03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3452 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

257. mál, jarðalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Út af fyrir sig er það fagnaðarefni að sjá frv. til jarðalaga aftur komið hér á dagskrá. Ég hef ekki átt þess kost að fara fyllilega yfir samanburð á því frv., sem var hér til umr. fyrir tveim árum, og því frv., sem nú liggur fyrir. Við fljóta yfirsýn sýnist mér að frv. hafi ekki tekið neinum sérstökum breytingum til batnaðar, sum atriði sýnist mér hins vegar öllu miður fara, en það kann að vera rangt og koma betur í ljós við nánari athugun. Tilgangur frv. er sá sami og var með frv., sem lagt var hér fyrir 1973–74, þ.e.a.s. að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda.

Ég man eftir því að við umr. um þetta frv. þá greindi ég frá umsögn ýmissa ágætra bænda sem ég hafði sent þetta frv. Í einni umsögninni stóðu þau orð, sem mér urðu mjög hugstæð og ég tók fyllilega undir og ætla hér að hafa upp aftur, með leyfi hæstv. forseta, en þar sagði þessi bóndi svo orðrétt í niðurlagi umsagnar um það frv. „Takist að ná tilgangi þeirra,“ þ.e.a.s. jarðalaga, „með ótvíræðri lagasetningu er stórt og afdrifaríkt skref stigið til verndar tilveru og hagsæld búnaðar og landsbyggð. Það er lífsnauðsyn þjóðarinnar að útiloka peningavaldið og braskarana frá ítökum í landinu. í öllum greinum er það höfuðbölvaldurinn, þ.e.a.s. peningavaldið, en hvergi þó eins háskalegur. Mér sýnist að ef frv. þetta nær lögfestu að verulegar skorður séu við því reistar ef þeir, sem á verðinum eiga að vaka, bregðast ekki.“

Undir þessi orð þessa ágæta bónda — stórbónda — get ég fyllilega tekið. Og ég vona, að framkvæmd á þeim jarðalögum, sem við erum nú að fjalla um, ef að lögum verður, verði með þeim hætti sem hann lýsir hér.

Ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega samanburð á greinum. Ég sé að sumt hefur verið fært saman og þess vegna öllu erfiðara að átta sig á því hvaða breytingar hafa verið gerðar. Ég sé það þó auðvitað að hér er um nafnbreytingu að ræða í Il. kafla. Í staðinn fyrir „byggðaráð“, sem ég kann betur við, er talað um „jarðanefnd“. Mér sýnist að valdsvið sé nokkuð líkt. Þó mun vera um einhverja skerðingu að ræða og þá sérstaklega eru sveitarstjórnir kannske komnar öllu ákveðnari inn í þetta frv. en þær voru áður, þó að ég álíti þá að það væri alveg nægilega tryggt að sveitarstjórnirnar hefðu þarna fulla íhlutun. Það kann út af fyrir sig að vera rétt að þær hafi þarna enn aukna íhlutun. Í staðinn fyrir að ráðh. skipi formann n. án tilnefningar á hann nú að skipa formann n. úr hópi tilnefndra manna. Búnaðarsamband viðkomandi sýslu tilnefnir tvo menn í jarðanefnd í staðinn fyrir að það tilnefndi einn mann áður. Þarna kemur nú helmingaskiptareglan góða eitthvað inn í örugglega, það er ekkert út af fyrir sig við það að athuga.

Ég mun kanna frekar hvort hlutverk og verkefni jarðanefndar séu mjög skert frá því sem byggðaráðin höfðu. Ég sé t.d. varðandi 8. gr. fyrra frv. hennar ekki stað í hinu nýja. Þó kann að vera að hún sé þar einhvers staðar falin inni í öðrum greinum. Það var grein sem ég taldi mjög til bóta, en hún var einmitt á þá leið að byggðaráð skuli ekki veita leyfi sitt til ráðstöfunar fasteigna, sbr. 1. málsgr. 7. gr., ef um óeðlilega ráðstöfun er að ræða miðað við almennar viðskiptavenjur, ef ætla má að ráðstöfunin sé gerð til að hafa af henni sératakan fjárhagslegan ávinning eða til að ráðstafa eigninni eða hluta af henni fljótlega aftur í hagnaðarskyni. Ég man að það var bent á að þarna gæti verið um einhverjar geðþóttaákvarðanir að ræða og ágiskun. Engu að síður held ég að þetta hafi verið töluvert nauðsynleg viðvörun varðandi ráðstöfun á jörð, og ég sakna þess að hafa ekki fundið þetta. Ég vonast til að í nefndarstarfinu finni ég grein sem eitthvað kemur inn á þetta þó að ég hafi ekki fundið hana við fljótan yfirlestur.

Það er vitað mál að höfuðtilgangurinn er að koma að einhverju í veg fyrir jarðabraskið svokallaða, sem hefur auðvitað verið til mikils óhagræðis og verið höfuðbölvaldur í íslenskum landbúnaði. Kemur auðvitað fyrst og fremst niður á landbúnaðinum sem slíkum. Hér hefur verið um hryggilega þróun að ræða, um margt eðlilega í þessu verðbólguþjóðfélagi okkar. Og við þurfum svo sem ekkert að vera hissa á því þó að þessi bölvaldur teygi arma sína inn á svið landbúnaðarins eins og inn á viðskiptasviðið almennt. Það er hins vegar atvinnuveginum sem slíkum svo skaðlegt að það verður með einhverjum hætti að hindra. Mér sýnist að í mörgu sé þetta frv. þannig, eins og hið fyrra, að það geri það, hindri þetta brask, og þó ég vildi um sumt hafa kannske öllu skýrari ákvæði.

Við 3. umr. þessa máls hér í Ed. á sínum tíma flutti hv. þm. Ragnar Arnalds brtt., sem samþ. var, varðandi það ef söluverð eignar væri óeðlilega hátt miðað við líklegt raunverð að áliti byggðaráðs, þá gæti forkaupsréttarhafi krafist mats á eigninni og gilti það þá sem söluverð. Um framkvæmd matsins fór eftir lögum þar um. Þá var samþ. viðbótartill. um að við matið skyldi ekki taka tillit til verðhækkana sem stöfuðu af því að skipulagt þéttbýlissvæði væri að byggjast upp í næsta nágrenni og ylli óvenjulegri eftirspurn eftir landi, heldur beri að miða við verðmæti hliðstæðra eigna þar sem þessar ástæður hafi ekki veruleg áhrif til verðhækkunar. Ég finn ekkert ákvæði í þessu nýja frv. sem kemur til móts við þessa brtt. sem samþ. var hér á sínum tíma með atkv. allra flokka hér í d. nema Sjálfstfl. Og vegna þess að hann hefur nú tekið að sér endurskoðun þessa frv., þá skil ég mætavel að sjálfstæðismenn hafi losað sig við þetta ákvæði, enda voru þeir því mjög andvígir. Þeir framsóknarmenn hafa þar sem sagt látið undan.

Ég fagna því að það skuli áfram vera um það að ræða að hlutverk Jarðasjóðs sé eflt. Ég veit um nauðsyn þess að það sé gert, honum séu fengin fleiri skylduverkefni, eins og hæstv. ráðh. minnti á áðan. Við vitum um allt of mörg dæmi um bændur sem flosnað hafa upp eignalausir menn vegna þess að þeir voru að yfirgefa jarðir sínar, — bændur sem eins og t.d. samkv. 4. lið 31. gr. hafa setið jarðir sem eru afskekktar og liggja illa við samgöngum. En nú einmitt er Jarðasjóði ríkisins heimilt að kaupa jarðir sem svo er ástatt um, tekið skýrt fram.

Varðandi Jarðasjóðinn að öðru leyti, sem ég skal ekki hafa mörg orð um nú við 1. umr. þar sem ég fæ þetta mál til meðferðar í n., þá minnist ég þó, eins og mér þótti þá að sumu leyti eðlilegt, afstöðu þeirra sjálfstæðismanna hér í d. um framlag til Jarðasjóðs. Þeir gagnrýndu það mjög á sínum tíma vegna þess að sjóðnum væri fengið svo miklu víðtækara hlutverk en hann hefði áður haft. Þá gagnrýndu þeir að lágmarkið væri 12 millj. ár hvert auk andvirðis seldra ríkisjarða í Jarðasjóð. Ég held að þessi gagnrýni hafi átt nokkurn rétt á sér þó á móti henni væri nú ekki komið. En það hlýtur þá að vera svo nú, að þar sem um óbreytta upphæð er að ræða og að mér sýnist að mestu leyti óbreytt verkefni, þá hljóti talan 12 millj. að vera ansi miklu gagnrýnisverðari nú en hún var þá, svo að þarna hefur nú eitthvað farið á milli mála við nána endurskoðun þeirra sjálfstæðismanna á þessu frv.

Ég sem sagt vildi aðeins taka þetta fram núna í upphafi. Það eru nokkur atriði sem ég vildi fá hér skýrari og á án efa eftir að bera fram brtt. um með tilliti til þess hvað í fyrra frv. sagði. Ég efast um að ég gangi þar miklu lengra en það gerði.

Ég fagna því auðvitað að það er visst vald fært út í byggðarlögin, eins og hæstv. ráðh. sagði, með þessu frv. Ég skal alls ekki fara út í það núna í þessum umr. að ræða um óðalsjarðirnar og óðalsbændurna, sem varð okkur hæstv. ráðh. og reyndar fleirum hér mjög ánægjulegt og skemmtilegt umræðuefni þegar jarðalögin voru síðast á dagskrá, hver væri óðalsbóndi og hver ekki, hver væri kominn út af írum og hver ekki. Ég skal alveg sleppa því. En sem sagt, ég fagna því að frv. er komið á dagskrá hér hjá okkur, og það skal ekki standa á mér út af fyrir sig að afgr. meginefni þess, en ég áskil mér rétt til ýmissa breytinga og þá einkum í þá átt sem fyrra frv. gerði ráð fyrir.