03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3459 í B-deild Alþingistíðinda. (2845)

218. mál, lyfsölulög

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. Ed. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á lyfsölulögum nr. 30 frá 29. apríl 1963. Höfuðtilgangur þessara breytinga er að á stað „lyfjaskrárnefndar“ komi „lyfjanefnd“, og er hún skipuð á nokkuð annan veg, þannig að tifnefningin er ekki lengur bundin við embætti, heldur eru það vissir sérfræðingar, sem eiga að skipa þann sess.

Heilbr.- og trn. hefur komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að flytja brtt. við frv., og flytur hún hana á þskj. 570. Fyrri brtt. hljóðar svo: „Yfirdýralæknir og einn héraðsdýralæknir taka sæti“ og áfram eins og í frv. Í gr. stendur þetta: „Yfirdýralæknir tekur sæti í lyfjanefnd þegar fjallað er um mál, er sérstaklega varða dýralækningar.“ En rétt hefur þótt að einn héraðsdýralæknir taki einnig sæti í n. þegar svo stendur á og er þetta gert í samráði við heilbrrn. Enn fremur var það svo, að samkv. ósk rn. var gerð till. um aðra breytingu, þ.e.a.s. fyrir orðið „stofnunum“ í 1. mgr. 2. gr. komi: „heilbrigðisstofnunum“. Við nánari athugun hefur sú orðið raunin á, að það er talið að það sé ekki þörf á að flytja þessa brtt. og þess vegna leggur n. til að hún verði dregin til baka.

Nefndin hefur rætt frv., fengið umsagnir um það og leggur einróma til að það verði samþ. með þeirri breyt., sem ég hef nú getið um.