30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

Varamaður tekur þingsæti

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 2. landsk. þm. áðan um verðlagningu landbúnaðarvara finnst mér ég ekki geta komist hjá því að segja hér örfá orð. Sú spurning, sem hann sérstaklega beindi til þeirra sem væru í forsvari fyrir bændur, var á þá lund, ef ég hef skilið hana rétt, að hlutur dreifingarkostnaðar í heildarverði landbúnaðarvara færi sífellt hækkandi og það væri atriði sem mjög mikil nauðsyn væri að gefa gaum að.

Eins og mönnum er kunnugt og hér hefur komið fram í umr., þá verðleggur svokölluð sexmannanefnd landbúnaðarvörur flestallar til bænda 3 heildsölu og sumar í smásölu, flestar reyndar nú orðið. Við verðlagningu þessara vara nú síðast varð samkomulag í sexmannanefnd, þannig að ekki kom til þess að þyrfti að skjóta úrskurði n. til yfirnefndar sem því aðeins starfar að ekki náist samkomulag í sexmannanefnd. Samkomulag kallast það þegar meiri hl. n. samþ. verðlagninguna. Um flest atriði verðlagningarinnar að þessu sinni var samkomulag allra um., en við einstök atriði sátu einstakir nm. hjá Þetta fyrirkomulag á verðlagningu hefur nú tíðkast um alllangt skeið og undirstaðan að þessari verðlagningu er sú, að framleiðendur vörunnar annars vegar og fulltrúar neytenda hins vegar komi sér saman um verð á landbúnaðarvörum sem leiði til þess að bændur hafi sem næst sambærilegar tekjur við ákveðnar viðmiðunarstéttir, eins og þær hafa verið kallaðar, í þjóðfélaginu. Þær stéttir, sem þarna er miðað við. eru verkamenn, bæði almennir verkamenn og iðnaðarmenn, og fram undir þetta hefur líka verið miðað víð sjómenn, en er þó ekki lengur gert.

Upphaflega var gert ráð fyrir því, og raunar er það svo enn, að hlutverk n. sé einfaldlega að ganga þannig frá verðlagningu að hlutur bænda verði sambærilegur, þegar upp er staðið, við þessar viðmiðunarstéttir. Vel má færa til sanns vegar að vinna n. hafi meira færst inn á venjulegar samningaleiðir þar sem tillit hefur verið tekið til ákveðinna aðstæðna sem undir einstökum kringumstæðum hafa getað breytt nokkru um samningsniðurstöðu, og þá koma atriði til greina eins og t.d. þegar ákveðin var niðurgreiðsla á áburði á s.l. vori.

Nú um nokkuð langt skeið má heita að alltaf hafi orðið samkomulag í sexmannanefnd um verðlagninguna. Undanfarin nokkur ár hefur mjög sjaldan verið skotið til yfirnefndar ágreiningsefnum frá sexmannanefnd, og bendir það til þess að samstarf þar hafi verið nokkuð gott.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram áður, að ég tel mjög miður farið að Alþýðusamband Íslands skuli ekki eiga fulltrúa í sexmannanefnd. Ég er sannfærður um það að ef svo væri, ef fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands væri í sexmannanefnd, þá mundi vera afstýrt ýmsum misskilningi sem oft virðist gæta hjá neytendum í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara.

Vegna þess, sem spurt var um dreifingarkostnað, finnst mér rétt að geta þess að fyrirtækin, sem vinna úr landbúnaðarvörum og dreifa þeim í heildsölu, eru að mestu leyti í eigu bænda. Mjólkursamlögin og sláturhúsin eru í eigu bændanna og fyrirkomulag á rekstri þeirra er þannig að þeim ber að skila því, sem afgangs er, þegar greiddur hefur verið vinnslu- og dreifingarkostnaðurinn, að svo miklu leyti sem dreifing fer fram í höndum þessara aðila. en allveruleg dreifing fer fram hjá smásöluaðilum sem ekki eru í neinum beinum tengslum við bændasamtökin. Með þessu móti færist ábyrgðin á verðinu yfir á bændurna. Ef áætlaður vinnslu- og dreifingarkostnaður, sá kostnaður sem áætlaður hefur verið til þessara hluta af sexmannanefnd, er of hár, þá fá bændur meira en verðlagsgrundvallarverð fyrir vöru sína. Ég sagði: er of hár, vegna þess að þá verður hann nógu hár til þess að það er hægt að skila meira en verðlagsgrundvallarverði og þetta hefur nokkrum sínum orðið í smáum stíl. Ef hins vegar vinnslu- og dreifingarkostnaður er áætlaður of lágt, þá er ekki hægt að skila bændunum verðlagsgrundvallarverði.

Það, sem gerðist í verðlagningu á s.l. ári, var m.a. það, að þegar upp er staðið í lok árs 1975, þá kemur í ljós að mjög mikið vantar á að hægt sé að skila bændum verðlagsgrundvallarverði á einstökum vörum. Þetta er ekki enn þá fyllilega komið í ljós nema sums staðar. En mér er kunnugt um það, að á svæði Mjólkurbús flóamanna vantar rúmlega 1.80 kr. á það að hægt sé að skila bændum verðlagsgrundvallarverði fyrir árið 1975, og þetta er bein afleiðing þess að kostnaður við vinnslu og dreifingu var of lágt metinn af sexmannanefnd. Það er kannske rétt að geta þess hér, að það var ein sérstök ástæða til þess að svona fór, og hún var sú að verulega minnkaði það mjólkurmagn sem kom til vinnslu- og sölumeðferðar hjá mjólkurbúunum. Ákvörðunin um vinnslu- og dreifingarkostnað, vinnslukostnað mjólkurbúanna og þann dreifingarkostnað sem þau annast, er tekin þannig að fengnir eru reikningar þessara fyrirtækja ásamt þeim rekstrarkostnaði sem þegar hefur beryst á hverju þriggja mánaða tímabili, og þær breytingar, sem fyrirsjáanlegar eru, og síðan er áætlað heildarmagn innveginnar mjólkur sem deilt er í heildarupphæð vinnslu- og dreifingarkostnaðar. Þegar mjólkurmagnið minnkaði, eins og raun varð á s.l. ári, þá lækkaði sú tala sem hægt var að deila með í heildarkostnaðinn, og niðurstaðan varð sú að mjólkursamlögin geta ekki skilað bændum verðinu.

Ég gat þess áðan að mjólkursamlögin yrðu alltaf að skila bændum því verði sem kæmi á hverju ári út úr rekstri. Þessi bú fá auðvitað að afskrifa eignir sínar á eðlilegan hátt, og það hafa þau gert. En sjóðamyndanir eru sáralitlar. Sum mjólkursamlögin leggja smávegis í svokallaðan byggingarsjóð, önnur gera það ekki, og varasjóðir, sem eru afar lítilvægir, eru til, en það eru mjög smáar upphæðir. Þannig er enginn sjóður fyrir hendi, engir fjármunir fyrir hendi til þess að mæta óvæntum auknum rekstrarkostnaði í þessum iðnaði. Þess vegna hljóta áhrifin af auknum rekstrarkostnaði, reyndar alveg eins af minnkuðum rekstrarkostnaði, að koma fram hjá bóndanum. Það verður bóndinn sem annaðhvort hagnast,ef rekstrarkostnaðurinn verður óeðlilega lítill, eða missir af tekjum sínum, ef hann verður mikill á hvern innveginn mjólkurlítra, og sama máli gegnir líka í sláturhúsunum yfirleitt. Þó eru aðeins undantekningar frá því. Það eru til sláturhús sem kaupa sláturféð á föstu verði.

Þetta sölukerfi, sem byggt hefur verið utan um landbúnaðarvörurnar er mér mjög að skapi. Það byggist einfaldlega á þessu, að sá kostnaður, sem nauðsynlegur er, fari til þess að vinna vöruna og dreifa henni, en ekkert þar fram yfir, þar sé ekki neinn möguleiki til þess að safna fjármunum með þessari verslun. Það má raunar segja um landbúnaðarvörur og verðlagningu þeirra, ekki einungis til bænda, heldur líka til þeirra sem vinna hana, að hún hefur á sér visst þjóðnýtingarform. Ef fóðurbætirinn lækkar eða einhver sú hagkvæmni er tekin upp í búskap sem lækkar framleiðslukostnað. Þá á verð vörunnar að lækka eða a.m.k. hækka minna, því að oftast hefur allt færst í þá átt að undanförnu að hækkanir væru á almennu vöruverði. En hins vegar kemur það líka af sjálfu sér, að ef dreifingarkostnaður eykst og rekstrarvörukostnaður hækkar, kaup hækkar, þá hækkar verð þessara vara.

Gagnvart þessu atriði sérstaklega, hvort hafi aukist dreifingarkostnaður í hlutfalli við heildarverð á undanförnum árum, þá get ég ekki komið með mjög miklar upplýsingar, en þó hef ég það hér á blaði að við verðlagningu í ágústlok 1973 var áætlað verð til bænda samkv. verðlagsgrundvelli 71.5% af heildarverðinu. Ég tek fram að niðurgreiðslurnar hafa ekki áhrif á þetta dæmi. Þetta er heildarverðið án þess að niðurgreiðslur hafi þar nokkur áhrif á.

Í ágústlok 1973 var gert ráð fyrir að bændur fengju 71.5% af heildarverði nýmjólkur, en vinnslu- og dreifingarkostnaður yrði þá samkv. því 28.5%. Samkv. verðlagningunni, sem fór fram núna í mars, er gert ráð fyrir, að bóndinn fái 72.3% af heildarverði vörunnar eða hærri prósenttölu en gert var ráð fyrir á árinu 1973. Ástæðan til þess, að vinnslu- og dreifingarkostnaður hækkaði jafnmikið op, raun bar vitni núna við verðlagninguna, var einfaldlega sú, að hann hafði verið metinn of lágur við undanfarna verðlagningu. Ég endurtek það, að verðlagningin nú er hlutfallslega hagkvæmari hvað þetta snertir. Þar er gert ráð fyrir minni hluta af heildarkostnaði, sem fer í vinnslu og dreifingu, heldur en var í ágústlokin 1973. Þetta eru að vísu áætlanir hvort tveggja, en ég man ekki nákvæmlega hvort áætlunin 1973 stóðst fyllilega, en það var a.m.k. mjög nálægt því. Hvort þessi áætlun núna stenst veit enginn enn þá.

Því miður hef ég ekki upplýsingar, sem nokkurt hald er í, um vinnslu- og dreifingarkostnaðarhlutfall af heildarverði landbúnaðarvara í nágrannalöndum okkar. En mér er kunnugt um það að hér er vinnslu- og dreifingarkostnaður lægri en í flestöllum, ef ekki öllum nágrannalöndum okkar. Ég man eftir því að fyrir einum 2–3 árum athuguðum við þetta sérstaklega gagnvart Bandaríkjunum, og þá var þar að vísu nokkuð misjafnt vinnslu- og dreifingarkostnaður eftir því hvaða landbúnaðarvörur voru, en á mörgum vörum var vinnslu- og dreifingarkostnaður meira en helmingur af því verði sem neytandinn greiddi. Ég tel þess vegna að við getum mjög vel við unað vinnslu- og dreifingarkostnaði íslenskra landbúnaðarvara, þegar mið er tekið af almennu verðlagi í landinu, og það sé ekki sérstök ástæða þess vegna til að gagnrýna þessa verðlagningu nú frá því sjónarmiði að þar væri of vel gert við vinnslu- og dreifingaraðilana.

Hér hefur líka aðeins verið minnst á smásöluálagninguna. Það er rétt að taka það hér fram, að sexmannanefnd ákveður smásöluálagningu á landbúnaðarvörur, flestar landbúnaðarvörur, ekki þó allar, ekki t.d. svínakjöt, egg og kjúklingakjöt, og við síðustu verðlagningu lækkaði þessi álagning í prósentum af heildarverði, þó að krónutalan hækkaði í prósentum Það hefur orðið samkomulag um nokkurs konar verðlagsgrundvöll smásöluálagningarinnar, þar sem kaup nemur rúmum 60% af heildarkostnaðinum við smásöludreifinguna og breytingar á álagningu landbúnaðarvara hafa verið í sem nánustu samræmi við breytingar á einstökum kostnaðarliðum sem smásöluverslunin hefur af því að reka verslun. Hitt má svo auðvitað um deila, hvort álagningarprósentan sé rétt, hvort hún sé of há eða ekki. En ég tel að það hafi verið mjög vandlega að breytingum staðið að undanförnu. Það má t.d. geta þess, af því ég man eftir því nú, að álagning á smjör var 8.9% fyrir síðustu verðlagningu landbúnaðarvara en 7.9% eftir síðustu verðlagningu. Þar hafði álagningin lækkað í hlutfalli af verði vörunnar þó að hún hefði hækkað að krónutölu.

Það er áreiðanlega rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, að það er ekki sérstaklega vinsælt verk að verðleggja landbúnaðarvörur og kemur þar ýmislegt til. Öllum er ljóst að íslenskar landbúnaðarvörur eru ákaflega ríkur þáttur í framfærslu hvers einasta heimils í landinu, og það er fátt sem menn verða augljóslegar varir við heldur en þegar breytingar verða á verði þessara vara. Það stendur heldur ekki á hví að menn geti leiðbeint um þessa hluti og hafi skoðanir á því hvort verðlagningin sé rétt og réttmæt eða hvort verðlag á landbúnaðarvörum sé hér við hæfi eða ekki, og mjög algengt er að neytendur og aðrir eru upplýstir um verðlag á landbúnaðarvörum erlendis sem á að sannfæra þá um það að betur væru þessar vörur framleiddar einhvers staðar annars staðar og fluttar hingað inn og seldar á lágu verði neytendum hér. Það getur vel verið að það komi lítið þessu máli við, sem hér hefur verið rætt um, en þó get ég ekki stillt mig um að nefna það að mér er kunnugt um að á s.l. hausti var verð það, sem bændur í Noregi og Svíþjóð fengu fyrir dilkakjöt, til muna hærra en bændur fá hér eða sem nam um 1000 kr. ísl. fyrir 14–15 kg lambsskrokk, og er þá reiknað með því gengi sem í haust var á ísl. kr. Enn fremur er mér kunnugt um að verð á nýmjólk í Svíþjóð óniðurgreitt er til stórra muna hærra heldur en verð á nýmjólk væri hér óniðurgreitt. En hægt er að finna aðrar vörur sem eru á lægra verði, og eitt af því, sem veldur óánægju hjá neytendum, er að hér eru önnur hlutföll á milli verðs á ýmsum framleiðsluvörum landbúnaðarins heldur en tíðkast víða í nágrannalöndum, t.d. allt önnur hlutföll á milli verðs á smjöri og nýmjólk hér heldur en er hjá grönnum okkar á Norðurlöndum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem sjálfsagt væri að taka til skoðunar hvort ekki ætti að breyta og gæti e.t.v. aukið skilning neytenda á verðlagningu landbúnaðarvara.

Áður en ég lýk máli mínu hér, herra forseti, þá langar mig aðeins til þess að minnast á eitt atriði enn, og það eru orð sem hv. 7. þm. Reykv. og hv. 2. landsk. þm. létu falla í sambandi við það að hækkun fjárfestingarkostnaðar færi út í verðlagið. Eins og ég hef verið að reyna að sýna fram á, þá eiga vinnslufyrirtæki landbúnaðarins, mjólkursamlögin og sláturhúsin, ekki annars kost heldur en að aukinn rekstrarkostnaður fari út í verðlagið. (Gripið fram í.) Já, og auðvitað er eðlilegt að fjármagnskostnaður sé lögfestur meðan við verðleggjum á þennan hátt, að ætla bændum sambærilegar tekjur við ákveðnar viðmiðunarstéttir. Eðlilegt er og ekki hægt að komast hjá því að neytandinn greiðir kostnaðinn sem fellur á vöruna frá því að bóndinn skilar henni og þangað til hún kemur í hendur neytandans. Annars getur bóndinn ekki haft sambærilegar tekjur við þessar viðmiðunarstéttir. Og ef það fer svo að það þarf að fjárfesta í mjög dýrum framkvæmdum til þess að sinna þessu verkefni, að vinna vöruna og dreifa henni, þá hlýtur sá kostnaður að koma inn í verðlagið. Hvar á hana annars staðar að koma? Ef bóndinn ætti að greiða þennan kostnað, þá er það á kostnað þeirra launa sem honum ber að hafa samkv. lögum. (Gripið fram í.) Það getur kannske verið umræðuefni hver ætti að eiga vinnslustöðvarnar, og ég tel að ef sá dagur kæmi að hægt væri að sýna fram á að bændur notuðu sér þessi fyrirtæki til sérstaks fjárhagslegs ávinnings, þá gæti það efni komið fyllilega upp hver ætti að eiga þau. Það er rétt að bændur eru taldir eiga þessi fyrirtæki, en það er ekki hægt að sýna fram á það nokkurs staðar að þeir hafi notað sér eignarumráð yfir þessum fyrirtækjum til sérstaks fjárhagslegs ávinnings fyrir bændastéttina. Það er bændum mjög mikið áhugaefni að neytendur fái vöruna með sem sanngjörnustu verði, að það sé sem minnstur munur á því verði, sem bóndinn fær, og því, sem neytandinn fær. Það er bændunum áhugaefni vegna þess að okkur er öllum ljóst að þessar vörur eru dýrar og að það er hægt að ofbjóða kaupgetu almennings. Þess vegna er það mjög nauðsynlegt, ef þessar stéttir eiga að geta lifað hlið við hlið í landinu. bændur og verkamenn, að þeir skilji hver annan og að bóndinn geri það sem í hans valdi stendur til þess að verði þessara vara sé haldið niðri, ekki síst milliliðakostnaðinum. Ég tel mig geta sýnt fram á það með rökum og með samanburði við það, sem annars staðar er, ef ég hefði betri tíma til að afla upplýsinga um það heldur en ég hef haft í dag, að í þessu efni hafa fyrirtæki landbúnaðarins, sláturhús og mjólkursamlög, staðið sig vel, ekki bara gagnvart bændunum, heldur engu siður gagnvart neytendunum. En hitt endurtek ég, að hækkaður kostnaður við rekstur þessara fyrirtækja getur hvergi komið fram annars staðar en í almennt hækkuðu vöruverði.

Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja þessar umr. meira en orðið er. Þó vil ég aðeins geta þess í sambandi við þann lista yfir verðhækkanir, sem alþm. hefur verið selur núna nýlega, og taka undir það, sem hér hefur raunar verið sagt bæði af formælendum ríkisstj. og stjórnarandstöðu, að það er erfitt að skilja á milli, það hlýtur að vera mjög erfitt að finna nákvæmlega út hvaða verðhækkanir stafa af kauphækkunum og hverjar ekki. Þegar lítið er t.d. á svokallaðan verðlagsgrundvöll landbúnaðarins, þá koma kauphækkanirnar þar ákaflega viða inn í. Það er búið að hækka verðið á áburðinum til bóndans, en það er ekki enn komið inn í verðlagsgrundvöll. Hluti af þeirri hækkun, Sem þá verður, er vitanlega kauphækkun, — sú kauphækkun sem komið hefur fram á heilu ári því að það hefur ekki orðið breyting á verði tilbúins áburðar síðan á vordögum s.l. ár. Ef við tökum t.d. lið í verðlagsgrundvelli eins og kostnað við vélar, þá er verulegur hluti af hækkun á þeim líð svokölluð aðkeypt viðgerðarvinna. Sú aðkeypta viðgerðarvinna breytist eftir breytingum á kaupgjaldi. Það eru fleiri liðir þar, eins og t.d. varahlutir. Jafnvel varahlutirnir taka breytingum í verði með breyttu kaupgjaldi. Flutningskostnaðurinn, þær breytingar, sem verða á flutningskostnaðarlið, eru sannarlega mjög tengdar kaupgjaldsbreytingum, og svona mætti lengur telja, viðhald útihúsa, rafmagnið o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að það sé afar erfitt að telja það fram, svo að nákvæmt sé, hvaða verðlagshækkanir má rekja til kauphækkana hverju sinni og hverjar ekki.