03.05.1976
Neðri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3504 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Út af því, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði áðan, þá er það auðvitað löngu orðið ljóst að núv. hæstv. ríkisstj. ræður ekkert líkt því við þann vanda sem við blasir og ætti auðvitað fyrir löngu að vera búin að segja af sér. Ætli það sé tilviljun ein að nú 3. maí, tveimur dögum eftir hinn alþjóðlega frídag verkamanna, sé lagt fram hér á Alþ. frv. sem hefur inni að halda slík þrælalög gagnvart verkalýðshreyfingunni eins og greinilegt er að sum ákvæði þessa frv. hafa að geyma? Það má segja að það eru alltaf að koma betur og betur í ljós þeir eiginleikar núv. hæstv. ráðh., og það á ekki síst við hæstv. fjmrh., sem felast í því að geta svo að segja kyngt öllu sem hugsanlegt er af því sem áður hefur verið gert og sagt af hæstv, ráðh. hér á Alþ. Slíkir eru burðarþolshæfileikar hæstv. ráðh, í núv. ríkisstj. að með ólíkindum má telja.

Hér er nú til umr. frv. til l. sem fyrst og fremst hefur inni að halda að hækka hið illræmda vörugjald upp í 18%. Saga þessa vörugjalds og þar með saga hæstv. fjmrh, er samtengd með þeim hætti að 17. júlí s.l. var sett á þetta vörugjald með brbl. Í öðru fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., sem lagt var fram hér á Alþ. í okt. s.l., var boðað afnám þessa vörugjalds frá og með síðustu áramótum. Við 3. umr. fjárl. í des. s.l. breytti hæstv. fjmrh. enn um stefnu og lagði til að lækkað yrði þetta vörugjald úr 12% í 10% til 1. sept. 1976, en þá skyldi það lækka í 6%. Og nú er þessi hæstv. ráðh. hér kominn með frv. um það — ekki að lækka þetta í 6%, það þurfti ekki, heldur að hækka það í 18%. Slíkur er nú gangur ekki bara þessa máls, heldur og velflestra mála hjá hæstv, ríkisstj. Og ekkert er ég hissa á því þó að hæstv. ráðh. brysti kjark til þess að láta þetta sjá dagsins ljós á Alþ. áður en verkalýðshreyfingin hélt upp á baráttudaginn 1. maí, s.l. laugardag. Frv. var þá tilbúið, en kjarkinn brast. Það þarf í raun og veru meira en meðalmennsku til þess að leggja slíkt á borð, ekki síst með hliðsjón af öllu því, sem á undan er gengið af hálfu hæstv. ríkisstj., og fjandskap hennar við verkalýðshreyfinguna eftir að samningum lauk á s.l. vetri. Hér er að mínu viti miklu meira en meðalmennska í skrípaleiknum, og það er slæmt hjá þeim stofnunum, sem hafa sirkus á sínum snærum, að ekki skuli hafa nýst eða uppgötvast þessir hæfileikar hæstv. ráðh. á fjölum fjölleikahúsa.

Við umr. hér utan dagskrár s.l. föstudag kom berlega í ljós hver er í raun og veru hugur hæstv. ríkisstj. og ekki síst oddvita hæstv. ríkisstj., forsrh., til verkalýðshreyfingarinnar. Þeirrar ræðu, sem hann hélt þá í sambandi við verðlagsmál og þróun þeirra frá lokum kjarasamninga, mun ábyggilega verða lengi minnst af þeim sem með verkalýðsforustu hafa farið og starfa á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar.

Það frv., sem hér er nú til umr., er aðeins einn hlekkurinn í þeirri árásarkeðju sem hæstv. ríkisstj. hefur sett upp og ætlar sér sýnilega að framkvæma gagnvart verkalýðshreyfingunni. En svo slæmt sem þetta mál, hækkun vörugjalds upp í 18%, er launafólki almennt í landinu, þá er þetta að mínu viti algert hnefahögg í andlit þess fólks sem býr úti á landsbyggðinni. Það var reiknað út eftir að 12% vörugjaldið var á sett, að 12% vörugjaldið þýddi í raun og veru allt upp í 21% eða vel það hækkun vöruverðs úti á landsbyggðinni. Hér er líklega í framkvæmd eitt af hinum marggefnu loforðum hæstv. ríkisstj. um stóreflda byggðastefnu. Það sýnir sig í þessu frv.

Auk annars í þessu frv. er rökstuðningur fyrir þessari nýju gjaldheimtu eða skattlagningu sá að afla þurfi tekna til að auka landhelgisgæsluna, til rannsókna í sambandi við fiskveiðar og til Vegasjóðs. Áður en vikið er að þeim þáttum er rétt að veita aðeins fyrir sér hvernig þetta mál, hækkun vörugjalds í 18%, sem kemur til með að auka skattheimtu í landinu um a.m.k. 1800 millj. kr. og helming þeirrar upphæðar eiga launþegar samkv. frv. að bera bótalaust, — það er vert að velta því fyrir sér hvernig slík aðgerð, slík ákvæði skoðast frá sjónarhóli verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst þegar lítið er aftur til þess tíma og þeirra yfirlýsinga sem hæstv. ríkisstj. gaf um það leyti sem verið var að ganga frá kjarasamningum um mánaðamótin febrúar — mars s.l. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar kemur ótvírætt fram í ályktun sem gerð var á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands í morgun, og þarf engan að undra þá afstöðu, sem þar er lýst, sem kynnt hefur sér mál og fylgst með hvað verið hefur að gerast. Ég ætla ekki hér að vitna til þessarar ályktunar. Ég veit að hv. 7. þm. Reykv., sem talar hér á eftir, mun taka þetta mál og það, sem að því snýr, til sérstakrar meðferðar, og ég skal því sleppa því í mínu máli að lesa hér upp úr þessari ályktun; en þar kemur glögglega í ljós hvernig verkalýðshreyfingin lítur það mál sem hér er nú lagt á borð alþm.

Ég velt ekki betur en allir þm. á hv. Alþ. hafi verið um það sammála, jafnt stjórnarandstaða og ekki síður hún heldur en hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðar, að efla þyrfti landhelgisgæsluna og auka tekjur til þess. því hefur verið marglýst hér yfir. Til þessa þáttar er gert ráð fyrir 1 milljarði kr., að vísu eru þar með tekjur til þess að auka fiskirannsóknir og slíkt, en megnið af þessum 1000 millj. mun þó ætlað til landhelgisgæslunnar. Því hefur verið marglýst yfir af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar að þeir væru reiðubúnir til þess að taka þátt í því að finna leiðir til að efla landhelgisgæsluna, finna leiðir til að auka tekjur hennar til þess að af því gæti orðið. Og því hefur verið lýst yfir af hæstv. forsrh. og ég held líka af hæstv. dómsmrh. að stjórnarandstöðunni mundi verða gefinn kostur á því að fylgjast með því hvaða leiðir yrðu farnar til þess að afla tekna til landhelgisgæslunnar. Þetta eru efndirnar. Nú er lagt hér á borð hv. alþm. frv. þessa efnis án þess að eitt eða neitt samráð, mér vitanlega a.m.k., hafi verið haft við stjórnarandstöðuna um hvaða leið ætti að velja til að afla tekna til landhelgissjóðs. Mér er ekki um það kunnugt að það hafi verið rætt við stjórnarandstöðuna að fara þessa leið. Það er ekki fyrr en núna að það sést í frv. formi hér á Alþ., hvernig hæstv, ríkisstj. ætlar sér að framkvæma þetta. Og þetta eru þær efndir á loforðum sem gefin hafa verið, ekki bara einu sinni og ekki tvisvar, heldur margoft hér á Alþ. af hæstv. ráðh. Slíkar eru efndirnar.

Eins og hér var komið inn á af hv. 9. þm. Reykv., þá er hér um að ræða eingöngu skattlagningu á almenning í landinu án þess að ein eða nein viðleitni sé sýnd til þess af hálfu ríkissjóðs að gera eitt eða neitt til þess að sýna sparnað og að hann gæti með þeim aðgerðum tekið á sig hluta þess sem afla þarf til þess að standa undir því sem gera á. Það væri út af fyrir sig sjálfsagt að taka það til athugunar, ef um það næðist samstaða, að hækka eitthvað vörugjald það, sem nú er í gildi, til þess að afla landhelgisgæslunni tekna. En það væri því aðeins hinn minnsti möguleiki á samstöðu um það mál að það kollvarpaði ekki með öllu og ógilti þá kjarasamninga sem gerðir voru nú fyrir nokkru. Ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda sér við það ákvæði þessa frv. að láta launþega bera bótalaust helming þessarar skattlagningar, þá er hún þar með endanlega að segja verkalýðshreyfingunni stríð á hendur, og ég a.m.k. hélt að nóg væri komið af andstöðu hæstv, ríkisstj. gagnvart verkalýðshreyfingunni eins og hún hefur á málum haldið á undanförnum vikum. Það er ekkert vafamál að haldi hæstv. ríkisstj. fast við þetta ákvæði frv., að ógilda þar með á þennan hátt kjarasamningana, þá hefur hún kastað stríðshanskanum fyrir fullt og allt gagnvart verkalýðshreyfingunni og hún ber þá ábyrgðina jafnframt.

Það er líka gert ráð fyrir því, eins og hér hefur komið fram, í þessu frv. að afla tekna til Vegasjóðs. Þegar fjárlög voru afgreidd í des. s.l. var ljóst öllum nema þá hæstv. ráðh. að það var talið að það vantaði um einn milljarð í tekjur til þess að hægt væri að halda raungildi framkvæmda þeirrar vegáætlunar sem í gildi er frá árinu 1974–1977, — einn milljarð. Á þetta var blásið þá og ekki talið þurfa að sjá fyrir neinum sérstökum tekjum til þess að brúa þetta bil. En nú er sem sagt gert ráð fyrir því að vegáætluninni sé umturnað og hún skorin upp frá rótum. 620 millj. af þessum 1800, en líklegast verða þær 2000, er ætlað að renna til Vegasjóðs. Ekki skal ég draga úr þeirri þörf sem er til að sjá Vegasjóði fyrir fjármagni til að standa straum af vegaframkvæmdum, þ.e.a.s. ef þær eru skynsamlegar og unnið það sem þarf fyrst og fremst að vinna og mest er þörfin. Ég hef fullan kjark til að nefna ákveðin dæmi í þessu efni þó að suma hv. stjórnarliða hafi á sínum tíma brostið kjark til að nefna ákveðnar framkvæmdir. En ég ætla að sleppa því í bili, það kemur á dagskrá síðar. Þetta er sem sagt myndin: Það var blásið á það í haust við afgreiðslu vegáætlunar að það þyrfti að afla fjár til Vegasjóðs, en nú er allt í einu komið upp með 620 millj. kr. þörf til þess að standa aðeins í stöðunni krónutölulega séð miðað við vegáætlunina sem er í gildi.

Ég hygg að hv. alþm. sé orðið ljóst af mínu máli, að ég er andvígur þessu frv. í meginatriðum. Ég skal þó taka fram að ég tel eðlilegt og gæti stutt það í þessu frv. sem fjallar um skyldusparnaðinn. Ég hef verið hlynntur því og er það enn. En meginatriðum frv.: hækkun vörugjalds upp í 18% og að láta launþega í landinu bera helming þeirrar hækkunar bótalaust, er ég algjörlega andvígur. En þá er ekki nema eðlilegt að spurt sé: Hvað viljið þið, sem andvígir eruð þessum tekjuöflunarleiðum, gera til þess að afla tekna? Og það er fljótsagt. Það er vandalaust að ná þessari upphæð sem hér um ræðir, 2000 millj. og þótt meira væri, ná henni með því að breyta skattalöggjöfinni í landinu, með því að fara að ráðum sumra hverja hæstv. ráðh., sem hafa gefið fjálglegar yfirlýsingar hér, um að skattalögunum skyldi breytt á yfirstandandi þingi, þ. á m. hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. sem hafa gefið um það yfirlýsingu hér á Alþ. að skattalöggjöf yrði breytt á þessu þingi og það ætti að breyta henni í þá átt að breyta fyrningar- og afskriftarreglum. Fullyrði ég að það eitt mundi vel brúa það bil sem þarna er um að ræða til tekjuöflunar. En þar er augljóslega komið við kaunin í peningaflokkum hæstv. ríkisstj. nú, og það er greinilegt að það á ekkert að gera í sambandi við breytingu á skattalöggjöf, a.m.k. örugglega ekki í þessa átt, ekki á yfirstandandi þingi, heldur skal haldið áfram á þeirri braut, sem hæstv. ríkisstj. hefur markað sér, þ.e. að leita umfram allt á garðinn þar sem hann er lægstur, láta sverfa til stáls gagnvart verkalýðshreyfingunni. Þó að verkalýðshreyfingin hafi strax í haust boðið samstarf um lausn efnahagsog kjaramála, þá er á það blásið og ríkisstj. virðist ætla að halda þeirri stefnu áfram að vera í algjörri andstöðu við launafólk í landinu.

Mitt svar við því að afla tekna til þess, sem hér er um að ræða, er fyrst og fremst að það ber að gera með því að breyta skattalöggjöfinni, með því að láta af því verða, þó seint sé, að fyrirtæki og atvinnurekstur í landinu fari að láta eitthvað af hendi rakna til hins sameiginlega sjóðs. Og eins og ég sagði áðan, þessari upphæð og vel það væri hægt að ná með slíkri breytingu. En ég þykist vita að um slíkt er ekki að tala meðan núv. valdhafar ráða, en þeir verða þá að taka afleiðingum þess sem hér á að gerast. En ég ítreka það, það er enginn vafi á því, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að lemja þetta frv. hér í gegnum þingið óbreytt eins og það nú lítur út, með þeim ákvæðum að ógilda kjarasamningana að þessu leyti, þá hefur hún þar með endanlega sagt verkalýðshreyfingunni stríð á hendur. Og af því verður hún sjálf að súpa seyðið.