03.05.1976
Neðri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3494 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Sigurður Blöndal:

Herra forseti. Við höfum nú fengið hér á þskj. 595 þau árlegu vorbjargráð, ef svo mætti kalla það, sem virðast vera að verða reglulegur viðburður hér í störfum Alþ. og hæstv. fjmrh. vék nú að áðan að fjárlagaafgreiðslan með núverandi sniði væri kannske að verða úrelt mál. Það er auðvitað mál út af fyrir sig, sem kannske væri hægt að ræða hér og ætti að ræða. En alla vega held ég að við verðum að segja að tíminn, sem þessu frv. var valinn til birtingar, virðist vera mjög hnitmiðaður. Hann kemur núna eftir 1. maí þegar alþýðusamtökin hafa verið að gera sínar kröfur. Og maður getur ekki varist þeirri hugsun að það gerist hér alveg sama og virðist vera mjög títt og rætt var um hér í þingsölum fyrir helgi, að þegar verðhækkanir skella á, m.a. hækkanir opinberrar þjónustu, þá vill svo einkennilega til að þær koma einmitt þegar nýbúið er að gera kjarasamninga og langt í næstu vísitöluhreytingar. Þessi tími er sem sagt mjög einkennilega valinn og þannig að það er óhætt að segja það að alþýðusamtökin höfðu ekki möguleika til þess að láta í ljós álit sitt á skattlagningunni úti á götunni eða á þeim fundum sem haldnir voru. En það má segja það líka að alþm. hér hafa ekki haft mikið ráðrúm til að átta sig á þessu. Þeir hafa nánast ekkert ráðrúm haft til þess flestir þeirra. Þetta viðamikla frv. var að koma inn á borðið hjá okkur núna fyrir nokkrum — ja, kannske tveimur klukkutímum eða eitthvað svoleiðis, einstaka menn fengu það núna um helgina, en tími til að bera saman ráð sín var ákaflega skammur og það er ekki hægt annað en mótmæla mjög harðlega slíkri aðferð.

Í stuttu máli er það höfuðmál í þessu frv., sem nú liggur fyrir, að það eru nýjar álögur í formi skatta upp á ca. 2.2 milljarða kr. til áramóta, eins og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir. Þar af er stærsti liðurinn, þ.e.a.s. 1.6 milljarður, í formi nýs eða endurnýjaðs og hækkaðs vörugjalds sem hækkar nú í 18% í stað lækkunar í 6% eins og búið var að ákveða áður. Þetta er vissulega stærsti líður fjáröflunarinnar sem þetta frv. tekur til. Auk þess er svo allvæn upphæð, 300 millj., sem er skyldusparnaður á tekjur hjá fólki sem er með háar tekjur. Það er sama og gert var í fyrra, og í sjálfu sér get ég fallist á það að þetta er lánsfjáröflunarleið sem ég tel að eigi fullan rétt á sér.

Það er hins vegar ekki hægt annað en lýsa ákveðinni andstöðu við þá aðferð sem hefur verið höfð hér við framlagningu þessa frv. Í raun og veru er ekki hægt að segja annað en það er kastað hanskanum framan í Alþýðusamband Íslands og önnur launþegasamtök, vegna þess að mikilvæg ákvæði í þessu frv. raska verulega grundvelli kjarasamninganna frá í vetur. Það er þegar búið að raska þeim svo mikið, eins og kom greinilega fram í þeim löngu umr. sem urðu hér á Alþ. á föstudaginn var, að manni finnst ekki á bætandi. Það er í stuttu máli þannig að samkv. frv. á vörugjald, sem á að gefa tekjur upp á 1 milljarð kr., 1000 millj., að takast út úr vísitölusamhenginu, það á ekki að koma inn í vísitölu framfærslukostnaðar. Samkv. grg. frv. er um að ræða alls í kringum 10–11 stiga hækkun á framfærsluvísitölu með þeirri skattlagningu, beinni og óbeinni, sem frv. felur í sér. og þar af alls um 5 stig bótalaust. Aftur á móti bregður svo við að það er ekkert um það í frv. eða grg., ekki einu sinni í grg., að það verði sett neitt þak á álagningu verslunarinnar. Það hefur verið í flýti reynt að reikna það út að bara fyrir þennan eina milljarð, sem frv. gerir ráð fyrir að verði tekinn út úr vísitölunni, muni verslunarálagningin nema eitthvað í kringum 300 millj. kr. Þar fyrir utan er svo auðvitað það sem kemur í hlut verslunarinnar fyrir veltuaukninguna á hinum 600 millj. En ég er að tala hérna um þann hluta vörugjaldsins sem meiningin er að taka út úr vísitölunni samkv. frv. Þarna er sem sagt ekkert þak sett á álagningu verslunarinnar á þetta, og það má segja að þetta beri sannarlega vott um að drottinn þekkir sína. Við vitum af þessu hvar drottinn sjálfur situr, sá hugsar um velferð verslunarinnar. Það höfum við að vísu vitað lengi.

Það er einn megingalli á þessu frv. Það er að þar er hrært saman í einn graut fjáröflun vegna vandræða ríkissjóðs og fjárskorts Landhelgisgæslunnar, og þetta er í sjálfu sér óþolandi. Hæstv. ríkisstj. hefði alveg tvímælalaust borið siðferðileg skylda til þess að hafa samráð við stjórnarandstöðuna um hvernig ætti að leysa hin sérstöku fjárhagsvandræði Landhelgisgæslunnar. Þar fyrir utan er svo fjármálum Landhelgisgæslunnar hrært saman við nauðsyn nýrrar fiskileitar og hafrannsókna og nýrra úrræða í sambandi við fiskveiðarnar vegna rýrnunar þorskstofnsins og annarra fiskstofna, sem mestar veiðar hafa verið stundaðar á hingað til. Um nauðsynina á því gátu allir vitað í haust þegar fjárl. voru til afgreiðslu, þannig að það hefði verið mjög eðlilegt að menn hefðu þá þegar séð þetta fyrir og tekið þetta á eðlilegan hátt inn í afgreiðslu fjárl. Svarta skýrslan svokallaða var komin út, það var sem sagt búið að hringja bjöllunni og menn vissu að þetta var vandamál sem þurfti að takast á við.

Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli á atriði sem stendur í grg. frv., þar sem rætt er um eflingu Landhelgisgæslunnar, og snertir einmitt þetta atriði, þessar hugmyndir eða þessi ákvæði um fjáröflun til hennar. Þar segir orðrétt í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Var þá gert ráð fyrir“ — þ.e.a.s. í haust eða á árinu 1975 — „að aðgerðir íslendinga til verndar fiskstofnum yrðu mjög bráðlega viðurkenndar réttmætar og deilur við önnur ríki yrðu til lykta leiddar.“

Þarna er það sagt svart á hvítu að hæstv. ríkisstj. hafi reiknað með því að það yrði samið við breta. Það var búið að semja við þjóðverja strax núna í haust, og þarna stendur það svart á hvítu að það átti að semja við breta. En svo þegar það tókst ekki, þá er vandinn kominn upp. Eins og þessu er hrært hér saman, þá er í raun og veru komið aftan að stjórnarandstöðunni með fjáröflunina og henni er hnýtt við aðgerðir sem stjórnarandstaðan, ég segi það a.m.k. fyrir munn Alþb., — hlýtur að verða andstæð í mjög mörgum atriðum, og ég trúi því og hef reyndar vitneskju um að launþegasamtök, eins og Alþýðusamband Íslands, hljóta að mótmæla kröftuglega ýmsum ákvæðum í þessu frv.

Ég vil víkja að fjáröflunartill. svolítið nánar. Aðalfjáröflunin er hugsuð með vörugjaldi, eins og ég sagði áðan. Það er út af fyrir sig kannske það jákvæðasta sem þar er að finna í því, það er hugmyndin að eigi sér stað viss tilfærsla milli vöruflokka frá því sem var þegar vörugjaldið var sett á á s.l. ári. Þar eru neysluvörur, eins og t.d. hveiti og sykur, sem eru beinar neysluvörur, og hráefni í margar nauðsynjar, þær eru teknar undan vörugjaldinu, en aftur unnar innfluttar vörur settar í staðinn. Sömuleiðis er timbur tekið undan, byggingartimbur, og það er út af fyrir sig gott og blessað. Við bíðum svo og sjáum, og við skulum taka vel eftir því hvort verð muni lækka á þeim fjölmörgu vöruflokkum sem svo aftur eru unnir úr þessum hráefnum, hveiti og sykri, og við skulum taka eftir því hvað byggingarkostnaður muni lækka við það að vörugjaldið er tekið af byggingartimbri. Við erum yfirleitt ekki vön því að slíkir hlutir gerist hér, þá sjaldan það kemur fyrir að vörur lækka á þessum árum. Við veitum því mjög sjaldan athygli að verð lækki þegar við þurfum að fara að greiða endanlega fyrir vöruna eða þjónustu sem hún er tengd. Og það má segja að það þyrfti að setja tryggingu fyrir að það yrði gert. En í raun og veru eru milliliðirnir yfirleitt látnir halda sínu.

Það er hér í frv. reiknað með fjáröflun til Vegasjóðs um 450 millj., og það sæti síst á mér, sem bý við vegi sem frá sjónarmiði fólks hér mundu vart verða taldir akfærir, að neita nauðsyn fjáröflunar í Vegasjóð. En það er með þetta atriði eins og fleira í þessu frv. að þetta átti auðvitað að gerast strax í fjárl. Það hefur í raun og veru ekkert óvænt komið upp í þessu efni. Það var hægt að taka tillit til alls þessa við fjárlagaafgreiðsluna, þannig að það þyrfti ekki að vera að koma aftan að mönnum með sumarkomunni. En hins vegar hlýt ég að viðurkenna að það verður auðvitað að skoða allar hugsanlegar leiðir til fjáröflunar í Vegasjóð.

Það er með ýmsar aðrar fjáröflunarleiðir sem hér eru nefndar, þær snerta útgjöld sem menn gátu séð fyrir strax við afgreiðslu fjárl. Hæstv. ríkisstj. hefur þó greinilega ekki reiknað með þeim 750 millj. kr. sem hér er rætt um til landhelgisgæslunnar af því að hún hefur gert ráð fyrir því að samið yrði við breta. Hins vegar vil ég minna á það, að við fjárlagaafgreiðsluna í vetur fluttu þm. úr Alþb. brtt. þar sem þeir lögðu til að settar yrðu á fjárlög 350 millj. kr. til eflingar landhelgisgæslunnar strax í vetur. Alþb.-menn reiknuðu með að þörf yrði á því. og vissulega hefur það reynst rétt.

Í þessu frv. er ráðið í skattlagningunni eða tekjuöfluninni fyrst og fremst í aðalatriðum óbein skattlagning. Alþb. hefur bent á og alþjóð er kunnugt um að það er viða mikill leki í hinni beinu skattlagningu vegna rangra og ófullkominna ákvæða í tekjuskattslögum. Það rennur frá ríkissjóði stórfé sem þangað ætti að skila sér ef betur væri á haldið. Og ég vil þá nota tækifærið einmitt út af þessu að minna á það frv. á þskj. 34 sem hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, hefur flutt snemma á þessu 97. löggjafarþingi um endurskoðun ákvæða tekjuskattslaga, um í fyrsta lagi fyrningu, í öðru lagi hámark vaxtafrádráttar og í þriðja lagi áætlað lágmark þeirra sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri. Í grg. fyrir frv. er bent á að með hjálp flýtifyrningar geti afskriftir á ári orðið upp í 25.35% fyrir öll flutningatæki, skip, bifreiðar, vinnuvélar og önnur tæki til mannvirkjagerðar. Síðan segir flm. orðrétt í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Hámark fyrninga á öðrum vélum er 2.5% lægra. Með þessum miklu fyrningarheimildum geta fyrirtæki á 4 árum sloppið við að greiða skatt af tekjum sem nema 80–90% af andvirði fyrnanlegra eigna sem þó er ætlað að endast mun lengur. Með stöðugri fjárfestingu geta fyrirtækin komist hjá því að greiða tekjuskatt um mjög langt skeið, og það furðulegasta er, að þegar eignin er fullfyrnd, þarf fyrirtækið aðeins að selja hana og festa sér í staðinn aðra eign til þess að geta byrjað að afskrifa á nýjan leik af fullum krafti. Er þá stundum um að ræða að eignirnar, sem koma í staðinn fyrir þær seldu, hafa áður verið að fullu afskrifaðar hjá fyrri eiganda, og getur þannig sama eignin orðið til þess að spara nýjum og nýjum eiganda tekjuskattsgreiðslur, sem nema mörgum millj. kr. Til þess að tryggja enn frekar að fyrirtækin sleppi vel frá álagningu tekjuskatts, er fyrirtækjunum heimilað í 17. gr. skattalaga að leggja í varasjóð 1/4 af hreinum tekjum félaganna áður en tekjuskattur frá árinu áður hefur verið frá dreginn. Þessi fjórðungur tekna er skattfrjáls með öllu, og var upplýst á síðasta þingi að fyrirtæki með félagsformi hefðu dregið frá hreinum tekjum sínum 511 millj. kr. á árinu 1974 og lagt í varasjóð.“

Hér er augljóslega um meiri háttar fjárhæðir að ræða, og þó að það sé auðvitað ekki ráðrúm til við afgreiðslu þeirra útgjaldaliða, sem þetta frv. ræðir um núna, þá er samt ástæða til að minna á að þarna eru stór göt í tekjuskattslögunum þar sem hægt væri að afla tekna sem mundi vera aflað réttlátlegar heldur en þar sem hér er áætlað eða meiningin að gera með óbeinni skattlagningu.

Ég vil endurtaka það, að það eru engin atriði í þessu frv. sem fjalla um ný vandamál, heldur vandamál sem ríkisstj. skaut á frest í haust og vetur fyrir jól. nema þá landhelgisgæslunnar. Og það var þó mat Alþb. að þá þegar væri þörf á því. Um verðbólguþróunina var vitað og að nýir kjarasamningar yrðu gerðir, bæði við Alþýðusamband Íslands eða aðildarfélög, þess og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna. Stofnanir eins og Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki hafa alltaf spár um verðlags- og verðbólguþróunina á hverjum tíma, þannig að við vissum auðvitað hvað mundi gerast. Þeir spá um hvað mikla prósentu verðbólgan hækki eitthvert tiltekið tímabil fram í tímann. Talsmaður Alþb. í hv. fjvn. Alþ. gagnrýndi einmitt við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1976 að þau spegluðu ekki nægilega fyrirsjáanlega þróun. Og svo er þessum úrræðum, sem við höfum á þessu þskj. sem til umr. er, dembt með hraði og engum fyrirvara yfir alþm., og við þykjumst vita að það verði keyrt með forgangshraði gegnum þingið. Það er enginn tími til gaumgæfingar á svo stóru máli, og slíkt virðist því miður einmitt vera einkennandi fyrir vinnubrögð hér á hinu háa Alþ., þar sem þar eru það hin litlu mál sem eru fædd lengst og mest, en slík vinnubrögð eru löggjafarsamkundunni til lítillar sæmdar og forkastanleg.

Eins og drepið var á áðan, eru í 8. gr. frv. ákvæði um að verja allt að 1000 millj. kr. til eflingar landhelgisgæslu og fiskverndar. Okkur er öllum ljóst að útvega verður fé í þessu skyni. Nauðsyn fiskverndarinnar og leit að nýjum úrræðum í sjávarútvegi var auðvitað jafnaugljós í haust eins og hún er nú. En það var ekkert fyrir því hugsað þá, og menn geta því verið sammála um að það sé nauðsynlegt að gera það nú. Landhelgisgæsluna vantar sitt fé. Við verðum að viðurkenna að vörugjaldið er að sjálfsögðu miklu skárri fjáröflunarleið en söluskattur. En með því að taka verðhækkunina, sem af því leiðir, út úr vísitölunni, er farin leið sem ég held að sé óhugsandi að Alþýðusamband Íslands og önnur launþegasamtök muni samþykkja eins og allt er í pottinn búið og enn síður þegar verslunin á að fá að græða aukalega á því sem af öðrum er tekið. Ég endurtek að um þennan sérstaka gjaldalið átti hæstv. ríkisstj. að hafa samráð fyrir fram við stjórnarandstöðuna. Vegna þessarar málsmeðferðar hefur hæstv. ríkisstj. í raun réttri afsalað sér möguleikum á hugsanlegri samstöðu við stjórnarandstöðuna um þetta sérstaka mál, þar sem hún hnýtir við það ráðstöfunum sem a.m.k. Alþb. telur að hefði mátt og átt a.ð gera þegar við afgreiðslu fjárl. í vetur.

Einstök atriði þessa frv. ræði ég þá ekki frekar við þessa umr. En það er höfuðatriði við meðferð málsins í n. að launþegasamtökin verði þar til kvödd og það verði hlustað eftir áliti þeirra, bæði Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, sem öll eru með nýgerða kjarasamninga.