30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3424 í B-deild Alþingistíðinda. (2825)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hér eru til umr. í hv. Sþ. tvær þáltill. frá ríkisstj., annars vegar um staðfestingu á niðurstöðu viðræðna um heimildir færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands og hins vegar till. til þál. um staðfestingu á samkomulagi við ríkisstj. Noregs um takmarkaðar veiðar norskra skipa innan fiskveiðilögsögu Íslands.

Við höfum rætt um það, ég og hv. væntanlegir talsmenn stjórnarandstöðunnar í þessum umr., að það kynni að vera fullt svo hagkvæmt fyrir okkur að ræða bæði atriðin í senn, og ef forseti hefur ekkert við það að athuga, þá ætla ég að leyfa mér að hafa framsögu um báðar þessar till. nú, því að ég geri ráð fyrir að menn líti á þessi mál nokkuð í samhengi, og finnst mér það ekki óeðlilegt. En framsaga mín mun ekki verða löng því að hér er um að ræða raunar endurnýjun á samningum sem áður hafa verið í gildi, og ég held að það sé fullnægjandi fyrir mig í framsögu að geta um þær breytingar sem orðið hafa á þessum samningum við þá endurnýjun sem fram fór og ég er hér að ræða um og við sem til máls kunnum að taka.

Viðræðurnar við færeyinga fóru fram 12. mars 1976, og á fundi utanrmn. föstudaginn 19. mars leyfði ég mér að gera þeirri hv. n. grein fyrir þeim og jafnframt að láta þess getið hverjar breytingar hefðu orðið helstar við samningsuppkastið miðað við samkomulagið við færeyinga er féll úr gildi 13. nóv. s.l. Þessar breytingar eru þær helstar, að samkv. gamla samkomulaginu mátti heildaraflinn vera 20 þús. tonn á ársgrundvelli og þar var ekki tiltekið hver þorskaflinn mætti vera, og til upplýsinga er rétt að geta þess, að heildarafli færeyinga á Íslandsmiðum árið 1974 varð 19 407 tonn, en um áríð 1975 hef ég eigi upplýsingar að svo komnu máli. Þá var ekki heldur tiltekið hver þorskaflinn mætti vera, en hann varð 12 125 tonn á því ári. Í því samkomulagi, sem hér er lagt fyrir hv. Alþ., er gert ráð fyrir að heildaraflinn megi vera 17 þús. tonn og að þorskafli verði þó ekki meiri en 8 þús. tonn. Hér er að vísu ekki um mikinn niðurskurð að ræða, það skal viðurkennt. En ég tel þó að með því að takmarka þorskaflann, með því að takmarka afla á þeirri fisktegund, sem hvað verst er á vegi stödd í hafinu umhverfis Ísland, sé hér allmikill ávinningur á ferðinni. Nú eru færeyingum alveg bannaðar saltfiskveiðar með togskipum, en áður höfðu þeir leyfi til að stunda slíkar veiðar með tveimur togurum á vissu tímabili ársins.

Samkomulagið er eins og áður uppsegjanlegt með & mánaða fyrirvara.

Að öðru leyti er ekki í þessari þáltill. um niðurstöður viðræðna um heimildir færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands að ræða, nema að því er viðkemur nokkrum grunnlínupunktum sem eru færðir til samræmis við reglugerðina um útfærsluna í 200 mílna lögsögu, en eins og öllum hv. alþm. er kunnugt var grunnlínupunktum lítillega breytt í reglugerðinni frá 15. júlí s.l. frá því sem þeir höfðu verið í fyrri reglugerð.

Það er auðvitað ástæðulaust að geta um það, það leiðir af líkum og mátti ganga út frá því sem gefnu auðvitað, að færeyingar vildu fá meiri aflaheimildir. Þeirra lágmarkskrafa var upphaflega að halda samningnum eins og hann var og helst þó að auka við hann. Það þótti að sjálfsögðu útilokað. Og um það má deila hvort frekari niðurskurður hefði átt að koma til en hér varð þó niðurstaðan. En mörgum fannst og finnst, hygg ég, að færeyingar hafi hér allmikla sérstöðu, þar sem þeir eru a.m.k. ekki síður háðir fiskveiðum en við og kannske í enn ríkara mæli ef hægt væri.

Ég held, að ég láti þessa framsögu duga um færeyska samkomulagið, en sný mér þá að því norska, með leyfi forseta eða a.m.k. án mótmæla forseta. Þær viðræður fóru fram 10. mars s.l., eða 10. f. m., og eru í líkum dúr og var samkomulag um frá 1973. Þær breytingar, sem eru helstar, eru þær að á tímabilinu frá 1. des. til 15. febr. eru þessar línuveiðar nú bannaðar. Það var ekki tekið fram í fyrra samkomulagi, en mun að vísu ekki hafa verulegt gildi þar eð norðmenn munu ekki hafa stundað þessar veiðar á þessu tímabili. Þó þótti rétt að festa þetta með samningum skilyrðislaust þannig að enginn vafi væri á því. En ég álít að mikilvægasta ákvæðið, sem er að finna í samkomulaginu við norðmenn, sé það, að í því eru ákvæði um að íslensk stjórnvöld muni ákveða hámarksafla, þ. á m. þorskafla. Nú hefur þetta enn ekki verið gert, en hlýtur að verða gert mjög bráðlega því að nú hafa þegar borist umsóknir frá norskum fiskiskipum að hefja hér þær veiðar sem samkomulagið tekur til.

Þessi norski samningur fjallar um sáralítið efni. Veiðar norðmanna voru árið 1974 1453 tonn og þar af voru 171 tonn af þorski, þannig að hér er um mjög lítið magn að ræða, eins og hv. þm. sjá, og er aðallega um að ræða keilu, sem nær þó 893 tonnum á því ári sem ég hef lagt hér til grundvallar.

Það var stefna núv. ríkisstj. eins og þeirrar fyrri að gera samninga við þessar þjóðir, sem ég hef hér nefnt, og auk þess belga, og þegar það var gert á sínum tíma, þá voru ekki andmæli við því. Samkomulagið við Belgíu fór til hv. utanrmn. einhvern tíma fyrir jólahléið, ég man ekki nákvæmlega hvaða dag það var. Það hefur ekki komið þaðan. En ég vil leyfa mér, herra forseti, að fara fram á það að þegar þessari umr. verður nú frestað, hvenær sem það kann að verða, í dag eða síðar, þá verði málum þessum tveim vísað til hv. utanrmn., og ég beini þeim eindregnu tilmælum til þeirrar hv. n. að hún láti ekki dragast að afgreiða þessi mál þrjú, samkomulagið við Belgíu einnig, því að ég tel það óviðkunnanlegt og kann því illa að framkvæma samkomulag sem Alþ. hefur ekki lagt blessun sína yfir. Hins vegar má auðvitað geta þess og kannske til nokkurrar réttlætingar á því að hafin er framkvæmd á samkomulagi, sem Alþ. hefur ekki staðfest, að yfirgnæfandi meiri hl. utanrmn. hefur lýst sig þessum þáltill. fylgjandi og þeim samkomulagsþáttum sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Samkomulagið við norðmenn var, auk þess að vera rætt í utanrmn., rætt í landhelgisnefnd, af því að svo vildi til að fundur var í landhelgisnefnd um annað mál fyrst og fremst. En sú aðferð var ekki viðhöfð um samkomulagið við færeyinga og má e.t.v. að því finna. En vandséð er þó verkaskiptingin milli landhelgis- og utanrmn. að því er til slíkra tilvika tekur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja hverjar undirtektir till. fengu í einstökum atriðum í þeim n. sem ég hef hér minnst á að ræddu málin. Það munu vafalaust aðrir gera.