10.11.1975
Efri deild: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

49. mál, skipan opinberra framkvæmda

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Á þskj. 53 höfum við hv. 5. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, og hv. 2. þm. Reykn., Oddur Ólafsson, leyft okkur að flytja lítið frv. um breyt. á lögum um skipan opinberra framkvæmda. Þetta er lítið frv. sem mér kom reyndar á óvart að þyrfti að flytja. Ég hélt satt að segja að ákvæði hér að lútandi væru þegar í lögum. Sjálfur var ég svo ekkert sérstaklega hrifinn af því að flytja frv. til l. um breyt. á þessum lögum, því að í fyrra samþykkti Alþ. tillögu einmitt frá okkur hv. þm. Stefáni Jónssyni um að endurskoða öll þessi lög. Það var nú ekki varðandi þetta, heldur ýmsa framkvæmd mála, sem við höfðum aðaláhugann á, og þar af leiðandi breytir það litlu um þennan frv.-flutning nú sem lýtur að allt öðru en því sem við vorum að gagnrýna þá varðandi endurskoðunina. En frvgr. er þannig að við 3. gr. laganna, þar sem talað er um áætlanir um hinar opinberu byggingar, bætist: „Í áætlun um stofnkostnað mannvirkja, sem kostuð er af ríkissjóði að nokkru eða öllu leyti, er heimilt að setja kostnað vegna listskreytingar og má verja í því skyni fjárhæð er nemi allt að 1% af áætluðum stofnkostnaði mannvirkja.“

Hér er ekki fram á mikið farið, aðeins heimild til þess, eins og segir í greinargerð, að opinberar byggingar gætu fengið á síg fegurra og listrænna svipmót. Ekki er því að neita að að þessu hefur verið nokkuð gert án þess að fyrir því væru sérstök lagaákvæði eða lagaheimild. En eðlilegast hlýtur að teljast að hér sé um að ræða sjálfsagðan þátt í stofnkostnaði bygginga. Við vitnum eðlilega í hin áður settu ákvæði, þau ákvæði, sem minnt er á í grg varðandi skólana þar sem heimilt er að verja 2% af kostnaði til listskreytinga. Við förum ekki fram á nema 1% þarna, helmingi minna, en um prósentuna má auðvitað deila og meta hana. Við getum auðvitað bent á það að ýmsar opinberar byggingar hafa verið listskreyttar. Ég nefni byggingar eins og hér í Reykjavík Tollhúsið, Lögreglustöðina o. fl. En með tilliti til þess, að við lifum á erfiðum tímum eins og löngum áður, þótti okkur ekki rétt að ganga lengra í þessu en að fara í 1% af áætluðum stofnkostnaði mannvirkja, þó að við gerum okkur grein fyrir því að varðandi smærri byggingar yrði það náttúrlega ósköp lítið og vesælt sem kæmi út úr þessu. Sú sérstaka ósk, sem lá að baki þessum frv.-flutningi, var einmitt bundin við, að þarna yrði varið 1%, að markið yrði ekki sett hærra.

Það má því segja að einkenni þessa litla frv. okkar sé hógværð og hjartans lítillæti. Eins og að er vikið í grg. er það viss tegund bygginga sem við flm. höfum í huga öðrum fremur, og það má segja að eðlilegra hefði verið að finna ákvæði sem þessu stað í lögum um heilbrigðisþjónustu. En að athuguðu máli fundum við flm. að það var erfitt að koma þessu ákvæði þar inn, það var erfitt að finna því stað í nýju lögunum um heilbrigðisþjónustu. Við nánari athugun þótti okkur líka rétt að fella þetta ákvæði inn í víðari ramma svo að það næði sem lengst þar sem ástæða þætti til að skreyta opinberar byggingar.

Eins og í grg. segir er hvergi brýnna en í sjúkrastofnunum að gæða þær lífi og lit með listskreytingum sem drægju um leið úr þeim sterku einkennum þessara stofnana sem minna á veikindi og allt sem þeim fylgir. Frekari rökstuðnings er í raun og veru ekki þörf. Það liggur við að okkur flm. þyki sem sjúkrahúsin og aðrar slíkar hliðstæðar stofnanir hefðu jafnvel átt að koma hér inn í á undan skólunum, þó að hvort tveggja eigi í raun að vera jafnsjálfsagt.

Mig langar aðeins að vitna í bréfaskriftir þær sem urðu hvati þessa frv.-flutnings, með leyfi hæstv. forseta. Framkvæmdastjóri Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað skrifar svo hljóðandi bréf til viðkomandi rn., heilbr.- og trmrn.:

„Þar sem ekki mun gert ráð fyrir listskreytingum af neinu tagi í þeim framkvæmdaáætlunum sem gerðar hafa verið yfir sjúkrahúsbyggingu í Neskaupstað, þá leyfi ég mér hér með að fara þess á leit við hið háa rn. að það heimili að sömu prósentu af heildarbyggingarkostnaði verði varið til listskreytingar sjúkrahúsbyggingarinnar og gert er ráð fyrir í lögum um ýmsar opinberar byggingar, t. d. skólabyggingar.“ — Það er rétt að taka það fram varðandi þessa fullyrðingu að þetta er eingöngu varðandi skólabyggingar. Það er ekki um neinar aðrar opinberar stofnanir sem þarna liggur lagaheimild að baki. Í bréfinu segir svo áfram: „Ég held að heppilegast væri að taka sem fyrst ákvörðun um þetta, þar sem slíkt verk þarf að mínu mati lengri undirbúningstíma en venjuleg byggingarvinna. Einnig er hugsanlegt að í einhverjum hluta byggingarinnar, utanhúss eða innan, gæti listskreyting fallið inn í frágangsvinnu, t. d. í sambandi við litaða múrhúðun, málningu eða flísalögn. Ég er viss um að ýmislegt er hægt að gera í þessa veru sem gæti orðið til fegurðarauka án þess að hleypa kostnaði mikið fram. Það er einlæg von mín að rn. taki mál þetta til vinsamlegrar athugunar og sjái sér fært að veita þessa heimild.“

Og undir þetta ritar fyrir hönd byggingarnefndar Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað Stefán Þorleifsson.

Ég vil einnig vitna hér í svar rn., með leyfi hæstv. forseta. Þar vísar rn. til bréfs byggingarnefndar frá 10. sept. 1915, þar sem rætt er um listskreytingu í sjúkrahúsbyggingunni í Neskaupstað, og segir svo orðrétt:

„Það hefur enn ekki verið gert ráð fyrir því við hönnun sjúkrahúsa að heimilt sé að eyða af byggingarfé til listskreytinga sérstaklega, og gelur því rn. á þessu stigi ekki tekið jákvæða afstöðu til erindisins er í bréfinu greinir.“ Undir þetta ritar ráðuneytisstjórinn, Páll Sigurðsson.

Ég tek það fram í sambandi við prósentuna að í bréfi, sem mér barst frá forstöðumanni Fjórðungssjúkrahússins, Stefáni Þorleifssyni, formanni byggingarnefndar þar, óskar hann eftir því einmitt að ekki verði gengið lengra en það að heimildin verði bundin við 1% af áætluðum stofnkostnaði, þó að það sé auðvitað matsatriði. Aðeins telur hann eðlilegast og sjálfsagt að framkvæmd listskreytingarinnar sé tryggð sem hluti stofnkostnaðar. En hvað bréf rn. snertir þá kemur glögglega í ljós að heimildina eina þykir skorta. Ekkert bendir til þess að rn. sem slíkt sé ekki fullkomlega sammála um þörf þessa atriðis, enda hef ég fengið staðfest að fyrir því er fullur vilji ef heimildin væri ótvíræð.

Það má að vísu deila um eitt atriði í þessu efni, þ. e. a. s. hvort hús eða bygging eins og sú, sem nú er á döfinni í Neskaupstað og er komin nokkuð á veg, njóti góðs af breytingu sem þessari, þar sem hér er um að ræða áætlun í raun og veru um fyrirhugað mannvirki samkv. 1. gr. laganna, sem nú stendur þarna. En ég hef gengið úr skugga um það, að ég hygg fullkomlega, að viðkomandi rn. mun telja þetta algerlega nægilegt til að heimila þeim í Neskaupstað og öðrum aðilum, sem þannig stendur á hjá, listskreytingu í ljósi þessa ákvæðis, nái þetta frv. fram að ganga.

Ég vona að frv. þetta eigi sem greiðasta leið í gegnum þessa deild og hef um það von einnig að það týnist ekki í málafjölda þeirra hv. Nd.manna og þeirra sérstæða annríki undanfarnar þingvikur. Hér þarf engra frekari skýringa við. Málið er ljóst og einfalt og einhugur ætti um það að vera. Vil ég því í trausti á skjóta afgreiðslu leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.