03.05.1976
Neðri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3484 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. S.l. tvö ár hafa verið tími jafnvægisleysis í fjármálum ríkisins. Annað árið í röð varð verulegur greiðsluhalli hjá ríkissjóði. Ljóst er að skuldasöfnun ríkissjóðs hjá Seðlabankanum á sinn þátt í að viðhalda umframeftirspurn innanlands og umframkaupum erlends gjaldeyris.

Endanlegar tölur um afkomu ríkissjóðs fyrir árið 1975 liggja ekki enn þá fyrir og óvíst er hvort unnt verður að leggja ríkisreikninginn fyrir 1975 fram og gera grein fyrir honum á Alþ. fyrir þinglok að þessu sinni. Um miðjan maí á síðasta ári var A-hluti ríkisreiknings fyrir árið 1974 lagður fram og hafði reikningurinn í heild ekki áður verið lagður fram jafnsnemma árs. Að þessu sinni hefur úrvinnsla hans tafist vegna þeirra sérstöku aðgerða sem unnið hefur verið að síðustu mánuði í fjmrn., ríkisbókhaldi og ríkisendurskoðun til að auka eftirlit með útgjaldagreiðslum ríkisins og innheimtu tekna. Þær aðgerðir hafa leitt til þess að starf ríkisbókhaldsins hefur síðustu mánuði ekki beinst í jafnríkum mæli og á síðasta ári að uppgjöri ríkisreiknings 1975, heldur einnig að samtímafærslum reikninga ársins 1976. Stefnt hefur verið að því að reikningurinn væri til afhendingar í aprílmánuði ár hvert og vonast ég fastlega til að svo verði framvegis, enda verður þá hin breytta skipan á greiðslum og bókun þeirra, sem unnið hefur verið að, komin í fastan farveg.

Enda þótt ársuppgjörinu fyrir árið 1975 sé ekki lokið tel ég rétt að gera grein fyrir bráðabirgðatölum um afkomu ríkissjóðs á árinu 1975 lítið eitt nánar en skýrt var .frá í fréttatilkynningu fjmrh. hinn 8. jan. s.l., en þar kom fram að greiðsluhallinn væri 5 milljarðar kr. auk 845 millj. kr. vegna ábyrgðar ríkissjóðs á gengistryggingu innistæðna í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Þessar fjárhæðir endurspegla breytinguna á stöðu ríkissjóðs, A-hluta, við Seðlabankann á árinu 1975, bæði samkv. lánareikningum og viðskiptareikningum við bankann, þegar bætt hefur verið við 258 millj. kr. vegna gengismunar lána við bankann. Þessar tölur um greiðsluafkomu við Seðlabankann munu lítið breytast, en þær sýna annars vegar mismuninn á greiðslum tekna- og gjaldaliða og hins vegar lána- og viðskiptareikninga. Bráðabirgðatala um innheimtar tekjur ríkissjóðs er 49 milljarðar 660 millj. kr. og um útgreidd gjöld 56 milljarðar 110 millj. kr. Gjöld umfram tekjur eru því 6 milljarðar 450 millj. kr. að meðtöldum áðurgreindum 846 millj. kr. útgjaldalið vegna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Innkomið fé, nettó, af lánsfé og breytingu viðskiptareikninga er samkv. bráðabirgðatölum 640 millj. kr.

Við endanlegt uppgjör ríkisreiknings munu þessar niðurstöðutölur breytast, m.a. vegna þess að uppgjör tekna ríkisreiknings er byggt á álögðum tekjum, en ekki innheimtum, og gjöld á áföllnum gjaldskuldbindingum, en ekki greiðslu þeirra.

Innheimtar tekjur ríkisins 1975 voru 39% hærri en árið áður. Hlutdeild beinna skatta í ríkistekjum hefur enn minnkað. Árið 1973 voru tekju- og eignarskattar tæp 23% af ríkistekjum, 16% árið 1974 og 12.5% 1975. Stafar þessi lækkun hlutfallsins árið 1975 bæði af lækkun tekjuskatts í apríl og aukinni notkun óbeinna skatta.

Tekjurnar samkv. framansögðu urðu 2 milljarðar 35 millj. kr. umfram fjárlög og skiptast þannig að vörugjaldið, sem lagt var á frá 17. júlí á s.l. ári, nam 1 milljarði 190 millj. kr. Tekjur af almennum aðflutningsgjöldum urðu 300 millj. kr. umfram fjárlög, en innflutningsgjald af bensíni og gúmmígjald 140 millj. kr. undir áætlun fjárl. Söluskattur varð um 304 millj. kr., launaskattur 250 millj. og hagnaður af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 600 millj. kr. umfram áætlun fjárl. Með lögum frá 26, apríl 1975, um ráðstafanir í efnahags- og fjármálum, voru gerðar ýmsar breytingar á álagningarreglum tekjuskatts og greiðslum fjölskyldubóta til hagsbóta fyrir þá sem höfðu lágar tekjur. Þessar aðgerðir leiddu til þess að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti urðu 1200 millj. kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Gjöld samkv. bráðabirgðayfirliti greiðsluhreyfinga urðu um 56 milljarðar og 110 millj. kr. eða um 8 milljörðum og 900 millj. kr. umfram gjaldaáætlun fjárl., og má rekja rúmlega helming þessarar fjárhæðar til tryggingamála og niðurgreiðslna, þar af um 2300 millj. kr. til tryggingamála og um 2000 millj. til niðurgreiðslu búvöru og uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Til útvegsmála að meðtalinni skuldbindingu vegna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins fóru 1370 millj. kr. umfram fjárlög. Í þeirri fjárhæð er einnig kaupverð togarans Baldurs fyrir Hafrannsóknastofnun, 340 millj. kr. Greiðslur til landhelgisgæslu, vega- og samgöngumála, löggæslu- og dómsmála urðu einnig verulega umfram áætlun fjárlaga.

Í heild jukust ríkisútgjöld 1975 um 45% frá fyrra ári, samanborið við um 35% aukningu verðmætis þjóðarframleiðslunnar. Hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu hækkaði úr 29% 1974 í 30.3% 1975. Hlutfallsleg skipting útgjalda eftir útgjaldaflokkum varð næsta svipuð og árið áður. Um helmingi ríkisútgjalda var varið til félagsmála, en um þriðjungi til atvinnumála, þar með taldar niðurgreiðslur sem námu 1/10 hluta heildarútgjalda ríkissjóðs.

Ríkisútgjöldin hafa því verið skriðþung að undanförnu og torvelt hefur reynst að laga þau tafarlaust að breyttum aðstæðum í þjóðarbúskapnum. Þetta er gömul og ný reynsla, bæði hér á landi og annars staðar, en jafnvægi verður að nást í ríkisfjármálum á þessu ári.

Af því, sem ég hef nú sagt, er ljóst að tekjustofnar hafa ekki staðið undir gjöldum og bilið milli tekna og gjalda breikkaði á árinu 1975. Horfur um framvindu útgjalda og tekna ríkissjóðs á þessu ári eru nú þannig að ljóst er að nokkur hætta er á að framhald verði á hallabúskap ríkissjóðs verði ekki spyrnt við fótum. Áframhaldandi halli á ríkisbúskapnum samrýmist ekki þeirri almennu stefnu í efnahagsmálum, sem ríkisstj. hefur markað, þ.e. að minnka viðskiptahallann við útlönd verulega á þessu og á næsta ári og draga úr hraða verðbólgunnar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að tryggja með sérstakri löggjöf fjárhagslegt svigrúm til þess að efla landhelgisgæsluna og fiskleit og hafrannsóknir vegna framvindunnar í landhelgis- og sjávarútvegsmálum. Þetta frv., sem hér er til umr., er til þess flutt að þessar brýnu skyldur megi rækja eins og þarf, en án þess að tefla fjárhagslegu jafnvægi í landinu í hættu af þeim sökum. Þess vegna er jafnframt nauðsynlegt að treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs almennt.

Frá því að fjárlög fyrir árið 1976 voru afgreidd hafa forsendur þær, sem lagðar voru til grundvallar þeim lögum, breyst í veigamiklum atriðum. Niðurstaða tekjuhliðar fjárl. var 60.3 milljarðar kr. Tekjuáætlunin hefur síðan verið endurskoðuð, einkum með tilliti til mats á áhrifum kjarasamninga á þróun þjóðarútgjalda og á tekjur ríkissjóðs á þessu ári, jafnframt því sem stuðst hefur verið við innheimtureynslu á fyrsta ársfjórðungi og metin áhrif verðhækkunar á áfengi og tóbaki í mars. Endurskoðun innheimtuspár fyrir árið 1970 gefur þá niðurstöðu að innheimtar tekjur ríkissjóðs í ár muni verða 64.3 milljarðar kr., en það er 4 milljarða hækkun frá fjárlögum.

Gjöld samkv. fjárl. námu 58.9 milljörðum kr. Gjaldaauki umfram áætlun fjárl. vegna till. um aukna fjárveitingu til landhelgisgæslu og fiskverndar og vegna verðlags- og launabreytinga nemur 6.1 milljörðum kr. Halli á lánahreyfingum mun að líkindum verða 0.1 milljarður umfram áætlun.

Án sérstakra ráðstafana yrði greiðsluafkoma ríkissjóðs á þessu ári þannig 2.2 milljörðum kr. lakari en að var stefnt við fjár!agaafgreiðslu. Megináatæður þessa eru annars vegar stóraukin umsvif Landhelgisgæslunnar, fyrirsjáanleg útgjöld við leit nýrra fiskimiða, tilraunir við að afla og nýta aðrar fisktegundir en til þessa hefur verið gert, svo og útgjöld vegna ráðstafana til að koma í veg fyrir ofnytjar tiltekinna veiðisvæða.

Hins vegar gætir beinna og óbeinna áhrifa almennra launasamninga og verðlagsbreytinga mjög á útgjöld ríkissjóðs. Laun starfsmanna ríkisins hafa hækkað og munu hækka með svipuðum hætti og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði. Í kjölfar almennra launahækkana fylgir hækkun bótagreiðslna almannatrygginga, auk þess sem hækkandi verðlag hefur óhjákvæmilega áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Þegar eftir setningu fjárl. fyrir árið 1976 var hafist handa við gerð mánaðarlegrar greiðsluáætlunar tekna og gjalda fyrir allar ríkisstofnanir á árinu og var þessi áætlun tilbúin í byrjun febrúar. Gjaldaáætlunin er sundurliðuð eftir einstökum rn. og stofnunum og tekjuáætlun er gerð sérstaklega fyrir alla helstu tekjustofna. Áætlanir sem þessar eru forsenda þess að ná betri stjórn en verið hefur á útgjöldum ríkissjóðs á fjárlagaárinu og gera mun auðveldara en ella að fylgjast með þróun ríkisfjármála og bregðast skjótt við þar sem frávík frá áætlun koma í ljós.

Mánaðarleg tekjuáætlun ríkissjóðs hefur verið endurskoðuð í ljósi þeirrar heildarendurskoðunar á tekjum ríkisins sem nánar verður minnst á hér á eftir. Sé lítið á innheimtureynslu fyrstu þriggja mánaða ársins eru innheimtar tekjur mjög svipaðar því sem búist er við í áætluninni þegar tekið hefur verið tillit til áhrifa verkfallsins í febrúar og söluskattsveltu. Samkv. niðurstöðu ríkisbókhalds virðist hafa náðst viðunandi jöfnuður gjalda og tekna fyrstu 3 mánuði þessa árs. Í aths. við frv. það, sem nú er til umr., er rækileg grein gerð fyrir margvíslegum útgjöldum ríkissjóðs sem breyst hafa frá upphaflegri áætlun. Gætir þar fyrst og fremst áhrifa verðlagsog kauplagshækkana, m.a. á útgjöld til almannatrygginga. Er nauðsynlegt að gagnger endurskoðun fari fram á forsendum fjárlagaáætlunarinnar, bæði að því er varðar tekjur og gjöld, um leið og gerðar séu ráðstafanir til fjáröflunar vegna sérstakra verkefna landhelgisgæslu og fiskverndar.

Ég gat þess við 3. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1976 að nýskipan yrði tekin upp við greiðslu reikninga og greiðslubeiðna rn. hjá ríkisféhirði sem mikilvægan þátt í því aukna eftirliti með útgjaldagreiðslum stofnana ríkisins sem að er stefnt. Frá og með 1. maí komst þessi nýskipan á að fullu. Bókun greiðsluskjala fer nú fram áður en greiðsla er innt af hendi, og nú er vikulega hægt að fylgjast með útgreiðslum stofnana og fjárhagsstöðu þeirra. Kemur því í tæka tíð í ljós hvort greiðsla rúmast innan greiðsluáætlunar eða ekki. Fjárhagsvandi stofnana ríkisins í A-hluta ríkisreiknings ætti því framvegis að vera augljós talsvert áður en í óefni er komið.

Að undanförnu hafa umsvif Landhelgisgæslunnar verið stóraukin, svo sem nauðsynlegt hefur verið til að hindra veiðar erlendra skipa innan fiskveiðilögsögunnar. Hafa tveir togarar verið teknir á leigu til gæslustarfa og í athugun er enn frekari aukning skipastóls og flugvélakosts Landhelgisgæslunnar. Þessi mikla aukning á starfsemi Landhelgisgæslunnar hefur óhjákvæmilega í för með sér að fjárveiting á fjárl. muni hvergi duga og sýnt er að yfir 500 millj. kr. vanti á til þess að standa undir kostnaði við aukinn rekstur, þ. á m. aukningu leiguflugs og leigu skipa, svo og til tækjaöflunar til skipa og flugvéla. Auk þess þarf að sjá fyrir aukningu á launakostnaði vegna nýrra kjarasamninga og veita fé til greiðslu viðskiptaskulda frá fyrra ári. Loks ríkir talsverð óvissa um kostnað við Landhelgisgæsluna. Að þessu samanlögðu og þar sem nauðsynlegt er að fjárhagur Landhelgisgæslunnar sé rúmur þykir rétt að reikna með að fjárþörf gæslunnar umfram fjárlög geti numið 750 millj. kr. á þessu ári.

Vegna minnkandi þorskgengdar er mikilvægt að gera það sem unnt er til að halda fiskiskipum okkar til annarra veiða, en til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að stórauka fiskileit. Slík fiskileit verður ekki framkvæmd með þeim skipakosti sem Hafrannsóknastofnunin ræður yfir. Taka verður á leigu nokkur fiskiskip eða ábyrgjast útgerð slíkra skipa til þess að hægt sé að gera sér vonir um árangur. Til þessara verkefna, sem rakin eru nokkru nánar í grg., skortir talsvert fé. Það er og nauðsynlegt að verja nokkru fé til markaðs- og sölumála. Þá virðist ekki hjá því komist að auka fjárveitingu til eftirlits með veiðum og veiðarfærum veiðiskipa verulega. Nauðsynlegt er að fylgjast vel með friðuðum veiðisvæðum og að veiðarfæri séu í samræmi við reglur þar að lútandi, enda snar þáttur í að friða smáfisk. Í heild er talið að verja þurfi um 250 millj. kr. til þessara verkefna. Hér er því aðeins um hugmynd að ræða. Aðalatriðið er að skapa fjárhagslegar forsendur fyrir virkri viðleitni til þess að finna og nýta nýja fiskstofna og vernda þá sem fyrir eru. Hér er mikið í húfi.

Eins og fyrr sagði er nú áætlað að útgjöld ríkissjóðs aukist um 6.1 milljarð kr. umfram fjárlög. Þar af er talið að ætla þurfi 1 milljarð kr. til Landhelgisgæslu og friðunaraðgerða, eins og áður er sagt. Þá er áætlað að launagreiðslur ríkissjóðs muni aukast um rúmar 1500 millj. kr. vegna launahækkana opinberra starfsmanna. Áhrif kjarasamninganna koma þó ekki einungis fram í auknum launakostnaði, heldur ekki síður í aukningu útgjalda almannatrygginga. Vegna orðinna og fyrirsjáanlegra hækkana á tryggingabótum í kjölfar launahækkana á árinu er áætlað að útgjöld til lífeyristrygginga aukist um 1300 millj. kr. í ár. Þá þarf einnig að sjá fyrir rúmlega 900 millj. kr. hækkun á kostnaðarhluta ríkissjóðs við sjúkratryggingar. Áhrifa verðlagshækkana mun að sjálfsögðu gæta í ríkisútgjöldum og í heild hafa þau áhrif verið metin til tæplega 900 millj. kr. kostnaðarauka ríkissjóðs í ár. Hér er einkum um að ræða verðhækkun aðkeyptrar rekstrarvöru og þjónustu, en jafnframt þarf að reikna með hækkun ýmissa lögboðinna rekstrargjalda og loks er hækkun markaðra tekjustofna talin hér með auk ýmissa umframgreiðslna sem þegar hafa verið samþykktar. Að lokum er talið að auka þurfi fjárveitingar til hafnamála og landbúnaðarmála um rúmar 400 millj. kr. í ár. Í hafnamálum er hér helst um að ræða aukin framlög til hafnargerðar í Þorlákshöfn og Grindavík, en þessar framkvæmdir eru fjármagnaðar að 6/10 hlutum með lánsfé frá Alþjóðabankanum, en 4/10 hlutum af ríkissjóði. Framkvæmdakostnaður hefur hækkað nokkuð síðan fjárhagsáætlun var gerð, aðallega vegna gengissigs að undanförnu. Hækkun á framlögum til landbúnaðarmála er vegna vísitöluhækkana sem orðið hafa frá því að áætlunin var gerð. Einnig má nefna framlag til Norræna fjárfestingarbankans sem áætlað er 57 millj. kr. á þessu ári.

Eins og fyrr segir hefur áætlun um innheimtu ríkistekna nú verið endurskoðuð með hliðsjón af nýjustu vitneskju um verðlags- og launabreytingar í ár og áhrif þeirra á þjóðarútgjöld. Niðurstöður þessarar endurskoðunar sýna aukningu tekna af þeim stofnum sem ráðast af veltu, einkum söluskatti, en á móti vegur að nú er reiknað með að þjóðarútgjöld að raunverulegu verðgildi dragist nokkuð saman fremur en þau verði óbreytt eins og miðað var við við fjárhagsáætlun. Hið sama gildir um innflutning. Nú eru horfur á að hann dragist meira saman en áður var reiknað með, en vegna gengissigs að undanförnu er áætlað að tekjur af aðflutningsgjöldum aukist nokkuð. Þá er og reiknað með nokkru meiri tekjum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins en áður, og er það fyrst og fremst vegna verðhækkunar áfengis og tóbaks í marsmánuði s.l. Loks er gert ráð fyrir að ýmsar aðrar tekjur, sem fylgja verðlags- og launabreytingum, hækki nokkuð frá áætlun fjárl., en á hinn bóginn eru ekki horfur á að beinir skattar, einkum tekjuskattur, hækki umfram fjárlagatölur. Heildarniðurstaða þessa er sú, að gera megi ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs í ár fari að öllu óbreyttu um 4 milljarða kr. fram úr áætlun fjárlaga.

Samkv. þeim tölum, sem hér hafa verið raktar, eru nú horfur á að ríkisútgjöld verði um 600 millj. kr. umfram tekjur á þessu ári. Í fjárl. þessa árs var gert ráð fyrir, að jöfnuður lánahreyfinga yrði neikvæður um 1 milljarð og 100 millj. kr., en að auki verður nú að ætla um 100 millj. kr. halla til viðbótar, einkum vegna gengisbreytinga að undanförnu. Fjárvöntun ríkissjóðs er því nú áætluð um 1 milljarður og 800 millj. kr.

Við afgreiðslu fjárl. fyrir árið í ár var lögð á það rík áhersla að ríkisfjármálunum yrði beitt markvisst til þess að tryggja framgang efnahagsstefnu ríkisstj., ekki síst til þess að draga úr viðskiptahallanum við útlönd, enda var þá ljóst að frekari halla en gert var ráð fyrir í þjóðhagsspá og lánsfjáráætlun yrði alls ekki mætt með aukinni skuldasöfnun erlendis Af þessum sökum er nauðsynlegt að leysa þann fjárhagsvanda ríkissjóðs, sem hér hefur verið lýst, með innlendri fjáröflun, þannig að jafnvægi í ríkisbúskapnum verði tryggt. Þær ráðstafanir, sem frv. þetta felur í sér, ber jafnframt að skoða í samhengi við þær ákvarðanir í peningamálum sem Seðlabankinn hefur nýlega tekið eftir viðræður við ríkisstj. Með þeim ákvörðunum var að því stefnt að ná þolanlegu jafnvægi á fjármagnsmarkaði og tryggja getu bankakerfisins til þess að sinna brýnustu rekstrarfjárþörfum atvinnuveganna í ljósi þeirrar þróunar í verðlags- og launamálum sem nú er fyrirsjáanleg. Eigi þessi árangur að nást er nauðsynlegt að tryggja hallalausan ríkisbúskap.

Ráðstafanir þær, sem ríkisstj, leggur til með frv. þessu að beitt verði til að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs í ár, eru tvíþættar:

Í fyrsta lagi er lagt til að hið sérstaka vörugjald hækki nú úr 10% í 18% og haldist þannig til loka þessa árs. Jafnframt er lagt til að nokkrar nauðsynjavörur verði felldar undan gjaldskyldu, en öðrum vörum hins vegar aukið við. Tekjuauki ríkissjóðs vegna þessarar breytingar er áætlaður 1 milljarður og 600 millj. kr., en þar af er áætlað að verja 1 milljarði kr. til eflingar landhelgisgæslu og til friðunarráðstafana.

Innheimta vörugjalds hefur gengið allvel og tiltölulega fá ágreiningsefni komið í ljós við framkvæmd laganna. Meginkostur vörugjaldsins er hins vegar þau áhrif sem gjaldið hefur til takmörkunar innflutningi. Gjaldtakan treystir því gjaldeyrisstöðuna og er við það miðað við mat á tekjuáhrifum gjaldsins að nokkuð dragi úr innflutningi frá því, sem ella hefði orðið.

Í öðru lagi er lagt til að greiðslur ríkissjóðs vegna skattafsláttar upp í útsvar verði takmarkaðar. Hér er um að ræða að koma í veg fyrir að ákvæði skattalaga um persónuafslátt verði til þess að sveitarfélögin taki almennt að nota lífeyristekjur og lágar tekjur námsmanna sem álagningarstofn útsvars, enda er það í andstöðu við tilgang laganna svo og þá stefnu sem sveitarfélögin hafa lengst af fylgt. Er talið að þessi breyting bæti greiðsluafkomu ríkissjóðs um allt að 300 millj. kr. í ár.

Auk þess fjárhagsvanda, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir og ætlast er til að verði leystur með fyrrgreindum ráðstöfunum, er nú sýnt að verulegar fjárhæðir þarf til viðbótar fjárlagatölum eigi að vera unnt að sinna brýnustu verkefnum í vegamálum, eins og samgrh. mun gera nánari grein fyrir er vegáætlunin verður lögð fram. Er þessi fjárvöntun til vegagerðar nú talin geta numið um 450 millj. kr. Með frv. þessu er lagt til að í ár verði lagður á skyldusparnaður með sama sniði og í fyrra og verði fé því, sem aflað er með skyldusparnaðinum, varið til vegagerðar. Samkv. tillögum frv. verður skyldusparnaður áfram 5%, en þær fjárhæðir, sem draga skal frá skattgjaldstekjum áður en til álagningar kemur, eru hækkaðar í því skyni að skyldusparnaður sem hlutfall af tekjum verði nokkurn veginn óbreyttur. Áætlað er að innheimta skyldusparnaðar geti numið 300 millj. kr. Auk þessarar fjáröflunar hafa markaðir tekjustofnar til vegagerðar nú verið hækkaðir í samræmi við hækkun byggingarvísitölu samkv. heimild 1. gr. laga nr. 78/1975, ákveðið hefur verið að hækka bensíngjald um 1.59 kr. og er áætlað að það gefi um 170 millj. kr. auknar tekjur í ár. Ég vek athygli á því að hér nefndi ég töluna 1.59 kr., en í grg. frv. er talað um 1.67 kr. Við endurskoðun og athugun kom í ljós að hér yrði um að ræða 1.59 kr. samkv. gildandi lögum, en ekki 1.67, eins og í grg. frv. stendur. Með nýrri reglugerð, sem gefin er út í dag, hefur innflutningsgjald á bifreiðum í jeppaflokki og snjósleðum verið hækkað fyrst um sinn úr 50% í 75%. en eftir 1. júlí í 90% samkv. heimild í l. nr. 4/1960, um efnahagsmál. Er áformað að tekjuauki af þessari hækkun, 150 millj. kr., verði í ár lánaður til vegagerðar.

Um þessa breytingu má annars segja að um árabil hefur tollur á jeppabifreiðum aðeins verið 40% meðan tollar á öðrum fólksbifreiðum hafa verið 90%. Gjaldamunur þessi hefur á sínum tíma vafalaust átt vissan rétt á sér, en með breyttum þjóðlífsháttum og örri þróun jeppabifreiða úr því að vera eingöngu landbúnaðarbifreiðar í að vera bifreiðar til almennra nota og ört vaxandi notkun þeirra í þéttbýli verður að telja forsendur brostnar fyrir þessum gjaldamun. Með hinni nýju reglugerð eru gjöld af þessum bifreiðum að mestu leyti samræmd í tveimur áföngum þeim gjöldum sem í gildi eru af almennum fólksbifreiðum. Rétt þótti að hækka á sama hátt gjöld af vélsleðum, en innflutningur þeirra hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum, þar eð um að ræða ökutæki, sem eðlilegt verður að telja, að skattlögð séu í svipuðum mæli og fólksbifreiðar.

Hagstofan hefur metið verðlags- og kauplagsáhrif þeirra ráðstafana sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Áhrifa hækkaðs vörugjalds mun ekki gæta strax af fullum þunga í verðlagi og er áætlað að breyting gjaldsins úr 10% í 18% og breyting gjaldstofnsins muni hækka framfærsluvísitöluna um 4 stig 1. júní n.k. og til viðbótar um 3 stig 1. okt. Hafa ber í huga að í núgildandi lögum um vörugjald er ákveðið að gjaldið skuli lækka úr 10% í 6% 1. sept. n.k. og hefur hingað til verið við það miðað að sú lækkun hefði í för með sér lækkun framfærsluvísitölu um 3–4 stig til ársloka 1976. Áhrif þess gjaldauka, sem frv. þetta fjallar um, munu því í raun vera 10–11 stiga hækkun framfærsluvísitölu á árinu miðað við fyrri forsendur.

Í frv. er lagt til að 2.5 framfærsluvísitölustig komi til frádráttar framfærsluvísitölu 1. júní áður en vísitölunni er beitt til kaupgjaldsbreytinga, jafnframt komi til viðbótar 2.5 F-stig til frádráttar 1. okt. Hér er við það miðað að 1 milljarði kr. af vörugjaldsaukanum verði varið til eflingar landhelgisgæslu og til friðunarráðstafana, eins og áður sagði. Víðtæk samstaða virðist ríkja um nauðsyn slíkra ráðstafana, og eðlilegt er að auknum útgjöldum ríkissjóðs til eflingar landhelgisgæslu og friðunarráðstafana sé mætt með skattlagningu. Hækkun bensíngjalds veldur hækkun framfærsluvísitölu um 0.5 stig og kemur það til viðbótar framangreindri hækkun.

Þegar jafna á niður kostnaði sem varðar sérstaklega brýna alþjóðahagsmuni, eins og hér er um að ræða að því er varðar landhelgisgæslu og fiskverndunarráðstafanir, er sérlega mikill vandi að velja réttláta og raunhæfa aðferð. Vörugjaldið er m.a. valið vegna þess að nauðsynlegt er að styrkja stöðuna út á við og eins af því að það leggst léttar á lífsnauðsynjar, sérstaklega eftir breytinguna sem frv. gerir ráð fyrir. Að hve miklu leyti slík skattlagning á að valda launahækkun með tilliti til allra aðstæðna verður ekki komist hjá að svara. Flestir munu telja rétt að kostnaður af þessu tagi sé borinn uppi af landsmönnum öllum og því naumast efni til launahækkunar. Tillaga frv. er í samræmi við þetta. Ég tel, að fjh.- og viðskn. þurfi að skoða sérstaklega till. frv. um frádrátt frá „rauðu strikunum“ í vísitölunni samkv. gildandi kjarasamningum.

Nú standa yfir eða eru í undirbúningi miklar orkuframkvæmdir sveitarfélaga og ber þar hitaveitur langhæst. Eru framkvæmdir þessar fjármagnaðar með ýmsu móti af Lánasjóði sveitarfélaga, Orkusjóði, með erlendum lánum o.s.frv. Þegar gengið var frá lánsfjáráætlun í des. s.l. var ekki unnt að gera þessum málum viðhlítandi skil og því nauðsynlegt að afla nýrra heimilda til að ríkisstj. geti veitt sveitarfélögum þann stuðning í þessum efnum, sem nauðsynlegur er, án þess að dregið sé úr ábyrgð eða frumkvæði sveitarfélaganna varðandi þessar framkvæmdir. Till. frv. í þessum efnum eru tvíþættar:

Í fyrsta lagi er lagt til, að ríkissjóði sé heimilt að ábyrgjast lántökur sveitarfélaga vegna orkumála á þessu ári allt að 500 millj. kr.

Í öðru lagi felst í frv. heimild til fjmrh. til þess að leyfa sveitarfélögum, sem ráðast í meiri háttar hitaveituframkvæmdir, að afla fjár með verðbréfaútgáfu á innlendum markaði með hliðstæðum kjörum og ríkissjóður. Með þessu væri farið út á nýja braut er veitti sveitarfélögunum nokkru meira svigrúm en þau áður hafa haft varðandi lánsfjáröflun innanlands. Má vænta þess, að þau geti með þessum hætti vakið áhuga heimamanna á því að leggja sem mest fé af mörkum til hitaveituframkvæmda, jafnframt því sem dregið er úr erlendum lántökum til þeirra.

Verðbréfaútgáfa ríkissjóðs hefur sætt nokkurri gagnrýni að undanförnu og er nauðsynlegt að þessari nýju heimild verði beitt af varkárni.

Hitt er þó óneitanlegt, að slík lánsfjáröflun ætti að geta létt nokkuð á kröfum um lánveitingar innlánastofnana til hitaveituframkvæmda.

Rétt er að lokum að benda á að Lánasjóður sveitarfélaga virðist hinn eðlilegi forustuaðili varðandi lánsfjármögnun smærri hitaveituframkvæmda sem nú eru í undirbúningi víðs vegar um land. Er æskilegt að hann stuðli að sameiginlegu átaki lánastofnana til þess að veita hagkvæmum framkvæmdum á þessu sviði brautargengi, m.a. með samvinnu við Orkusjóð og Byggðasjóð.

Frá því að fjárlög voru afgreidd í des. s.l. hafa þjóðhagshorfur breyst talsvert og má telja að hær séu nú öllu lakari en þær virtust á s.l. hausti. Þróun útflutningsverðlags sjávarafurða hefur að vísu reynst hagstæðari en með var reiknað. Útflutningsverðlagið er um þessar mundir líklega 4–5% hærra í erlendri mynt en áður var spáð eða 13–14% hærra en í fyrra. Innflutningsverðþróunin virðist hins vegar svipuð og við var búist. En dræm fiskigengd við Suðvesturland og aflamissir vegna verkfalls, einkum á loðnuveiðum, veldur því að gjaldeyristekjur af sjávarvöruframleiðslu aukast líklega ekki frá fyrri spá, enda þótt útflutningsverð hafi hækkað meir en við var búist. Endurskoðun þjóðhagsspár fyrir árið 1970, sem nú er unnið að, m.a. vegna breyttra viðhorfa, bendir til þess að þjóðartekjur muni dragast nokkuð saman á árinu í stað þess að standa í stað, eins og áður var spáð. Þessar horfur ásamt veikri gjaldeyrisstöðu gera það enn brýnna en áður að þjóðarútgjöldin í heild dragist saman á árinu.

Ákvæði þessa frv. verður að skoða í ljósi þess markmiðs að draga verulega úr viðskiptahallanum við útlönd þegar á þessu ári. og er nú útlit fyrir að það muni takast ef ekki verða óvæntir atburðir síðar á árinu. Þetta er þeim mun brýnna sem greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum hefur aukist mjög að undanförnu og áhrifa mikillar skuldasöfnunar við útlönd mun gæta enn frekar á næstunni. Er því nauðsynlegt að takmarka svo sem unnt er frekari lántökur erlendis. En það verður ekki gert nema takist á næstu árum að treysta sem best innlenda fjáröflun og jafnframt að ráðast ekki í framkvæmdir nema fjáröflun sé tryggð.

Reynsla undanfarinna ára, einkum síðustu 2–3 ára, sýnir glöggt að hin árlegu fjárlög með hefðbundnu sniði hafa ekki reynst hentugt hagstjórnartæki til þess að mæta breyttum aðstæðum í efnahagsmálum. Þetta tímabil hefur verið tímabil mikils umróts í alþjóðlegum efnahagsmálum og tíðar breytingar á ytri skilyrðum þjóðarbúsins hafa sett sitt mark á framvindu íslenskra efnahagsmála. Af þessum og ýmsum öðrum ástæðum hefur oft þurft að grípa til aðgerða í efnahagsmálum, oftast með ríkisfjármál sem uppistöðu. Þannig má minna á efnahagslöggjöfina í apríl í fyrra, efnahagsmálafrv. og löggjöf sem komu fram á árinu 1974. Sú spurning hlýtur að vakna, hvort ekki geti verið eðlilegt að taka upp ný stjórntæki á sviði fjármála sem einfaldlega feli í sér viðurkenningu á þörfinni fyrir heimildir til þess að breyta innan ákveðinna marka tilteknum sköttum í hagstjórnarskyni og e.t.v einnig vissum greinum ríkisútgjalda. Hin árlegu fjárlög ætti að semja í samhengi 3–4 ára áætlana um ríkisútgjöld og ríkistekjur og þau ættu að taka mið af markmiðum um þróun starfsemi hins opinbera til nokkurra ára í senn. Hins vegar væru svo gefnar heimildir fyrir ríkisstj. til að breyta á fjárlagaárinu ákveðnum mikilvægum tekjustofnum og tilfærslugreiðslum til hækkunar og lækkunar innan ákveðinna marka. Samþykktar Alþingis væri síðan leitað eftir á við næstu úrlegu fjárlagaafgreiðslu og væri jafnan fráfararatriði e:f ekki fengist. Hugmyndir af þessu tagi hafa nokkuð komið til umr., bæði hér á landi og annars staðar, en mér virðist að nú sé tímabært að Alþ. láti þetta mál til sin taka. Þetta gæti verið leið til þess að svara kröfum breyttra tíma.

Hér hefur verið tæpt í fáum orðum á breytingu á meginreglum fjárlagalöggjafarinnar. Vitaskuld eru þetta ekki fullmótaðar hugmyndir og ljóst er að breytingar af þessu tagi yrðu umdeildar. Í sumum greinum snerta þær beinlínis grundvallarreglur stjórnarskrárinnar. Ég tel hins vegar að ítarleg athugun á þessu efni sé æskileg því að til mikils er að vinna að fjármálastjórn geti verið virk og hafi möguleika til þess að bregðast eðlilega við breyttum aðstæðum í þjóðarbúskapnum á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég mun nú ljúka máli mínu. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég vonast til að viðskn. beggja hv. þd. starfi saman til þess að hægt sé að auðvelda framgang þessa máls. Það liggur í augum uppi að mál af þessu tagi, sem nú liggur fyrir Alþ. þarf að sjálfsögðu að ganga hið allra fyrst fram, þótt það um leið fái ítarlega athugun og skoðun í þingi. Gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að þeir aðilar, sem um þetta mál fjalla á þingi, hafi haft í sínum höndum þessa helgi hugmyndir um efni þessa máls, og ég vonast til að hægt verði að ná viðtæku samkomulagi um hraða afgreiðslu þess.