03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

256. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Vegna þess, að hv. 12. þm. Reykv. beindi til mín ákveðnum spurningum, þá fannst mér ég vera til neyddur að svara þeim, eða fullyrðingum sem hann óskaði eftir að ég hrekti.

Ég get ekki annað sagt um gæði kartaflnanna en að það, sem hann tíundar hér, er ekki í samræmi við mína reynslu. Um hans reynslu get ég því miður ekki dæmt hér.

Um hækkunina á kartöflunum vil ég aðeins segja það, að mér er kunnugt um að kartöflur hafa hækkað mjög mikið og hækkun á erlendum kartöflum er í algjöru ósamræmi við þá hækkun sem orðið hefur á kartöflum hér innanlands. En ég álít að þetta sé ekki sök Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Ég álít að hún hafi ákaflega lítil áhrif á almennt verðlag kartaflna á heimsmarkaði og það séu hinir almennu örðugleikar sem voru á framleiðslu kartaflna á s. 1. ári sem valda þessari hækkun, en ekki aðgerðir Grænmetisverslunar landbúnaðarins.