10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

26. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Forseti. Frv. þetta fer fram á að breytt sé tilhögun á greiðslu framlaga úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna. Eins og kunnugt er hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga nú um 15 ára skeið fengið hluta af söluskatti og aðflutningsgjöldum, og er málum svo hagað nú að ríkissjóður, sem innheimtir þessi gjöld, greiðir hluta Jöfnunarsjóðs mánaðarlega. Hins vegar er ákveðið í lögum að Jöfnunarsjóður skuli greiða til sveitarfélaganna þrisvar á ári, þ. e. a. s. fyrir 30. apríl, 30. sept. og 31. des. Samband ísl. sveitarfélaga hefur óskað eftir breytingu í þessu efni á þann veg að greiðslur úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna verði mánaðarlega, og er það efni þessa frv. að verða við þessum óskum sveitarfélaganna.

Í öðru lagi er svo í 2, gr. staðfest sú ákvörðun síðasta Alþ. að auka framlög til Lánasjóðs sveitarfélaga.

Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og var þar samþ. einróma. Ég vænti þess að það fái einnig góðar undirtektir í þessari hv. d. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og til félmn.