03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3449 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

210. mál, orlof

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að fullnaðarafgreiðslu í þessari hv. d. á þessu frv. um orlof var frestað vegna fram kominna brtt., sem ég flutti hér við 3, umr. Ég vona að hv. þm. hafi haft tíma til þess að kynna sér þessar brtt. og sjái sér fært að samþ. þær, helst allar, enda eru þessar brtt. fluttar til þess að einfalda meðferð orlofsfjár, einfalda það hlunnindakerfi sem í gangi er og mikið hefur verið deilt á. Það er einnig flutt til þess að koma á meira réttlæti.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði í framsögu minni fyrir þessum brtt., að samkvæmt 13. gr. frv. er mönnum bannað að nota sinn orlofstíma á þann hátt sem þeir vilja sjálfir. Þeim er bannað að vinna sér inn tekjur í sinni atvinnugrein eða skyldum atvinnugreinum ef þeir kjósa það frekar en að fara í frí. Ég sjálfur er þannig gerður að ég get alls ekki tekið frí, og ég vil ekki með lögum láta banna mér að vinna það sem ég hef valið mér sem ævistarf, bara vegna þess að ég á að vera í fríi samkv. lögum. Ýmislegt getur gert nauðsynlegt fyrir hvern einn að vinna sér inn tekjur. Það getur verið að hann þurfi að afla sér aukinna tekna vegna húsbyggingar, vegna þess að hann eigi börn í skóla eða í annan kostnað til heimilishalds, en samkvæmt þessum lögum er honum óheimilt að starfa. Ég held líka að öllum sé ljóst að það er um þessi lög eins og um mörg önnur að fólkið fer ekki eftir þeim. Ég geri ekki ráð fyrir því að framkvæmdavaldið beiti þá þeim aðferðum sem það hefur, þ.e.a.s. lögreglu, til þess að stöðva fólkið við að vinna fyrir sér í orlofstíma ef það óskar eftir því.

Ef ég man rétt er það 14. gr., sem ég tel líka óeðlilega, en það er að eignaupptaka skuli eiga sér stað á orlofsfé ef þess er ekki vitjað innan 2 ára. Ég geri mér grein fyrir því að áður fyrr var þetta tímabil bara eitt ár, nú hefur það verið lengt í 2 ár, þannig að þeir, sem fjölluðu um þessar breytingar á orlofslögunum, gera sér líka ljóst að eitt ár var of stutt. Ég geri mér ljóst að 2 ár eru of stutt, bankakerfið hefur rétt til að fyrna sparifé á 15 árum, en hefur ekki notað sér þá heimild. Ég tel að þarna sé um eignaupptöku að ræða og vil því breyta til.

Sem sagt, ég vona að hv. þm. hafi haft tíma til að kynna sér þessar brtt. mínar og sjái sér fært að samþ. þær.