30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3433 í B-deild Alþingistíðinda. (2828)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Hér liggja fyrir till. um staðfestingu Alþ. á breyttu fiskveiðisamkomulagi við tvær norrænar þjóðir. Breytingarnar eru ekki stórvægilegar hvað það varðar hvert aflamagn þeim er ætlað samkv. þessum till., samanborið við þær reglur sem áður giltu. En hins vegar hafa tvímælalaust orðið verulegar breytingar nú á síðustu missirum á viðhorfum manna og vitneskju, a.m.k. almennri vitneskju í landinu um það hver skilyrði fiskveiðum á Íslandsmiðum eru búin. Að mínu viti þarf að líta til þessa hvors tveggja þegar afstaða er tekin til þeirra mála sem hér eru rædd í einu, þótt tvenn þingmál séu, og efni málsins samkv. tel ég það mjög eðlilegt.

Hvað varðar till. um staðfestingu á þeirri niðurstöðu, sem varð af viðræðunum við norðmenn, er í mínum huga þýðingarmest að þar er íslendingum alfarið veitt sjálfdæmi um hvaða aflamagn þau norsku skip, sem þar er um rætt, mega taka innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Þetta er vissulega mjög þýðingarmikið atriði. En ég tel eðlilegt að Alþingi og þjóðin eigi heimtingu á því að fá jafnframt vitneskju um það hver mörk hæstv. ríkisstj. ætlar þarna að setja. Svo langur tími er liðinn frá því að þetta samkomulag var gert að hlutaðeigandi stjórnvöld hljóta að hafa gert upp hug sinn um það hvaða aflamagn, bæði heildaraflamagn og þorskaflamagn, norðmönnum sé ætlað. Komi ekki upplýsingar um það fram í þessum umr, vil ég mega vænta þess, að þær verði fyrir hendi þegar mál:ð kemur til meðferðar í nefnd.

Varðandi till. um staðfestingu á niðurstöðum viðræðna við fulltrúa færeyinga er það að segja, að þar er gert ráð fyrir tiltölulega lítilli aflaminnkun frá því sem verið hefur, en þó hlutfallslega nokkurri á þorskaflanum. Sömuleiðis hefur það tvímælalaust þýðingu að þar er girt fyrir veiðar færeyskra togara í salt sem þeir hafa stundað samkv. fyrra samkomulagi og með miklum árangri að þeirra dómi sem með því fylgjast. Vissulega er það hverju orði sannara að færeyingar eru eina þjóðin í nágrenni okkar sem segja má að sé á sama báti og við og byggi afkomu sína yfirgnæfandi á sjávarafla. Og vegna gamalla tengsla þjóðanna og nýrra er ekki nema eðlilegt að íslendingar vilji líta á þörf færeyinga framar öllum öðrum sem um er að ræða. En eins og aðstæður hafa breyst, þá er nauðsynlegt að skoða gaumgæfilega hvað langt við getum gengið til að mæta óskum þeirra.

Það liggur fyrir að hæstv. ríkisstj. telur og ég tel að það sé í samræmi við, ríkjandi skoðun með þjóðinni að ekki sé annars kostur en að takmarka afla á þorski á Íslandsmiðum eins og nú standa sakir. Þetta mál hefur mjög verið rætt hér á þingi og utan þess. Álitsgerðir hafa komið fram um þessi mál. En þótt nú sé liðinn þriðjungur árs, bólar ekki á neinni niðurstöðu frá stjórnvöldum. Engin vitneskja liggur fyrir um að hæstv. ríkisstj. hafi nokkra ákvörðun tekið um hversu þeim aflatakmörkunum verði háttað sem flestir telja að hljóti að koma á þorskafla okkar íslendinga sjálfra.

Þegar afstöðu á að taka til till. um veiðisamninga við aðrar þjóðir, er það að mínum dómi eðlileg krafa að jafnframt sé lögð fram vitneskja um það hver afli okkur íslendingum sjálfum er ætlaður, a.m.k. á því ári sem nú er að líða. Það er mjög erfitt að taka ákvarðanir um aflamagn öðrum til handa þegar alveg er rennt blint í sjóinn með það hvaða aflamagn íslendingum sjálfum er ætlað, því að hvert þorsktonn, sem fiskimenn annarra þjóða fiska við Ísland, er tekið af þeim afla sem við íslendingar gætum annars sjálfir dregið hér úr sjó. Því vil ég mega vænta þess að skýrt verði frá því af ríkisstj. hálfu, ef ekki í þessum umr., þá a.m.k. í meðförum n., hverjar till. hún muni gera, hverjar ákvarðanir hún muni taka um það aflamagn, það heildaraflamagn, sem óhætt sé að veiða á Íslandsmiðum af þorski á þessu ári, og þannig sjáist hver hlutur okkar íslendinga verður ekki síður en hver hlutur fiskimönnum annarra þjóða er ætlaður.