30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3414 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

Varamaður tekur þingsæti

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hér hafa tveir ráðh. talað mjög langt mál um mál, sem að sjálfsögðu er stórt, en ég er ekki viss um að hafi gefið tilefni til þess mjög svo langa ræðuhalds, því að frumræður hér voru stuttar, og ef ætti að fylgja í slóð ráðh., þá gæti maður ekki orðið við tilmælum forseta um að tala aðeins stutt. Ég skal reyna að verða við því engu að síður, því að einkum ræða forsrh., stór hluti hennar, var þess eðlis að ég ætla ekki að fara að eyða neinum tíma í það. Það voru útskýringar hans á því hvers vegna verðhækkanir á einu og öðru hefðu verið nauðsynlegar og hvaða rök hefðu legið að baki o.s.frv., o.s.frv.

En hæstv. forsrh. hóf ræðu sína með því að gagnrýna Alþýðusambandið og verkalýðssamtökin fyrir að eyða fé sínu í útgáfu á bæklingi eins og þeim sem hér er lagður á borð hv. þm. og umræður snúast um. Ég held að við verðum að frábiðja okkur í verkalýðshreyfingunni ráðleggingar af þessu tagi. Það kæmi sér kannske vel fyrir ríkisstj. að við gæfum ekki út svona bæklinga, en það er áreiðanlegi að þessi bæklingur hefur þegar haft sín áhrif og áreiðanlega borgað sig fyrir fólkið sem greiðir skatta sína til Alþýðusambandsins. Og áfram mun verða haldið á þessari braut þegar tilefni gefast til.

Spurt var hér í frumræðu hvort ríkisstj. viðurkenndi þær tölulegu staðreyndir sem settar væru fram í þessum bæklingi og endurteknar í ræðum eða hvort hún hefði einhverjar sérstakar athugasemdir við þær að gera, hvort þarna væri rétt farið með mál eða ekki. Ég verð nú gagnstætt því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að telja að hæstv. forsrh. hafi viðurkennt að þær tölulegu upplýsingar, sem settar eru fram í bæklingnum, séu réttar. Ég gat ekki annað merkt af ræðu hans en að hann viðurkenndi það. Hann sagði að vísu að hér væri ekki um staðreyndir að ræða, heldur ályktanir sem dregnar væru af vissum tölulegum staðreyndum.

Að það væri sérstaklega erfitt að rekja í sundur þá þætti sem áhrif kauphækkana væru í heildarverðhækkunum, út af fyrir sig get ég verið honum alveg sammála um að þetta getur verið býsna erfitt að gera. Þær tölur, sem hér eru nú settar fram, mér er kunnugt um að þessar tölur hafa verið bornar undir þá sem sérstaklega ættu að geta gert sér grein fyrir staðreyndum í þessu efni. Hitt er svo alltaf að sjálfsögðu álitamál, hvernig á að reikna áhrif kauphækkana inn í verðlagsmál. Þar hef ég oft haft miklar athugasemdir við að gera þegar verðlagsnefnd eða þeir, sem eiga að ákveða verðlagið, gefa sér einhverjar forsendur, — forsendur sem gjarnan eru svo látnar vera óumbreytanlegar árum saman. Ég nefni bara sem dæmi, að ég held að það sé viðtekin regla að verslunin fái að reikna áhrif kauphækkana á 55% af rekstrarkostnaði sínum, að launin séu talin það, og áhrif kauphækkana sem sagt í þessu hlutfalli alltaf reiknuð út í verðlagið. Hvort þetta er rétt eða ekki, um það má auðvitað endalaust deila, og svo er um óteljandi atriði. Það er hví út af fyrir sig alveg rétt þegar hæstv. forsrh. segir að það sé erfitt að rekja þessa þætti í sundur. En einmitt þessar viðurkenndu formúlur, sem ég nú nefndi, voru allar notaðar við þá útreikninga sem hér liggja fyrir.

Ég gat sem sagt ekki merkt annað en að hæstv. forsrh. viðurkenndi að þær upplýsingar, sem felast í bæklingi Alþýðusambandsins, séu í meginatriðum réttar. Hið sama gerði hæstv. viðskrh., þannig að ég held að árangur þessara umr. hér verði þá a.m.k. sá að það þurfi ekki að standa neinn styr um hvað sé rétt og hvað sé ekki rétt í þessum upplýsingabæklingi.

Hæstv. viðskrh. talaði um tvenns konar misskilning og taldi að því hefði verið haldið fram að hæstv. ríkisstj. hefði talið kaupgjaldssamningana vítaverða, eins og hann orðaði það, og kauphækkanir hefðu verið allt of miklar. Í þessum bæklingi, sem hér er til umr., og í þeim ræðum, sem hér voru haldnar í upphafi þessara umr., minnist ég ekki þess að þetta hafi komið fram, og það er ekki þetta sem er fyrst og fremst verið að halda fram, heldur hitt, að því hefur mjög gjarnan verið haldið fram og ýtt undir það af hæstv. ríkisstj. með einmitt þessum ráðstöfunum í verðlagsmálum að allar verðhækkanir væru kauphækkunum að kenna, — allar verðhækkanir sem orðið hafa frá því að samningarnir voru gerðir. Þetta er mergurinn málsins. Það er þessi áróður sem hefur dunið látlaust, — og það mætti sjálfsagt koma hér með bunka af tilvitnunum ef því væri að skipta, — en það er þessi látlausi áróður, sem dunið hefur á verkalýðshreyfingunni, sem verið er að mótmæla og hamla gegn.

Ég ætla ekki að rekja svo mjög einstök atriði hér í umr., en ég vil vegna orða hæstv. forsrh. þar um segja það, að af hálfu Alþýðusambandsins eða verkalýðsfélaganna, þeirra manna sem staðið hafa að samningamálum þeirra, er ekki tortryggni í garð þeirra embættismanna sem hér hafa verið nefndir, þ.e.a.s. hagstofustjóra og forstöðumann Þjóðhagsstofnunarinnar, það er mjög langt frá því. Við viðurkennum hæfni þessara embættismanna og þekkjum mjög vel af eigin reynslu þau verðmætu störf sem þeir báðir og hvor um sig hafa unnið í þessum efnum. En það er sagt í bæklingnum, sem hér er rætt um, að þessir menn hafi fengið rangar upplýsingar og þess vegna hafi brugðist þær forsendur sem þeir höfðu fyrir spádómum sínum, skulum við segja, eða ágiskunum, — ágiskanir voru það, það er alveg rétt, hæstv. forsrh. sagði það, þetta voru aldrei kallaðar spár, heldur beinlínis ágiskanir. Hvort hér er um visvítandi rangar upplýsingar að ræða eða ekki, það ætla ég ekkert að fullyrða um, en það, sem þeir lögðu fram, er annað en á daginn hefur komið. M.a. er það, að sums staðar þar sem miklar hækkanir hafa orðið áttu engar hækkanir að verða á þessu tímabili. Ég er ekki heldur að segja að hæstv. ráðh. hafi vitað betur, en þeir hafa þá látið undan þrýstingi sem sjálfsagt hefur verið ætlun þeirra að gera ekki.

Þegar hæstv. forsrh. var að gera hér grein fyrir orsökum verðhækkana, sem ég ætla ekki að fara að rekja, þá komst hann alveg furðulega að orði og ég verð að segja: kom með alveg furðulegar upplýsingar. Hann fullyrti að hin mikla hækkun á hitaveitugjöldum hefði verið gerð til þess að forða þúsundum manna frá mjög mikilli kjaraskerðingu. Það mætti sennilega taka góðan umræðukafla til þess að annaðhvort sanna eða afsanna svona fullyrðingar.

Ekki tók nú betra við þegar kom að hækkunum hjá Pósti og síma, því að þær voru þá orðnar þess eðlis að þær voru til þess að stofnunin gæti endurgreitt fé, sem hún hefur tekið bókstaflega ófrjálsri hendi. Það er í sjálfu sér ágætt að hæstv. forsrh. veitir Alþ. svona upplýsingar. En ekki er það traustvekjandi á viðkomandi stofnun né heldur því eftirliti sem ríkisstj. á að sjálfsögðu að hafa á slíkri stofnun, og þá meina ég ekki bara rekstur hennar, heldur ekki síður vörslu og umhyggju fyrir orlofsfénu.

Hæstv. forsrh. og raunar viðskrh. líka hörmuðu það báðir að Alþýðusambandið hefði tekið fulltrúa sinn út úr sexmannanefnd fyrir nokkrum árum, og mætti kannske skilja að þessi mál stæðu nokkuð öðru vísi ef það hefði ekki verið gert. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta neitt til hlítar. Ég get sagt það, ég var aldrei sammála því að þetta væri gert og átti þá sjálfur sæti í sexmannanefndinni. Það var býsna erfitt verk að vera fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar í þeirri n. og ekki vinsælt, hreint ekki vinsælt, en engu að síður hafði ég þá skoðun að það væri í þessari n. hægt að vinna þó það fyrir neytendur að ég gæti þolað þær skammir sem ég fékk fyrir engu að síður. Hæstv. forsrh. sagði að vísu að það væru mjög fastar skorður sem sexmannanefnd yrði að fara eftir í ákvörðun um verðlagningu búvöru, og það eru einmitt þessar föstu skorður sem gerðu það að verkum, að Alþýðusambandið á sínum tíma sá ekki tilgang í því að hafa mann í sexmannanefnd.

Í þessu sambandi gat hæstv. forsrh. þess að nú væri búið að skipa n. til þess að endurskoða verðlagskerfilandbúnaðarvaranna og Alþýðusambandið hefði þegar skipað í þessa n. Hvort tveggja þetta er rétt, og það er fyrir ærið löngu að þessi n. átti að hafa verið kvödd til starfa, en einhverra hluta vegna hefur það dregist mjög. Hins vegar vil ég eins og hv. þm. Benedikt Gröndal vekja athygli á því, að á sama tíma og verið er að bjóða samstarf í slíkri n. eins og forsrh. gat hér um, hvað er þá að gerast á hv. Alþ? Fyrir Alþ. liggur núna frv. um breyt. á l. um framleiðsluráð, þar sem þegar er búið að afgreiða af meiri hl. landbn. hv. Nd. ákvæði um að verðmiðlunargjald hvers konar af öllum búvörum skuli reiknast sem dreifingarkostnaður. Þetta eru algjörlega ný ákvæði í lögunum. Í öðru lagi er lagt til að heimilt sé að taka tillit til fjármagnskostnaðar þessara búa þegar verðjöfnumargjald er ákveðið. Einnig þetta er nýtt ákvæði í lögunum.

Að sjálfsögðu hefur verkalýðshreyfingin fyrst og fremst áhuga á að verðmyndunarkerfið varðandi verðlagningu landbúnaðarvaranna verði tekið til athugunar. Ég ætla ekkert að fullyrða um það hvað hugsanlega gæti komið út úr slíkri endurskoðun, það dettur mér ekki í hug á þessu stigi málanna. En ég held að það væri öllum aðilum, bæði neytendum og ekki síður bændum og kannske allra síst ekki stjórnvöldum, mjög þarft og gott ef þessir aðilar gætu komið sér saman um stefnumörkun í þessum efnum. Það væri mjög þarft. Þegar verið er að koma í gegn hér mjög margumræddu máli., mjólkurmálinu svokallaða, sem raunar allir þm. eru orðnir sammála um að eigi að fara í gegn, en hnýtt er aftan í það mál svona afdrifaríkum atriðum fyrir neytendur um verðlagningu búvaranna í landinu, þá er útilokað að menn geti staðið að því að samþykkja breytinguna á mjólkurlögunum. Og ef hv. stjórnarþm. hafa keypt þóknun sína við kaupmenn í Reykjavík því verði sem felst í þessum nýju ákvæðum um breytingar á lögunum um framleiðsluráðið, þá fullyrði ég að það er allt of dýru verði keypt og mun hefna sín.

Herra forseti. Ég lofaði að vera ekki allt of langorður, en vil aðeins segja það, að í lok ræðu sinnar kom hæstv. forsrh. með hugleiðingar um hvernig og hvenær kaupmáttur gæti aukist, hvenær kauphækkanir gætu verið raunhæfar og hvenær ekki, þær væru gagnslausar ef ekki fylgdi með framleiðniaukning og ýmsir aðrir hlutir, sem hann nefndi, kæmu til, eða viðskiptakjör þjóðarinnar út á við stórbötnuðu. Þetta er sú eilífa fullyrðing sem við heyrum gjarnan í verkalýðshreyfingunni (Gripið fram í: Í þriðja lagi breytt tekjuskipting.) þá, það var einmitt það. Í þriðja lagi er hægt að breyta tekjuskiptingunni í landinu. Ég heyrði það ekki hjá hæstv. forsrh., en vonandi verður það gert. Það er einmitt mergurinn málsins. Þeir samningar, sem gerðir voru í vetur og ákváðu almennu verkafólki í landinu dagvinnutekjur sem nema 55–60 þús. kr. á mánuði, — þegar við ræðum það að þessir samningar, eins og haldið hefur verið fram mjög í málgögnum ríkisstj., séu orsök þeirra verðhækkana sem orðið hafa og eins og fyrri daginn séu að kollkeyra allt í þjóðfélaginu, þá held ég að það sé hollt að menn hafi í minni að það verður áreiðanlega, ef ekki með öðrum ráðum, þá verður að breyta þessum hlutföllum með því að breyta tekjuskiptingunni í landinu.