04.05.1976
Efri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

243. mál, áfengislög

Jón Helgason:

Herra forseti. Það er ekki ástæða fyrir mig að hafa hér mörg orð um þar sem ég get tekið undir það sem hv. 1. flm. þessa frv. sagði í framsöguræðu sinni áðan. En mér var ljúft að verða aðili að því að flytja þetta frv., í fyrsta lagi af því að mér fannst sjálfsagt að það nál., sem áfengismálanefnd, sem Alþ. kaus, skilaði, væri flutt hér á Alþ., og svo í öðru lagi að það væri þörf á að vekja athygli á þessu máli þar sem ég er þeirrar skoðunar að áfengisvandamálið sé eitt af okkar stærstu vandamálum, og það er mikilsvert að fá umr. um það.

Eins og við vitum, þá er almenningsálitið ekki nægilega sterkt gegn neyslu áfengis eins og er. Mér virðist að almenningur líti þessi mál ekki nægilega raunsæjum augum. Við verðum varir við það, t.d. í umr. um áfengismál, að þessu vandamáli er stundum mætt með hálfgerðu háði, þrátt fyrir þau ömurlegu örlög sem margir hafa hlotið af völdum áfengis. Mér finnst að það skjóti skökku við viðbrögð manna sem algengust eru þegar hættu ber að höndum, en um hættu er tvímælalaust oft að ræða þegar áfengi er annars vegar. Við vitum það t.d. ef einhver er staddur í sjávarháska að þá eru flestir boðnir og búnir til þess að aðstoða eftir föngum og bjarga. En þó að við sjáum að margir hljóti ill örlög af völdum áfengis, láti lífið af völdum þess eða verði óvinnufærir þá virðist sem almenningsálitið sé ekki nægilega sterkt til þess að bregða þar skjótt við.

Ég ætla ekki að halda því fram að þær till., sem hér eru fluttar, séu endilega þær bestu eða það eina rétta, og við vitum að það er sitthvað, hvað við teljum æskilegast að nái fram að ganga, og svo hitt, hvað við teljum að raunhæft sé og beri bestan árangur á hverjum tíma. En ég held að í þessu máli skipti ákaflega miklu viðhorf ríkisvaldsins, að það sé viðurkennt af ríkisvaldi að neysla áfengis sé vandamál sem þurfi að neyta allra úrræða til að draga úr og berjast gegn. Og ég er algjörlega ósammála skoðun hv. 2. þm. Norðurl. e. að við eigum að viðurkenna að þessi neysla og afleiðingar hennar séu óhjákvæmilegar og sjálfsagðar, hafi verið og eigi að vera förunautur okkar manna. Og ég er þá einnig algjörlega ósammála því að bjargráð í þessu máli sé að auka vínveitingar og aðstöðu til neyslu þess, reisa fleiri vinveitingahús og auka frelsi í þessum málum, t.d. með áfengum bjór. Ég held að reynslan hafi sýnt að það er ekki bjargráðið í þessum efnum. Við höfum það fyrir augum hversu mikið vandamál þetta er bæði fyrir marga einstaklinga og þjóðfélagið í heild beinlínis í miklum fjárútlátum. Það þarf að reisa mikið af sjúkrahúsum til þess að taka á móti þeim sem beðið hafa skipbrot af völdum áfengis. Það þarf að margfalda löggæslu til að líta eftir þeim sem hafa neytt þess í óhófi. Og mér finnst að það sé algjörlega fyrir neðan virðingu mannsins að slíkt skuli henda, að hann þurfi slíkt eftirlit. Ég vil endurtaka það, að það sem ég tel fyrst og fremst tilgang þessa frv. er að vekja athygli á þessu máli og reyna að fá það fram að ríkisvaldið telur neyslu áfengis svo mikið vandamál að það þurfi að neyta allra úrræða til að draga úr henni.