30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (2829)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseli. 1972 sendi Hafrannsóknastofnunin þáv. sjútvrh. umsögn sína og álit um ástand fiskstofnanna og jafnframt aðvörun um það að takmarka mjög verulega sóknina í þorskinn. Ástandið var ekki síður alvarlegt þá en nú. En þrátt fyrir það að þessi aðvörun var send var samið um veiðar við erlendar þjóðir, m.a. við breta um 130 þús. tonn og við frændur okkar færeyinga, þar sem ekki voru sett nein aflatakmörk á, og samið var við norðmenn. Þá var samið um veiðar við belga. En það náðust ekki samningar við vestur-þjóðverja. Og þessum samningum greiddu allir þrír ræðumennirnir, sem voru hér á undan, og raunar allir fjórir greiddu þeim atkv. Ég fyrir mitt leyti greiddi atkv. með öllum samningunum nema samningunum við breta.

Nú skulum við aðeins hugleiða hvort ekkert hefur gerst síðan, hvort það hafi ekki verið tekið tillit til þess ástands sem er. Hefur það virkilega farið fram hjá hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hefur gerst undanfarna mánuði? Það hefur verið gerð með margvíslegum aðgerðum stórfelld minnkun á sókn í þorskveiðar, með margvíslegri reglugerðaútgáfu sem hefur verið gerð í fullu samráði og í flestum tilfellum eftir till. Hafrannsóknastofnunarinnar til þess að draga úr sókninni. Það hefur verið gefin út reglugerð um aukna möskvastærð í botnvörpu. Það hefur verið gefin út reglugerð um stækkun möskva í dragnót. Það hafa verið selt ný friðunarsvæði og því hefur verið fylgt eftir mjög ákveðið. Þó eru til raddir sem hreinlega furða sig á því að það séu teknir menn, ef þeir eru alenskir, við brot á veiðum. Það liggur fyrir hér í seinni d., í Nd., frv. um upptöku á ólöglegum afla, sem vonandi verður orðið að lögum í næstu viku. Allt þetta eru aðgerðir sem leiða af sér minnkandi sókn og aukna friðun á þorski sérstaklega. Ég vona að ræðumenn hafi ekki alveg gleymt þessu, þó að þeir hafi gleymt því í ræðum sínum áðan.

Hvað er svo meira sem er að gerast? Jú, Alþ. hefur ekki tekið ákvörðun um hve mörg kg af þorski á að veiða á árinu 1976, sögðu þeir. En það hefur einn hv. þm. flutt um það till., sem liggur fyrir. Hún er enn þá fyrir Alþ. Ég hef lýst því yfir í landhelgisnefnd, sem hv. 2. landsk. þm. á sæti í, að ég hef talið að það væri fært að ákvarða þorskveiðina við 20 þús. tonn á þessu ári. Stjórnunarnefnd fiskveiða hefur einróma samþykkt þessa till. og þar með fulltrúar Hafrannsóknastofnunarinnar í þeirri n. Hún hefur aldrei verið formlega borin undir ríkisstj., en ég hygg að ég megi segja og ég þori eiginlega að fullyrða það, að ríkisstj. er einnig þessarar skoðunar. Ég hef ekki heyrt nokkurn tíma nokkurn ráðh. líta öðruvísi á þessi mál.

Þá kem ég að því: Eigum við að setja eða áttum við að setja ákveðna till. fram í byrjun þessa árs um að stöðva veiðar, taka upp net í páskavikunni eða lengur, stöðva botnvörpuveiðar eða togarana um allt land? Verðum við ekki að taka mið af því, hvernig ástandið er, hvernig þessi vertíð fór til marsloka og fram í apríl? Það var steindauð vertíð frá Hornafirði og að Breiðafirði. Það er stórfelldur samdráttur á vertíðarafla, en lítilfjörleg aukning á togaraafla. Þannig horfa málin við frá mínum bæjardyrum séð. Ég tel gersamlega útilokað að setja ákveðnar reglur sem eiga að gilda allt árið. Ef við sjáum að þorskaflinn ætlar að fara mikið fram úr þessu og ef aflamagn þetta er veitt þegar kemur að hausti, þá verðum við að grípa til stöðvunar á flotanum á tilteknu tímabili, 1–2 vikur. En við getum ekki ákvarðað það fyrir fram. Við verðum að taka tillit til þess hvað er að gerast í kringum okkur og hvað við getum gert meira til þess að beina flotanum yfir á aðrar veiðar.

Það má t.d. nefna að á s.l. ári var aflakvóti humarveiða 2300 tonn. Nú liggur fyrir till. frá Hafrannsóknastofnuninni um að auka þennan kvóta í 2800 tonn. Við getum dregið enn meira úr sókninni í þorskinn og aukið á þennan hátt sóknina í humar. Við höfum í hyggju að auglýsa nú þegar eftir umsóknum um veiðileyfi og ætlum að láta byrja þessar veiðar nokkru fyrr en á s.l. ári til þess að ekki skapist hlé frá því að vertíð lýkur. Á þennan hátt ætlum við að draga úr sókninni í þorskinn. Við höfum einnig í hyggju að auka verulega sóknina í aðrar veiðar og þá alveg sérstaklega í karfann. Hafa staðið yfir alllengi samningar um leigu á stórum togara til að fara í þessa karfaleit og karfaveiði, og ef hún gefur góða raun, sem fiskifræðingur sá, sem henni stjórnar, hefur mikla trú á og eru vonir um, þá fari fleiri skip á þessar veiðar. En þar er einn mikilvægur galli, en það er verðlagið sem er á karfa. Hyggilegast væri að setja jafnaðarverð eða lækkun á þorski til þess að verðbæta aðrar fisktegundir. Vilja hv. stjórnarandstæðingar standa að slíkri till. og hv. stjórnarstuðningsmenn líka? Hvað verður sagt þá ef lækka á verðið á þorski og bæta bæði verð á karfa og ufsa? Vilja þm. standa almennt að því? Ég er hræddur um að Alþ. muni starfa eitthvað fram eftir sumri áður en samkomulag næst í þeim efnum hvað þá heldur við þá sjómenn sem fiska þorskinn, þó að hinir væru fúsir, sem ætla að fara í karfann, að fallast á slíkt. Það er ekki auðhlaupið að því að gera slíkar breytingar.

Þá kem ég að því, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa verið að tala hér um, að við höfum ekkert svigrúm til þess að gera nokkurn samning við aðrar þjóðir, þetta sé svo takmarkaður afli og það sé svo takmarkaður og illa farinn þorskstofninn að við megum ekki gera nokkurn samning. Þetta er alveg hárrétt, það sem það nær. En þá komum við að því: Höfum við ráð á því að fá allar þjóðir upp á móti okkur? Hefur málstaður okkar á Hafréttarráðstefnunni ráð á því að hver þjóðin á fætur annarri standi þar upp og segi: Þessir íslendingar eru svo óbilgjarnir að þeir vilja ekki ræða samninga við aðrar þjóðir? Halda menn virkilega því fram að það hefði orðið til styrktar málstað íslensku þjóðarinnar á Hafréttarráðstefnunni ef hægt hefði verið að skýra frá því að íslendingar hefðu ekki viljað gera veiðisamning við frændur sína færeyinga, sem eiga allt sitt líf og tilveru komna undir fiskveiðum og fiskvinnslu? Ég er hræddur um að málstaður okkar íslendinga hefði orðið fyrir þungu áfalli ef hægt hefði verið að flytja slíkar fréttir af framkomu okkar.

Hvað erum við svo að gera sjálfir? Við erum að leita eftir veiðum á fjarlægum fiskimiðum. Við tökum þátt í samstarfi Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar um síldveiðar í Norðursjó. Við viljum gjarnan fá sem hæstan aflakvóta þar fyrir okkur. Við viðurkennum aftur að það eigi að setja mjög strangar ákvarðanir um heildaraflakvóta á síldveiðarnar á Norðursjónum og jafnframt að það eigi ekki að veiða þar síld nema til manneldis. Við viljum fá hlutdeild í aflakvótanum af því að við höfum veitt í Norðursjónum, og við höfum haldið þessari hlutdeild. Það er mikil óánægja eftir síðasta fund, sem haldinn var í London, og við íslendingar erum óánægðir með lækkaðan aflakvóta þótt við hefðum fellt okkur við lægri heildarkvóta. Það er gefið mál að einstakar þjóðir og þá sérstaklega norðmenn munu ekki sætta sig við þessa útkomu, og það verður framhaldsaðalfundur seint á næsta mánuði í Lissabon þar sem þessi mál verða tekin upp að nýju. Við höldum áfram okkar striki. Við viljum fá þarna aflakvóta og við þurfum sannarlega að koma okkar skipum á veiðar, — skipum sem geta ekki stundað annað en nótaveiði, sérstaklega hinum sérbyggðu nótaskipum og einnig fleiri skipum sem eru ella aðgerðalaus.

Við erum einnig að berjast fyrir því að fá aukin veiðiréttindi á loðnu við Kanada. Það hefur tekið alllangan tíma og staðið í miklu stappi að undanförnu, en ég hygg ég uppljóstri ekki neinu leyndarmáli, þó að ég segi að allar líkur bendi nú til að við fáum samninga við Kanada um að landa þar 20–25 þús. tonnum af loðnu á komandi sumri, sem mundi þýða að þrjú slík skip gætu stundað þar veiðar. Jafnframt hef ég miklar vonir um að við fáum leyfi og réttindi til þess að landa í norska bræðsluskipið Norglobal 15 þús. tonnum. Þarna getur verið um að ræða 35–40 þús. tonn af loðnuveiði við Kanada í sumar. Með þessu móti, að ná samkomulagi við kanadamenn, koma þeir til með eftir útfærsluna að ráða algerlega sjálfir þessum veiðum, og þá höfum við gert samning við þá sem gefur okkur tilefni til að ætla að við getum haldið þessum veiðum áfram ú komandi árum með því að falla frá mótmælum út af aflakvótunum sem Norðvestur-Atlantshafsnefndin gekk frá í fyrra, og þar með náum við samningum við strandríki sem við höfum unnið að.

Sama er að segja um veiðar okkar við Grænland. Þegar fiskveiðilögsagan verður færð út við Grænland, þá þurfum við sannarlega á samningum við grænlendinga að halda. Grænlendingar eru í ríkjasambandi við dani eins og færeyingar, og það væri gott innlegg hjá okkur að neita færeyingum um alla samninga og eiga svo að koma eftir kannske eitt ár og biðja um veiðiheimildir við Grænland. Það væri nú stjórnmálamennska í lagi!

Hv. 3. landsk. þm. spurði varðandi norska samninginn. Ég ætla ekki að fara neitt út í hann frekar, hæstv. utanrrh. gerði það í sinni framsögu og þar hef ég engu við að bæta. En því get ég bætt við, að það, sem snýr að sjútvrn. — og ég hygg að ég megi þar tala fyrir ríkisstj. í heild þó að ég hafi ekki fyrir fram spurt um það - er að við ætlum okkar að framfylgja þeim samningi og þeim veiðiheimildum á svipaðan hátt og verið hefur á undanförnum árum. Hins vegar er auðvitað erfitt að segja ákveðið upp á tonn af hverri tegund því að það eru margir bátar sem veiða í einu, þannig að það getur leikið á nokkrum tugum tonna. Þorskafli norðmanna er nú svo lítilfjörlegur, en hann var 171 tonn hér við land á árinu 1974 og meira að segja minni á s.l. ári eða 142 tonn. Við fáum ársfjórðungslegar skýrslur frá norðmönnum og þá getum við auðvitað fylgst með sundurliðuninni. Hins vegar hefur uppistaðan í þessum afla norðmanna verið keila og langa, og það hefur verið nokkuð breytilegt frá ári til árs. Stundum hefur þetta verið nokkuð áþekkt, eins og t.d. á árinu 1970. Þá var langa 1247 tonn og keila 1288 tonn. Þá veiddu norðmenn hér liðlega 3800 tonn. 1971 veiddu þeir 3500 tonn, 1972 2600 tonn og 1973–1975 frá 1450–1850 tonn, þannig að þessar veiðar hafa dregist verulega saman, og á s.l. ári, árinu 1975, voru af þessum 1850 tonnum 1614 tonn langa og keila. Ég vona, að ég hafi svarað þá þessari fsp. hv. þm.

Varðandi færeyinga, hvort þeir verða að sæta minni niðurskurði á afla en við íslendingar komum til með að sæta, þá vil ég svara því til að við íslendingar eigum ekki að sæta neinum niðurskurði á afla nema þorski, en aftur aukningu á ýmsum öðrum tegundum og þ. á m. á mjög verðmiklum fiski, eins og ég nefndi áðan, þar sem humar er og ég kem inn á síðar um annan verðmætan fisk. En ef við lítum á þorskafla færeyinga á liðnum árum, þá var hann á árinu 1974 12125 tonn, en samkv. samningnum má hann vera að hámarki 8 þús. tonn. 1973, eftir að aðvörunin kom og enginn toppur var settur á veiðar færeyinga, þá fór þorskafli þeirra í hvorki meira né minna en 14 200 tonn. Það er því ekki lítill niðurskurður sem er gerður gagnvart færeyingum og meiri niðurskurður en aflamagnið segir til um, því að þegar skip veiða í salt, þá er ekki verið að hugsa um það þó að smáfiskur sé með. Það er hægt að vinna hann um borð, og voru oft mjög stífar aðdróttanir í þeim efnum, að þessir saltfisktogarar væru oft í smáfiski. Þetta er tekið af færeyingum nú með þessum samningi. Þessi samningur segir nákvæmlega til um það hve hátt þeir mega fara í afla, en hins vegar má segja það og segja með réttu, að niðurskurður þeirra er tiltölulega minni á öðrum fisktegundum, er, mjög mikill eins og ég hef þegar sagt frá og skýrt frá hvað snertir þorskveiðarnar.

Hv. 2. landsk. þm. sagði að danir hefðu sniðið færeyingum þröngan stakk í landhelgismálinu, og það er alveg rétt. Eigum við þá virkilega að þrengja enn þá meira þennan stakk, sem danir hafa sniðið færeyingum, með því að neita þeim um allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum? Ég segi: Það kemur ekki til greina hvað mig snertir að ég vilji taka þátt í því, enda virðist ég þá vera orðinn meiri jafnaðarmaður en hv. formaður íslenska Alþfl. er í viðhorfi sínu til færeyinga. Mér finnst leiðinlegt að heyra að jafnágætur og skýr maður og hv. 2. landsk. þm. er skuli láta slík orð frá sér fara. Mér finnst mjög leiðinlegt að það skuli hafa komið fyrir hann. En það er oft erfitt þegar menn ætla a:ð leika á mjórri linu, þá er jafnvægið kannske ekki alltaf í sem bestu lagi.

Þrátt fyrir það ástand sem er bæði í efnahagsmálum okkar og fiskveiðimálum, þá tel ég, og er sammála hv. 2. landsk. þm. um það, að samningurinn við norðmenn sé mikill sigur fyrir okkur. En ég er svo aftur sammála hv. þm. Gils Guðmundssyni og fleirum alþb.-mönnum, eins og hann orðaði það, að það sé aftur sanngjarnt að semja víð færeyinga. Við sjáum aftur, hverjir eru Gils Guðmundsson o.fl. í Alþb., þegar kemur að atkvgr., og hverjir eru þá hinir. En þetta er það sem Gils Guðmundsson o.fl. segja og vilja. Það finnst mér vera sanngjörn og eðlileg afstaða til færeyinga, sem við höfum vissulega skyldur við. En við erum ekki bara að láta af hendi. Við erum einnig að tefla hér tafl, við þurfum að leita samninga hjá öðrum þjóðum í sambandi við fiskveiðar okkar, bæði nú og í framtíðinni. Þessu mega þm. alls ekki gleyma.

Til viðbótar því, sem ég sagði áðan um á hvern hátt við hyggjumst draga úr sókninni í þorskstofninn, þá mun koma hér fyrir Alþ. í næstu viku efnahagsmálafrv. frá ríkisstj. og í því frv. er að finna fjáröflun til friðunar- og fiskverndarmála sem er komin undir hve hárri upphæð Alþ. vill verja og hvernig Alþ. vill afla fjár til þeirra hluta. Þess vegna er ekki á þessu stigi, fyrr en það mál liggur ákveðið fyrir, hægt að segja hvernig við ætlum að efla enn frekar fiskrannsóknir. Það liggur þegar fyrir heimild ríkisstj. um að taka togara á leigu. Það, sem fyrir okkur í sjútvrn. vakir og er í fullu samræmi við óskir og þarfir Hafrannsóknastofnunarinnar, það er í fyrsta lagi að gera viðtæka leit að loðnu. Rannsóknastarfi rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunarinnar hefur verið gerð ný áætlun til samræmis við þetta, og er þar gert ráð fyrir að loðnuleit fyrir Norðurlandi hefjist um mánaðamótin júní—júlí, eða mig minnir nánar tiltekið 2. júlí. Jafnframt því þarf, eftir því sem fjármagn leyfir, að fá góð loðnuveiðiskip til þess að stunda þessar veiðar. Er mikil frú og bjartsýni ríkjandi hjá þeim fiskifræðingum okkar sem fjalla um þessi mál að þessar veiðar megi takast þó að þær hafi borið mjög lélegan árangur á s.l. ári. Jafnhliða þessu er ætlunin að hefja viðtæka leit að úthafsrækju og taka ábyrgð á eða styrkja með eðlilegum hætti útgerð a.m.k. tveggja rækjuveiðiskipa. Þessi veiði á að geta orðið arðbær því að það er gott verð á rækju og sama má einnig segja um loðnuna. Þá er ætlunin, þegar sá togari sem er verið að falast eftir í leigu fyrir Hafrannsóknastofnunina, tekur til starfa, þá komi hann til með fyrst og fremst að leita að nýjum karfamiðum og kemur einnig til greina að auka þá leit eftir því sem fjármagn leyfir. Jafnframt verður gerð leit að kolmunna, og vafalaust verður gerð einhver leit að spærlingi.

Allt þetta miðar að því að draga úr sókninni í þorskinn. En hins vegar er sá galli á, t.d. hvað spærlinginn snertir, að verðið á honum er það lágt að útgerð og vinnsla borgar sig ekki nema það verði breyting til hins betra. Þetta er nú nokkuð, auk þess sem ég hef áður sagt hér varðandi veiðar annars staðar sem að er stefnt.

Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði, að leitað hefði verið til stjórnvalda til þess að koma skipum á aðrar veiðar, þá hef ég ekki orðið var við að það hafi verið leitað til stjórnvalda. Hins vegar sá ég á samtali í Tímanum fyrir nokkrum dögum að leitað hefði verið til stjórnvalda varðandi veiðar á kolmunna. Ég fór að reyna að grafast fyrir þetta, hver þessi stjórnvöld væru, því að sjútvrn. hafði ekkert fengið og ekkert heyrt um það. Þá frétti ég að síðustu að það hefði komið í þessum mánuði bréf til Fiskimálasjóðs um einhvern styrk. Það bréf fer fyrir Fiskimálasjóð, en ég hef ekki orðið var við að þessar beiðnir hafi komið nema í sambandi við tilraunir með rækju, Hins vegar hefur verið greitt fyrir vinnslu á kolmunna, sem er tilraunavinusla, og það er unnið að leit að mörkuðum fyrir hertan kolmunna til Nígeríu. Hefur verið seld þangað sending til reynslu og gefur góða raun, en við þurfum að reyna enn meira á það á þessu ári. Enn fremur hefur hann verið sendur og seldur til Bandaríkjanna frystur. En þetta verður auðvitað engin stórmarkaður og í raun og veru enginn markaður sem teljandi er á þessu ári. Slíkt tekur lengri tíma.

Ég vona að hv. stjórnarandstæðingar skilji það til hlítar að erfitt er að gera heildaráætlun um að það skuli fiska þetta á þessu almanaksári, á sama tíma og við höfum ekki heildarstjórn veiðanna vegna hinna ólöglegu veiða breta og ýmissa erfiðleika hér heima. Íslendingar láta ekki sérstaklega vel að stjórn, og við höfum séð og heyrt hvernig þó nokkuð margir íslenskir fiskimenn hafa tekið friðunaraðgerðum. Það er oft léttara að tala um friðunaraðgerðir þegar menn benda á misgerðir annarra, en gleyma því aftur að þeir eru kannske sjálfir sekir, þessir miklu friðunarmenn. En það almenningsálit er að skapast á Íslandi að það er ekki litið á það sem smáhrekk að stela fiski af friðuðum svæðum eða veiða með ólöglegum hætti. Og slíkt almenningsálit verður að verða enn sterkara og það á að vera hvað sterkast hér á Alþingi.

Ég gat ekki látið hjá líða en fara um þetta mál þessum orðum vegna þeirra aths. sem fram komu varðandi það að ekkert hafi heyrst um stjórnun fiskveiðanna.