03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3460 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

220. mál, fjölbrautaskóli á Norðurlandi vestra

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 458 flyt ég till. til þál. um fjölbrautaskóla á Norðurlandi vestra.

Með fjölbrautaskólahugtakinu er, eins og kunnugt er, átt við þess háttar skóla sem sameinar í skipulagi sínu og samræmir ýmsar tegundir framhaldsskólafræðslu sem nú er stunduð í ýmsum sérgreindum skólum, hvort heldur þeir heita menntaskólar, verslunarskólar, iðnskólar, vélskólar, fiskvinnsluskólar, húsmæðraskólar, búnaðarskólar, tónlistarskólar eða handíðaskólar. Þegar er fengið eitt fordæmi um fjölbrautaskóla þar sem er sá tilraunaskóli sem öðlaðist lagagrundvöll á árinu 1973, en þau lög voru upphaflega miðuð við þennan sérstaka tilraunaskóla í Reykjavík. Það vantar á að þessi nýja skipan skólamála hafi verið útfærð á landsmælikvarða, og því miður hefur ekki verið nægjanleg hreyfing í þá átt. En ég vil láta þess hér getið, að við hv. 7 landsk. þm., Helgi F. Seljan, flytjum á öðru þskj. till. þess efnis að sett verði löggjöf um samræmda framhaldsskólafræðslu er taki til landsins alls. Með flutningi þessarar till. sérstaklega um Norðurl. v. er gengið út frá því að kerfi þetta verði upp tekið um land allt.

Í þessari till. er gert ráð fyrir því að um verði að ræða kennslu á nokkrum stöðum í fræðsluumdæminu, en að skólastarfið verði byggt upp sem ein heild með náinni samvinnu og verkaskiptingu milli skólastaða.

Gert er ráð fyrir því að á tveimur skólastöðum verði starfrækt bóknámsbraut, þ.e.a.s. undirstöðunám til undirbúnings stúdentsprófi sem jafnframt yrði undirstöðunám á öðrum sviðum bóklegs náms án þess að það leiddi til stúdentsprófs. Um yrði að ræða ýmsar námsbrautir eftir því sem aðstæður leyfa, t.d. tungumáladeild, raungreinadeild, náttúrufræðideild.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að stofnuð verði sérstök iðn- og tæknibraut sem skiptist milli skólastaða eftir því, sem hagkvæmast þykir. Í því sambandi er rétt að láta þess getið að aðstaða er sérstaklega góð á Siglufirði til þess að þar fari fram kennsla í sjómennsku, matvælatækni og vélstjórn, enda samræmist það vel aðstæðum í siglfirsku atvinnulífi. Gagnfræðaskólinn á Siglufirði hefur einmitt horfið inn á þá braut að byggja upp námsbrautir á þessu sviði, og yrði því samþykkt þessarar till. í reynd beint framhald af því sem nú er verið að gera þar.

Á einum skólastaðnum yrði svo sérstök viðskipta- og verslunarbraut sem samsvari fjögurra ára námi, en á öðrum verði um að ræða tveggja ára nám.

Í till. er einnig gert ráð fyrir því, að námsbrautir í heimilisfræðum, hússtjórn og búfræði falli inn í þetta skólahald. Fengist það að sjálfsögðu í þeim búnaða- og hússtjórnarskólum sem fyrir eru í þessu kjördæmi, þ.e.a.s. á Hólum í Hjaltadal, Löngumýri og á Blönduósi. Einnig koma til greina námsbrautir á sviði lista, eftir því sem aðstæður leyfa og mundu þær skiptast milli skólastaða. Kemur þar einkum til greina tónmennt, myndlist og önnur handmennt.

Menn munu velta því fyrir sér hvort raunhæft sé að byggja upp skólastarf af þessu tagi í svo litlu kjördæmi sem Norðurl. v. er. En því er til að svara, að í grg. frv. er ítarlega farið út í að kanna hvort ekki sé fyrir hendi nemendafjöldi til grundvallar þessu skólastarfi, og miðað við það, sem nú er verið að undirbúa í öðrum kjördæmum, m.a. á Austurlandi, þá virðist það fullkomlega raunhæft. En vegna fámennis og vegna margbreytileika námsins er ljóst að ýmis vandamál geta komið upp í þessu sambandi, og einmitt þess vegna er gert ráð fyrir því í till. að skólastarfið verði skipulagt í áfangakerfi sem sameini námshópa úr ýmsum námsbrautum án tillits til hefðbundinnar bekkjaskiptingar og geri þannig framkvæmanlegt að fá sérmenntaða kennara til að fara á milli skólanna og standa fyrir námskeiðum. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að að nokkru leyti verði farið inn á nýjar brautir í skipulagningu skólastarfsins.

Ég flutti mjög ítarlega og langa framsöguræðu fyrir þessari till. þegar hún kom fram í fyrsta skipti, fyrir einu ári, og sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér, en leyfi mér að vísa til ítarlegrar grg. sem fylgir till. Ég læt aðeins nægja að taka það fram að till. er óbreytt frá því sem var áður, að öðru leyti en því að í fyrra voru tilteknir þrír skólastaðir sem sérstaklega yrðu aðalmiðstöðvar skólastarfsins, það voru nefndir Siglufjörður, Sauðárkrókur og Blönduós. En réttara þótti við endurflutning málsins að tiltaka ekkert um hvaða skólastaðir kæmu þarna til álita, heldur gæfist þá frekar tóm til þess að ræða það ítarlega innan væntanlegrar skólanefndar og væri þá hægt að taka ákvörðun um það, eftir að ákvörðun hefði verið tekin um að koma skólanum upp.

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál, þar sem ég hef sem sagt flutt ítarlega framsöguræðu fyrir því áður hér á Alþ. og enn fylgir till. ítarleg grg., en leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. menntmn.