03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3456 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

264. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er ekki fyrirferðarmikið og er einfalt í sniðum. Það fjallar um breyt. á 32. gr. einkamálalaganna um skipun í dómaraembætti eða réttara sagt um einn þátt í undirbúningi að skipun í héraðsdómaraembætti. Í frv. þessu er gert ráð fyrir því að áður en skipað er í héraðsdómaraembætti, þá skuli leitað umsagnar sérstakrar n., sem sett er á fót með þessu frv. ef að lögum verður. En í 1. gr. felst efni frv., þar sem segir að á eftir 1. mgr. 32. gr. komi ný mgr., sem verði 2. mgr., svohljóðandi:

„Áður en embætti héraðsdómara er veitt skal leita skriflegrar umsagnar nefndar þriggja manna, sem dómsmrh. skipar til 3 ára í senn. Einn nm. skal tilnefndur af Hæstarétti, og er hann formaður, einn tilnefndur af samtökum dómara úr hópi héraðsdómara landsins og einn skipaður án tilnefningar. Dómsmrh. setur reglur um kjör dómarasamtakanna. Hann getur einnig sett reglur um tilnefningu varamanna, um fresti til að skila tilnefningum og um afleiðingar þess að nm. eru ekki tilnefndir, um fresti til að skila álitsgerðum svo og önnur framkvæmdaatriði.“

Eins og kunnugt er, þá er það mjög mikilvægt í réttarþjóðfélagi að dómstólar séu sem sjálfstæðastir. Um það efni hefur orðið allmikil umr. í ýmsum löndum, sérstaklega eftir styrjaldarárin síðari. Þá veittu menn því athygli hversu þýðingarmikið það er, að til séu óháðir dómendur. Enn fremur má segja að raddir í þessa átt hafi orðið háværari vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í ýmsum þeim ríkjum sem kölluð eru velferðarríki, þar sem hið opinbera hefur æ meiri afskipti af ýmsum málefnum og hlutverk dómstóla verður þess vegna oft að dæma í ágreiningsmálum sem rísa af stjórnarframkvæmd eða eru í sambandi við stjórnarframkvæmd og eru þess vegna ágreiningur á milli framkvæmdavalds annars vegar og borgarans hins vegar. Þegar þannig stendur á, þá er það auðvitað mjög þýðingarmikið að borgarinn treysti á það að dómstólarnir séu algjörlega óháðir og séu ekki bundnir framkvæmdavaldinu eða framkvæmdavaldshafanum að neinu leyti.

Raddir um þetta efni hafa heyrst hér á landi eins og annars staðar, og hér hefur löngum gætt nokkurrar tortryggni í garð veitingarvaldhafans sem veitir dómaraembætti, sýslumanns- eða bæjarfógetaembætti, og þar þótt kenna stundum pólitískra sjónarmiða. Er út af fyrir sig ekki óeðlilegt þó að slíkar raddir hafi kannske sérstaklega heyrst hér vegna þess að skipan þessara mála hefur verið nokkuð á annan veg en viðast hvar annars staðar þar sem dómarar taka almennt ekki þátt í pólitískum störfum. Hins vegar var það lengi vel tíðkað hér á landi og var alsiða, að sýslumenn og bæjarfógetar væru í framboði til Alþ. og væru þm. op skipuðu reyndar sæti á Alþ. með sóma, það vil ég segja, um langa hríð. Þetta hefur að vísu breyst mjög, þannig að það er nú, að ég held, ekki jafnlíkleg framavon til þess að fá þingsæti að komast í sýslumannsembætti eins og það kannske áður þótti. Og ég hygg að almenningsálit færist í það horf að þau störf geti illa saman farið, að sitja á þingi og gegna dómaraembætti.

Það er svo, að það hafa verið í mjög mörgum löndum settar reglur um þetta eða myndast venjur um það, um aðferðir við skipun í dómaraembætti. Það er rakið nokkuð ítarlega í grg. með þessu frv. hverjar þessar reglur eru í hinum ýmsu löndum og hirði ég ekki um að fara að endurtaka það hér. Það hefur þótt rétt að gera tilraun til þess hér að taka í lög ákvæði sem væru að nokkru leyti í líkingu við það sem sums staðar annars staðar tíðkast, sumpart fyrir venju, en sumpart samkv. beinum lagafyrirmælum. Dómstólunum sjálfum eru sums staðar, eins og kemur fram í þessari grg., veitt sérstaklega mikil áhrif á skipan í dómaraembætti. Það hefur ekki þótt fært eða ráðlegt hér að taka þann þátt beint upp. Hins vegar er þess freistað hér að fara vissa millileið, skipa n. þar sem fulltrúi frá Hæstarétti á sæti og hann sé jafnframt formaður í þessari umsagnarnefnd, dómarasamtökin tilnefni annan nm. og dómsmrh. hinn þriðja. Þetta er umsagnarnefnd og hún á að láta uppi skriflega umsögn um dómaraefni eða þá sem sækja um embætti. Veitingavaldið er hins vegar ekki skuldbundið til að fara eftir þeim ábendingum sem koma frá þessari n., en auðvitað má segja að ef álit hennar er eindregið, þá muni þurfa nokkuð ríkar ástæður frá veitingavaldi til þess að víkja frá því sem n. þessi leggur einróma til. Þannig má gera ráð fyrir því að eftir hennar umsögn verði farið, nema þá eitthvað sérstakt komi til. Með þessum hætti er reynt að skapa tryggingu fyrir því, að ekki gæti annarlegra sjónarmiða við skipun í þessi embætti, og jafnframt reynt að gera þó þetta fyrirkomulag það einfalt að það valdi ekki erfiðleikum. Ég held að ef slík skipun kæmist á, þá mundi hún auðvelda veitingavaldhafanum starf hans og eyða tortryggni sem oft gætir í sambandi við embættaveitingar.

Það er að sjálfsögðu svo, að ég hef ekki fremur en aðrir farið varhluta af því að það hefur verið orðað að gætt hafi hlutdrægni í embættisveitingum mínum. En eins og ég sagði áðan, þá hefur það lengi viljað brenna við hér á landi. Ég get þó a.m.k. sagt eitt með góðri samvisku, og það er að ég hef í mínum embættaveitingum algjörlega fylgt lagafyrirmælum og alltaf verið auglýst þau embætti sem laus hafa verið til umsóknar. Það vill nú svo vel til að ég hef ekki enn setið b ár, en þó hátt í það, í embætti dómsmrh., en samkv. skrá, sem ég hef látið gera yfir þau embætti sem ég hef veitt á þessu tímabili, eru það 34 stöður.

Ég hef skrá yfir þau nöfn og ég verð að segja það, að ég get ekki eyrnamarkað þá marga hverja pólitískt. Og ég tek ekki nærri mér gagnrýni sem kemur fram og er almenns eðlis. Ég vil þá fá ábendingar um einhver tiltekin embætti, einhverjar tilteknar embættisveitingar sem athugaverðar hafa þótt. Á þessu tímabili hef ég sem sagt veitt 34 dómaraembætti. Jafnframt hef ég til hliðsjónar látið gera skrá yfir veitt dómaraembætti á árunum 1935–1965 eða 30 ára tímabili, og á því 30 ára tímabili hafa aðeins verið veitt 68 dómaraembætti. En þá eru það æðimörg tilfelli, þar sem ekki hefur verið farið að lögum að því leyti til, að dómarastöðurnar voru alls ekki auglýstar, heldur skipað í þær án þess að auglýsing ætti sér stað. Það hef ég líka á blaði, hverjar stöður það eru, en ætla ekki að fara að lesa það hér upp nema tilefni gefist til. En ég held sem sagt, að embættaveitingar mínar þoli alveg samanburð við þessar fyrri á 30 ára tímabilinu ef út í samanburð á því ætti að fara. Það ætla ég sem sagt ekki að gera að svo stöddu, en vil leggja áherslu á það, að ég tel þetta frv., sem hér er um að ræða, spor í rétta átt, viðleitni til þess að koma betri skipan á þessi mál og eyða tortryggni sem oft hefur, eins og ég hef þegar sagt, gætt í sambandi við skipun í þau embætti. Ákvæði, sem er að finna í þessu frv., eru mjög í samræmi við það sem nú gildir um skipun dómara í Hæstarétt, nema hvað það er þá dómurinn sjálfur sem lætur uppi umsögn um umsækjendur, en ekki sérstök nefnd.

Það hafa komið fram á undanförnum árum sérstakar óskir um breytingar í þessa átt, ekki kannske endilega það skipulag sem hér er gert ráð fyrir, en breytingar sem hníga í sömu átt, sérstaklega frá héraðsdómurum hér í Reykjavík, en þar eru náttúrlega þeir starfsmenn, sem í þessum embættum sitja, aðgreindastir frá framkvæmdavaldi og ekki alveg á sama hátt tengdir framkvæmdavaldinu og þegar um sýslumenn er að ræða, þar sem mikill þáttur þeirra starfa eru framkvæmdavaldsstörf, eins og allir þekkja. Það er auðvitað ekki hið æskilega form á þessum málum, þó að það eigi sér langa sögulega hefð hér á landi, heldur er æskilegt að reyna smám saman að stíga í átt til fullkomins aðskilnaðar á milli dómsvalds og framkvæmdavalds. Það verður ekki gert í einu vetfangi, en ég vona að síðar á þessu þingi, þó að það fari nú að styttast í því, þá verði lagt fram frv. um nýja skipan dómstóla á héraðsdómstigi, en fyrir því ætla ég ekki að mæla fyrr en það hefur séð dagsins ljós.

Ég held, herra forseti. að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, af því að frv. sjálft, sem um er að ræða, er mjög skýrt og augljóst hvað í því felst. Ég leyfi mér að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn. Og ég vil mælast til þess, ef mögulegt væri, að hún gæti hraðað störfum þannig að þetta einfalda frv. gæti hlotið afgreiðslu á þessu þingi.