03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (2863)

161. mál, skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv.d. hefur haft frv. þetta til meðferðar, sendi það til umsagnar biskups og dómsog kirkjumrn. og komu þaðan jákvæðar umsagnir. En í umsögnum dóms- og kirkjumrn. fólust ábendingar sem n. tók til greina. Og eins og fram kemur á þskj. 556 leggur n. til að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem hún flytur á sérstöku þskj., en við afgreiðslu málsins voru fjarverandi Steingrímur Hermannsson og Ingi Tryggvason.

Eins og fram kom hjá flm. í framsögu fyrir þessu máli, þá er hér um að ræða breytingu á lögum frá 1907, um skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda, og fjalla breytingarnar í fyrsta lagi um það að kveða nánar á um fundarhöld safnaðarnefnda, í öðru lagi um að opna möguleika fyrir því, þar sem sóknir eru nú orðnar víða allmiklu fjölmennari en áður var, að þá yrðu sóknarnefndarmenn fleiri en ella, og í þriðja lagi að stytta kjörtímabil sóknarnefnda og safnaðarfulltrúa úr 6 árum í 4 ár. En þegar þessi lög voru sett 1907 var m.a. ein meginbreytingin sú að lengja kjörtímabilið úr einn ári í 6. Á því merka þingi, 1907, sem var mjög afkastasamt í lagasetningu, var kjörtímabil hliðstæðra n. eins og hér um ræðir almennt ákveðið 6 ár. En á síðari tímum hefur það þróast mjög yfir í það að kjörtímabil slíkra n. og stjórna væri aðeins 4 ár.

Ég gat þess, herra forseti, að menntmn. flytti brtt. við frv. og eru þær á þskj 557. Þær brtt. eru fluttar samkv. ábendingu dóms- og kirkjumrn.

Það er í fyrsta lagi að gera það ekki jafnafdráttarlaust að það skuli vera skylda að kjósa tvo fulltrúa til viðbótar í sóknarnefnd fyrir hver 2 þús. sóknarmanna sem bætast við 1000. Því er sett inn að í staðinn fyrir „skulu kjósa“ komi: kjósa megi, en þetta þýðir í framkvæmd, ef þessu ákvæði er beitt, að fyrir fyrstu 500 eru kosnir 3, fyrir 1000 5 og síðan má kjósa 2 fulltrúa fyrir hver 2000 sem við bætast, þ.e.a.s. fyrir 3000 7, fyrir 5000 9 og fyrir 7000 11 sóknarnefndarmenn.

Í öðru lagi er síðan samkv. ábendingu dóms- og kirkjumrn. gerð till. um að í stað þess, eins og greinir í frv., að hlutkesti skuli ráða um hverja skuli kosið að tveimur árum liðnum, eftir að kosið er samkv. þessum nýju lögum, — það var ekki talið nógu ótvírætt hvernig með þetta skuli fara, og raunar er það ekki ótvírætt í lögunum í dag. Þess vegna var bent á að gera þetta alveg ótvírætt og hér er lögð til sú aðferð sem viðhafa skuli þegar kveðið er á um það hverjir skuli ganga úr n. þegar kosið er á fyrsta fundi eftir að lög þessi hafa öðlast gildi eða þegar sóknarnefndarmönnum fjölgar vegna þess að fjölgað hefur í viðkomandi sóknum. Í þriðja lagi er svo bætt inn ákvæði um að kosningar skuli vera óhlutbundnar, en hvorki í frv. né gildandi lögum er neins staðar að finna ákvæði um hvernig kjósa skuli. Hefur þetta verið framkvæmt mismunandi, en samkvæmt ábendingum rn. var lagt til að kveða skýrt á um það.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vísa til þess, sem fram kemur á þskj. 556, að menntmn. mælir með samþykkt frv. með þeirri breytingu sem er að finna á þskj. 557.