10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

26. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jóhannes Árnason:

Virðulegi forseti. Það er fyrst og fremst um 1. gr. þessa frv. á þskj. 29 sem mig langaði til að segja nokkur orð.

Það er alkunna að þegar sú kerfisbreyting var gerð varðandi tekjustofna sveitarfélaga 1960 að sveitarfélögunum var tryggður hluti söluskatts og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var stofnaður, þá var stigið stórt skref í framfaraátt fyrir sveitarfélögin. Fram að þeim tíma hafði það löngum verið svo að útsvörin voru aðaltekjustofn og nánast eini tekjustofn þeirra. Sá háttur hefur verið á hafður að sveitarfélögin fái framlag sitt úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga greitt á 3 mánaða fresti. Með 1. gr. þessa frv. um breyt. á l. nr. 8 frá 1972 er lagt til að frá 1.jan. n. k. verði framlögin samkv. 13. gr. laganna greidd mánaðarlega.

Ég tel að hér sé um að ræða breytingu til bóta. Ég veit ekki hvort það eru mistök í prentun eða athugunarleysi, en það verður að líta svo á að hér sé um að ræða breyt. á 14. gr. l. nr. 8 frá 1972, en það stendur ekki við 1. gr. í þessu frv. við hvaða gr. í l. nr. 8 frá 1972 hún eigi, en þar ætti væntanlega að standa: 1. málsgr. 14. gr. orðist svo“ — skilst mér.

Þá vil ég víkja aðeins að og gera að umtalsefni framkvæmd þessa kerfis, þ. e. skil Jöfnunarsjóðs, sem félmrn. sér um, á framlögum til sveitarfélaganna. Nú er það svo að öll sveitarfélögin fá ekki framlögin beint í hendur til frjálsrar ráðstöfunar. Þar er um að ræða nokkrar undantekningar, þar sem skuldajöfnuður á sér stað samkv. lögum þegar ekki hefur verið staðið í skilum og einstakir aðilar fá greiðslu, sem sveitarfélögin eiga að inna af hendi, beint frá Jöfnunarsjóði fyrir milligöngu rn. Ég leyfi mér í þessu sambandi að nefna aðeins tvö tilvik, þ. e. Ríkisábyrgðarsjóð og Lánasjóð sveitarfélaga. Enn fremur mætti nefna Bjargráðasjóð o. fl.

Í 3. málsgr. 14. gr. laga nr. 8 frá 1972 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú kemst sveitarfélag eftir setningu laga þessara í vanskil með greiðslur vegna veittra ríkisábyrgða, og er rn. þá heimilt að inna slíkar greiðslur af hendi af framlagi til sveitarfélagsins eftir því sem til vinnst.“

Og í 13. gr. laganna um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 35 frá 1966, segir svo, með leyfi forseta:

„Nú vanrækir sveitarfélag greiðslu afborgana og vaxta úr sjóðnum á réttum gjalddaga, og getur ráðh. þá greitt vanskilin af framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eftir því sem til vinnst. Sama gildir um greiðslur sem Lánasjóður sveitarfélaga kann að hafa innt af hendi vegna ábyrgða sem hann hefur tekist á hendur samkv. 10. gr.“ — en þar er um að ræða sjálfskuldarábyrgð vegna rekstrarlána.

Það er alkunna að fjölmörg sveitarfélög fá lán með ríkisábyrgð til ýmissa framkvæmda. Varðandi kaupstaði og sjávarþorp vil ég sérstaklega nefna lán til hafnarframkvæmda sem eru ákaflega þýðingarmiklar en dýrar framkvæmdir, og greiðslubyrðin vegna þessara lána er þungur baggi fyrir mörg slík sveitarfélög. Í reyndinni verður það því þannig að í fjölmörgum tilvikum fer allt framlag Jöfnunarsjóðs í slíkar bundnar greiðslur þar sem ekki hefur reynst unnt að standa í skilum. Ég er ekki að mæla á móti þessu fyrirkomulagi, heldur þvert á móti verð ég að segja að þetta er sjálfsagt óhjákvæmilegt til þess fallið að koma á meiri festu og stuðla að því að þessir sjóðir, sem viðskipti eiga við sveitarfélögin, geti starfað á öruggari hátt og gegnt sínu hlutverki betur.

En þá kem ég að því sem ég vildi gera sérstaklega að umtalsefni og varpa fram til skoðunar. Það er í sambandi við þau gleðilegu tíðindi sem hæstv. fjmrh. boðaði í fjárlagaræðu sinni og fram kemur í aths. við fjárlagafrv., að framvegis skuli Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fá 8% af öllum söluskattinum, þ. e. af 7 söluskattsstigum til viðbótar því sem nú er. Er talið að þarna geti verið um að ræða milli 700 og 800 millj. kr. auknar tekjur fyrir sveitarfélögin gegnum Jöfnunarsjóð á ársgrundvelli. Er þess að vænta, að frv. til l. þar að lútandi verði lagt fram á næstunni.

En það er á fleiri sviðum en þeim, sem ég nefndi áðan, að ástæða er til að binda framlög af hálfu sveitarfélaganna í opinberri starfsemi. Ég vil í þessu sambandi nefna sjúkratryggingarnar, en sveitarfélögin greiða nú 10% af öllum kostnaði við sjúkratryggingar, þ. á m. daggjöld til sjúkrahúsanna sem ég hygg að vegi þar þyngst á metunum. Hér er um allverulegar fjárhæðir að ræða og mörgum sveitarfélögum hefur reynst erfitt að standa að fullu í skilum. Greiðslur vilja verða á eftir og vandræði af hljótast, sem hefur aftur leitt til þess að þessi útgjaldaliður hefur orðið þyngri á ríkissjóði. Ég vil því leyfa mér að beina því til hæstv. félmrh. að tekið verði til athugunar við boðaðar breyt. á lögum um Jöfnunarsjóð vegna aukinna tekna af söluskatti hvort ekki væri rétt að bæta jafnframt inn í lögin ákvæði um að framlög sveitarfélaganna til sjúkrasamlaga skuli greiðast til þeirra beint frá Jöfnunarsjóði eða a. m. k. framlag Jöfnunarsjóðs gæti verið til tryggingar ef um vanskil yrði að ræða, líkt og nú gerist með Ríkisábyrgðasjóð og lánasjóð sveitarfélaga, og fleiri aðila. Ég er ekki viss um, að þetta mundi sæta andstöðu sveitarstjórnarmanna. Þessi framlög verður að greiða hvort sem er, og það er nú einu sinni svo að slík framlög vilja stundum verða útundan eða á eftir hjá sveitarfélögunum og dæmi eru til um óeðlilega skuldasöfnun. Sjálfsagt væri að kanna afstöðu þeirra, sem hér eiga hlut að máli, þ. e. Samband ísl. sveitarfélaga, Tryggingastofnunar ríkisins og ríkisendurskoðunarinnar.

Öllum má vera fullljóst mikilvægi sjúkratrygginganna fyrir allan almenning í landinu. Það er brýn nauðsyn að greiðslur til sjúkrasamlaganna geti komið inn jöfnum höndum frá þeim, sem greiða eiga, þ. e. ríki og sveitarfélögum, eða mánaðarlega eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. En það er ljóst að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða. Niðurstöðutölur á rekstrarreikningi sjúkratrygginganna á s. l. ári, 1974, voru samkv. ríkisreikningi rúmlega 6 milljarðar og 435 millj. Þar af voru framlög sveitarfélaga innborguð á árinu rúmlega 464 millj., sem sýnir að nokkuð hefur á skort að sveitarfélögin hafi þarna getað staðið í skilum með lögboðin framlög og ríkissjóður þar af leiðandi orðið að hlaupa undir bagga. Samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir framlagi ríkissjóðs 8 milljörðum 192 millj. kr. árið 1976 til sjúkratrygginga. Sveitarfélögin ættu því að greiða rúmlega 800 millj. þar á móti. Þykir mér því fremur nauðsyn til bera að koma á fastri skipan í þessu sambandi, því að það er það sem fyrir mér vakir með því að vekja máls á þessu hér. Ég tel að það væri rétt að kanna þetta í sambandi við þann möguleika sem skapast við aukin framlög Jöfnunarsjóðs samkv. boðaðri lagabreytingu.