunin á rætur að rekja til kaupbreytinga eða annarra ástæðna. Þetta vildi ég segja um það.

Hitt er svo alveg rétt, að það hafa orðið miklar verðlagshækkanir á opinberri þjónustu, og það er mín persónulega skoðun að þar hafi verið farið fullfrekt í sakirnar í ýmsum tilfellum. Ég tek undir það, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að það er í ýmsum þeim tilfellum um að ræða stofnanir sem einokunaraðstöðu hafa, og það rekstrarform virðist ekki gefast sérstaklega vel að því er verðlagningu snertir, hvort heldur er um að ræða ríkisfyrirtæki eða þjónustufyrirtæki bæjar- og sveitarfélaga. Það sjónarmið, sem út af fyrir sig er kannske góðra gjalda vert, að hugsa sem mest um hag hvers fyrirtækis virðist mér hafa í sumum tilfellum ráðið fullmiklu. En það er í ýmsum þessara tilfella mikið álitamál og matsatriði að hve miklu leyti á að byggja fyrirtæki upp með eigin fjármagni og framkvæmdir þess á eigin fjármagni og þá á þjónustugjöldum og að hve miklu leyti á að byggja það upp á lánsfjármagni.

Ég held t.d. að Hitaveita Reykjavíkur sé ákaflega glöggt dæmi um þetta. Í því tilfelli var um að ræða að gert var ráð fyrir að Hitaveitan fjármagnaði þær framkvæmdir, sem hún stendur í, að mjög miklu leyti á eigin fjármagni, og hún varð að fá hækkanir á þjónustu til þess. En það sem er athyglisvert í því sambandi — og ég hygg að ég fari þar ekki með rangt mál — er að það voru allir borgarfulltrúar, að ég held, hvar í flokki sem þeir stóðu, hjartanlega sammála um að krefjast þessarar hækkunar. Var þó krafist meiri hækkunar en leyfð var, eða 33%, en Hitaveitan fékk ekki nema 27%. Ég get bætt því við að áskoranir bárust til ríkisstj., bæði frá bæjarstjórn Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar, einróma, þar sem skorað var á ríkisstj. að leyfa þessar hækkanir, umbeðnu hækkanir, og þar skiptust menn ekkert í flokka.

Ég vil líka nefna hækkun á útvarpi og sjónvarpi, 30% hækkun sem leyfð var, en farið var reyndar fram á, ef ég man rétt, um 40% hækkun. Ég veit ekki betur en að allir fulltrúar í útvarpsráði, hvar í flokki sem þeir stóðu, hafi verið hjartanlega sammála um að fara fram á þessa hækkun. Og þannig hygg ég að megi lengi rekja.

Mér er t.d. ekki kunnugt um það, þegar um ýmsar hækkunarbeiðnir hefur verið að ræða frá ýmsum bæjarstjórnum, að þá hafi verið ágreiningur þar. Ég held að þar hafi allir bæjarfulltrúar staðið að. Og eins og ég sagði áðan, þá getur það að vísu út frá vissu sjónarmiði verið góðra gjalda vert að hugsa svo vel um fjárhag þessara fyrirtækja og byggja þau þannig upp. En ég held að einmitt vegna þess að þarna vantar það aðhald sem stafar þó af samkeppni, þá þurfi að vera sérstakt eftirlit í þessum efnum. Og ég verð að segja það sem mína skoðun að ég tel, hvað sem almennum verðlagsákvörðunum líður á almennum markaði þar sem samkeppni getur átt sér stað, að þá væri ekki óeðlilegt að verðlagsnefnd, þar sem fulltrúar hinna ýmsu aðila eiga sæti, fengju aðstöðu til þess að fjalla um þessar hækkunarbeiðnir opinberra aðila. Ég held að það mundi einmitt verða til þess að styrkja skilvirkt verðlagseftirlit, að þetta væri sett undir verðlagsnefnd eða a.m.k. að hún fengi aðstöðu til þess að láta í ljós álit sitt á þeim leiðum sem berast um þessi efni.

Það er að sjálfsögðu slæmt og ég harma það, ef svo hefur verið, að aðilar samninganna hafa ekki fengið upplýsingar eins og t.d. um Póst og síma. Það ber að harma. En eins og hæstv. forsrh. gerði grein fyrir, þá var þar að nokkru leyti a.m.k. um ástæður að tefla sem ég verð að játa að a.m.k. að því er mig varðar voru ekki ljósar.

Búvöruhækkunin er auðvitað mikill þáttur í verðlagi. En ég bendi á að ekki kom til framkvæmda sú búvöruhækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. des. Henni var frestað, og að því leyti til hafa þá neytendur notið góðs á meðan.

Það hefur sitt hvað verið sagt um það verðlagseftirlit sem haldið var uppi til 20. mars eða um 4 mánaða skeið. Ég viðurkenni að í slíkum tilfellum safnast eitthvað fyrir sem verður að leysa úr, en ég held samt sem áður að það hafi verið til gagns. Ég held að það hafi verið til gagns að því leyti til, að há vissu menn að ekki var um að ræða neinar kauphækkanir á þessu tímabili. En þegar slakað er á og þetta afnumið, há aftur á móti er eins og allir fari af stað, sá, þrýstihópar, má vel segja, og krefjist hækkana, sjálfsagt oftast með rökum, en stundum e.t.v. umdeilanlegum rökum. Það er eins og þá leysist úr læðingi verðbólguhugsunarháttur sem var hægt að dempa og halda niðri með hinu herta verðlagseftirliti á meðan það stóð. Auðvitað er ekki hægt að halda slíkri verðstöðvun um ótakmarkaðan tíma, en álitamál getur verið hversu lengi sé hægt að gera það.

Ég vil segja það um þessa verðhækkun búvara, að Sexmannanefndin var um hana sammála og ég hygg að það hafi ekki verið um annað að ræða lögum samkv. fyrir ríkisstj. en staðfesta það sem Sexmannanefnd var sammála um. Og ég læt í ljós, eins og hæstv. forsrh., að það er vissulega illa farið að Alþýðusambandið skuli ekki eiga fulltrúa í þessari Sexmannanefnd. Þá hefði hann getað kynnt sér málið, þá hefði hann gert sínar athugasemdir, þá hefði hann getað gert sinar ráðstafanir og þá hefði þó málið farið til yfirnefndar. En hitt vil ég vissulega taka undir, að þær verðlagshækkanir, sem hafa átt sér stað, eru miklar og þær hljóta að vera öllum, sem um þessi mál fjalla, mikið áhyggjuefni. Og ég játa það hreinskilnislega, að þær hafa orðið meiri og komið hraðar en ég hafði búist við. Ég held að það hefði verið æskilegt að geta farið ofurlítið hægar í þessum efnum því hefði verið dreift yfir lengri tíma.

Nú veit ég ekki hversu rétt það er, eins og hér er gert, að miða við 1. febr. og 1. apríl. Sannleikurinn er sá að það fara ekki að eiga sér stað hækkanir fyrr en eftir 20. mars. Þangað til stendur þessi verðstöðvun. Auðvitað liggja enn þá fyrir ýmsar hækkunarbeiðnir óafgreiddar, en ég vil þó taka undir það með hæstv. forsrh. að ég vil vona að aðallotunni í þessum efnum fari að linna og það fari að hægja á.

Það er að vísu rétt í sambandi við innflutning að hafa það í huga, að þó að gengi hafi breyst allvíða, hafi lækkað, og það mætti draga þá ályktun af því að innfluttar vörur ættu þess vegna að lækka í verði, þá er rétt að hafa þann fyrirvara á í því sambandi að í mjög mörgum tilfellum er, þegar um innflutning er að tefla, samið um greiðslu í dollurum. Þannig er það t.d. yfirleitt um viðskipti austan að og í mjög mörgum tilfellum öðrum. Við njótum því ekki þeirra gengisbreytinga að því marki sem í fljótu bragði mætti ætla, þó að við njótum svo aftur á móti hækkunar á dollar í öðru sambandi, þ.e.a.s. að því er varðar okkar útflutningsafurðir.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa þessi orð fleiri. Eins og ég sagði, var þessari fyrirspurn ekki beint til mín, og ég hef þess vegna ekki undirbúið mig að hafa hér svör á reiðum höndum við hverju einu í þessum efnum. En ég vil taka undir það, að við hljótum öll að vera sammála um að verðlagshækkanirnar eru of miklar, og það hlýtur að vera markmiðið að reyna að beita öllum mögulegum ráðum til þess að hefta verðbólguþróunina, því að ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um að verðbólgan er einhver mesta meinsemd í íslensku efnahagslífi — og í íslensku þjóðlífi yfirleitt. Þess vegna ættum við að reyna að sameinast sem mest um það, þó að það sé svo að hér á Alþ. skiptist menn í stjórn og stjórnarandstöðu og deili þar af leiðandi um mörg málefni, þá ætti að vera hægt að hafa samvinnu á milli aðila um þessi mál. eins og reyndar er í verðlagsnefndinni eins og hún er upp byggð. Það álít ég að sé rétta leiðin í þessu efni, að hafa það skipulag að sem flestir aðilar geti komið að þessum málum og hafi aðstöðu til þess að rannsaka þau og fylgjast með þeim og eiga þátt í ákvörðunum um þau. Með þeim hætti verða allir aðilar að taka á sig vissa ábyrgð og það verður eytt ýmissi tortryggni í sambandi við þessi mál.