04.05.1976
Efri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

243. mál, áfengislög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það kemur fram í þessu máli eins og mörgum öðrum að þótt menn hafi á raun og veru sama markmið, þá greinir þá á um leiðirnar. Ég efast ekkert um að hv. 2. þm. Norðurl, e. geri sér fulla grein fyrir vandamálum ofdrykkjunnar og hann geri sér fulla grein fyrir því að þjóð okkar er í miklum vanda vegna þess að við drekkum of mikið og of illa. En okkur kemur bara ekki saman um hvaða leiðir eigi að fara að því marki að minnka drykkjuna eða gera hana hóflegri. Þetta er kannske ekki óeðlilegt, því að stundum getur verið með hættulega sjúkdóma eða hættuleg efni að visst öryggi sé í því að komast í snertingu og fá svonefnt ónæmi fyrir því. T.d. er fyrir mann til að umgangast annan með kúabólu nauðsynlegt að það sé búið að sprauta í hann kúabólu áður. Þetta er aftur á móti ekki svo um áfengið, vegna þess að áfengið er ávanaefni og leiðin til þess að gera mann að ofdrykkjusjúklingi er einmitt að hann fari þessa hægfara leið, að hann smakki á efninu fyrst og haldi síðan áfram og hver snafs, það má í raun og veru segja að hann kalli á þann næsta, fyrst og fremst vegna eðlis þess efnis, á sama hátt og sjúklingur sem er skorinn upp á spítala, hann fær morfín, og það er sama með morfínið, það kallar gjarnan á næsta skammt vegna þess að það hefur þetta sama eðli og þessa sömu eiginleika. Þess vegna er hætt að gefa manninum morfín eins fljótt eins og mögulegt er, og þó kemur stundum fyrir að það er of seint.

Hitt er svo annað mál, að það frv.. sem hér liggur fyrir, er ekki um neitt bann á vínveitingum og það er ekki um neitt áfengisbann að neinu leyti. Það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða er, að það er verið að vissu leyti að þrengja kosti þeirra sem mega veita vín. Þeir þurfa að borga meira í ríkissjóð til þess að fá leyfi til að selja mönnum áfengi. Í öðru lagi á að reyna að hafa áhrif á leynivínsöluna með því að láta menn hafa sérstök áfengiskaupaskírteini með nafnnúmeri og mynd. Þetta þykir kannske ekki gott, og ég er ekki viss um að flm. séu endilega sannfærðir um að það komi til að þessi grein verði samþ. En það er vitað mál að a.m.k. hér í Reykjavík og jafnvel víðar á landinu eru fullorðnir menn sem hafa af því sína atvinnu og sína möguleika til að drekka brennivín að sniglast í kringum áfengisútsölurnar, fara inn í þær, taka við peningum af ófullveðja unglingum og kaupa áfengi til þess að afhenda þeim aftur og fá sjálfir hluta af því. Þetta vita allir, og þetta er hægt að sanna hvenær sem er. En þetta er eitt af því sem á að reyna að fyrirbyggja með þessu ákvæði.

Þetta, sem 1. flm. lagði áherslu á, að flm. væru ekki allir sammála um ákvæðið um 20 ára aldurinn, það er alveg rétt. Það er mikið ósamræmi í þessu eins og það er, og ég held að það væri rétt að flytja þetta niður í 18 ár, eingöngu vegna þess að unglingar eru þroskaðri núna og eru búnir að umgangast skemmtistaði og vín kannske lengur en fyrr á tímum, þannig að þeir eru e.t.v. komnir á giftingaraldur, a.m.k. kvenfólkið, 18 ára og er óeðlilegt að hafa ekki samræmi í þessu. Ég held því að þarna sé svolítið vafasamt hvað gera skuli.

Hitt er svo annað mál, að alkóhólisminn er stórkostlegt vandamál. Og þetta er ekkert nýtt. Þetta er aldagömul saga og aldagamalt vandamál. Menn voru lengi vel ósköp rólegir og álitu vínið af hinu góða, en ekki hinu illa. Þetta er, eins og við vitum, frá biblíulestrinum. Sömuleiðis er það að jafnmerkur maður og Pasteur, hann leit á áfengi sem heilsusamlegan og góðan drykk. Það er kannske ekki fyrr en löngu seinna sem menn virkilega uppgötva þá annmarka sem brennivínsdrykkjunni fylgja, en þeir eru nefnilega ansi margir. Þeir eru svo margir að nú mun vera í flestum menningarlöndum eða löndum þar sem ekki er bannað að drekka áfengi vegna trúarbragða, þá mun þetta vera ein af algengustu dauðaorsökum. T.d. í Bandaríkjunum er þetta þriðja algengasta dauðaorsök. Og meira en það, segjum það sé þriðja algengasta dauðaorsök, en það er líklega langsamlega algengasta sjúkdómsorsökin. Nú á þeim tímum, þegar fjöldi þjóða er að kvarta mjög yfir kostnaði við heilsugæslu, þá getum við ekki komist hjá því að athuga það gaumgæfilega að áfengið veldur gífurlega mörgum sjúkrahúsdögum, að það gerir mikinn fjölda manna og kvenna óvinnufæran, ýmist um tíma eða fyrir fullt og allt, að starfsævi manna, sem drekka í óhófi, styttist jafnan um 15–20 ár, og það sem kannske er þó verst af öllu, þetta hefur mjög mikil áhrif á allt fjölskyldulífið og kemur því ekki eingöngu niður á þeim einstaklingi sjálfum sem drekkur áfengið, heldur á öllu hans umhverfi og hefur mikil áhrif á lífshamingju fjölskyldunnar, hvort sem það er faðirinn, sonurinn eða dóttirin sem í hlut á.

Ég lít svo á að þessar breytingar á áfengislögunum séu til bóta og ekki síst 4. gr. Það er eins og tekið var fram hér, það er í raun og veru nýmæli að koma upp afvötnunarstöð. Það skal viðurkennt að þetta er ekki óumdeilt, og ég veit ekki hvort sérfræðingar okkar á þessu sviði eru nokkuð sérstaklega spenntir fyrir því að fá svona sjálfstæða stofnun. En þetta hefur reynst viða mjög vel, og ég held að það sé alveg öruggt mál að við gætum notið þess hér og gætum haft mikið gagn af slíkri stöð ef hún ynni í samvinnu við ofdrykkjuvarnirnar í landinu. Það er að ýmsu leyti auðvelt fyrir slíka stöð að hafa samband við atvinnulífið, hafa samband við sjúklingana úti á vinnustað, fylgjast nokkuð með þeim, kannske öllu betur en opinberar stofnanir. Þetta ásamt ýmsu öðru gerir það að verkum að ég álft að það væri nokkuð stór áfangi á okkar leið ef hægt væri að koma þessari stöð á laggirnar sem allra fyrst.

Við fáum víst þetta frv. til meðferðar í heilbr.og trn. og þess vegna ætla ég ekki að hafa um það fleiri orð núna. Ég vildi gjarnan að við reyndum að koma þessu frá okkur ef tími ynnist til. Ég sé ekki að þetta sé frv. sem geti valdið mikilli andstöðu. Við erum hér að gera tiltölulega einfaldar tilraunir sem reyndar eru nokkuð viðurkenndar annars staðar, og ég held að það geti varla verið andstaða, nema ef það skyldi frekast vera gegn aldursmarkinu.